Hoppa yfir valmynd
12. mars 2020 Utanríkisráðuneytið

Ári eftir Idai fellibylinn eiga margir enn um sárt að binda

Bráðabirgðakennslustofa sem Barnaheill - Save the Children settu upp í Sofala héraði í Mozambique í kjölfar fellibylsins Idai. - mynd

Alþjóðlegar hjálparstofnanir, Save the Children, CARE international og Oxfam, telja að án fjármögnunar og aðgerða í loftslagsmálum sé ómögulegt að takmarka áhrif loftslagsbreytinga sem hafa sérstaklega slæm áhrif á þau ríki sem eru viðkæmust fyrir. Að mati þeirra virðast áhrif loftslagsbreytinga vera að aukast og því sé nauðsynlegt að koma á metnaðarfullum aðgerðum.

Í frétt á vef Barnaheilla – Save the Children segir að hitastig í sunnanverðri Afríku hafi farið hækkandi og hækkunin sé tvöfalt meiri en meðaltalið í heiminum. Fjöldi ríkja í sunnanverðri álfunni hafi orðið fyrir alvarlegum náttúruhamförum á síðastliðnu ári og um 16,7 milljónir manna búi við verulegt fæðuóöryggi. Áætlað sé að í Mósambík séu um tvær milljónir manna án aðgangs að mat til að mæta viðunandi matarþörf, en ástandið versnaði til muna eftir að fellibylurinn skall á landinu fyrir ári, 14. Mars 2019.

Þá hófst um leið alþjóðlegt átak til þess að bregðast við afleiðingum fellibylsins. „Þrátt fyrir sterkan hljómgrunn innan alþjóðasamfélagsins náðist einungis að fjármagna innan við helming viðbragðsáætlunarinnar og þurftu hjálparsamtök því að forgangsraða brýnustu þörfum samfélagsins eða gera langtímaáætlanir til þess að koma í veg fyrir að slíkar hamfarir hefðu jafn slæm áhrif í framtíðinni. Fleiri náttúruhamfarir á borð við miklar rigningar og flóð hafa haft slæm áhrif á líf fjölda fólks og til að mynda skemmdust 4.176 bráðabirgðaskýli vegna flóða í desember síðastliðnum. Nærri 700.000 hektarar af ræktunarlandi skemmdust í fellibylnum, þar sem ræktaður var maís, baunir og hrísgrjón og er áætlað að fellibylurinn hafi kostað Mósambík 141 milljónir dala í landbúnaðartapi. Erfitt hefur reynst að byggja upp sum svæði og ekki hefur enn verið hægt að endurrækta landbúnaðarsvæði vegna flóða og rigninga,“ segir í frétt Barnaheilla.

Þar kemur fram að álagið á konur og börn hafi aukist gífurlega eftir fellibylinn og dagleg störf hafi aukist. „Vegalendir til þess að sækja vatn og eldivið urðu lengri og meiri þörf var á að sinna öldruðum og veikum fjölskyldumeðlimum. Einnig var fjöldi barna aðskilin frá fjölskyldum sínum og urðu þau útsettari fyrir misnotkun.“

Chance Briggs, verkefnastjóri Barnaheilla - Save the Children í Mósambík segir að ástandið sé alvarlegt og að börn séu að líða fyrir eitthvað sem þau áttu engan þátt í.

„Loftslagsbreytingar eru kreppa milli kynslóða sem hefur áhrif á börn í dag og í framtíðinni. Það eru börnin sem minnst hafa haft áhrif á hvernig loftslagsmálum er háttað í dag, en samt eru þau að borga hæsta verðið. Við köllum eftir auknu fjármagni til að draga úr alvarlegum áhrifum loftlagsbreytinga og til að tryggja líf og framtíð barnanna.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
2. Ekkert hungur
1 Engin fátækt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta