Hoppa yfir valmynd
1. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland leggur fram 350 milljónir í áheitasöfnun vegna Jemen

Utanríkisráðherra á áheitaráðstefnunni. - mynd

Á mannúðarráðstefnu vegna neyðarinnar í Jemen í vikunni upplýsti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að Ísland legði fram 350 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í landinu fyrir tímabilið 2023 til 2025. Hún ítrekaði eldri áheit að upphæð 95 milljónir króna fyrir árið í ár. Alls bárust 31 fyrirheit um framlög á ráðstefnunni að upphæð 1,16 milljónir bandaríkjadala.

Eftir átta ára stríðsástand ríkir enn neyðarástand í Jemen. Rúmlega 21 milljón manns, tveir af hverjum þremur íbúum landsins, þurfa á mannúðaraðstoð og vernd að halda á árinu, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir að sex mánaða vopnahlé stríðandi fylkinga á síðasta ári hafi bætt ástandið hjá óbreyttum borgurum um tíma ríkir skelfileg neyð í landinu, einkum vegna þess að grunnþjónusta er að miklu leyti horfin og efnahagsástandið fer versnandi.

Jemen er einnig í hringiðu hamfarahlýnunar með síendurteknum náttúruhamförum þar sem flóð og þurrkar ógna lífi fólks á víxl og setja öryggi þess og velferð í uppnám. Að mati hjálparstofnana þarf 4,3 milljónir bandarískra dala til þess að aðstoða íbúa. Einungis náðist á áheitaráðstefnunni í vikunni að safna fjórðungi þeirrar upphæðar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta