Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfshópur um afkomuöryggi, atvinnuþátttöku og húsnæðismál eldra fólks

Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks  og Sjálfstæðisflokks og er lögð áhersla á að gera eldra fólki kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði til dæmis með auknum sveigjanleika í starfslokum þar sem horft verði meðal annars til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera. Áfram skuli bæta afkomu ellilífeyrisþega og í því sambandi verði sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Einnig kemur fram að  almannatryggingakerfi eldra fólks verði endurmetið með það að markmiði  að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum. Þá er mælt fyrir um að mæta sérstaklega þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað með auknum stuðningi og auka framboð af ódýru leiguhúsnæði fyrir eldra fólk í samstarfi við sveitarfélögin og samtök aldraðra, meðal annars í almenna íbúðakerfinu.

Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref í að bæta kjör eldra fólks. Breytingar sem gerðar voru á greiðslukerfi ellilífeyris og tóku gildi á árinu 2017 fólu í sér verulegar kjarabætur fyrir eldra fólk, einkum þau sem eru í lægri tekjutíundum. Með breytingunum voru starfslok jafnframt gerð sveigjanlegri þannig að heimilt varð að seinka töku lífeyris almannatrygginga til allt að 80 ára aldurs í stað 72 ára aldurs áður. Einnig er nú heimilt að flýta töku lífeyris og hefja töku lífeyris við 65 ára aldur í stað 67 ára aldurs áður. Þá geta þau sem náð hafa 65 ára aldri nú tekið hálfan ellilífeyri samhliða töku hálfs lífeyris frá lífeyrissjóði og minnkuðu starfshlutfalli. Til að styðja enn frekar við markmið um þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði hefur verið komið á sérstöku frítekjumarki atvinnutekna sem var hækkað um síðustu áramót í 200.000 kr. á mánuði í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála.

Starfshópar skipaðir fulltrúum stjórnvalda og hagsmunaaðila sem skilað hafa tillögum sínum til félagsmálaráðherra á undanförnum árum, hafa meðal annars látið greina þann hóp eldra fólks sem er í lægstu tekjutíundunum. Niðurstöður greiningarinnar bentu til þess að þeir  verst settu í hópi eldra fólks sem býrá Íslandi séu þau sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingum vegna fyrri búsetu erlendis, hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, þeir sem lifa eingöngu á bótum almannatrygginga og þau sem búa í leiguhúsnæði eða mikið skuldsettu eigin húsnæði. Til þess að bregðast við þessu að hluta voru á árinu 2020 sett lög um félagslegan viðbótarstuðning til þess að tryggja framfærslu eldra fólks sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingum.

Viðfangsefnið nú snýr því einkum að því að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Horfa þarf sérstaklega til ellilífeyrisþega sem hafa íþyngjandi húsnæðiskostnað auk þeirra sem hafa eingöngu eða nánast eingöngu ellilífeyri almannatrygginga sér til framfærslu.

Þau verkefni stjórnarsáttmála sem hér er fjallað um heyra undir þrjú ráðuneyti og því var ákveðið að skipa vinnuhóp þriggja ráðuneyta, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til að vinna að ofangreindum verkefnum og skila tímasettum tillögum til ráðherranna um bætta afkomu eldra fólks, aukinn sveigjanleika í starfslokum og úrbætur í húsnæðismálum.

Í vinnuhóp ráðuneytanna þriggja  sitja eftirtaldir aðilar: Anna Borgþórsdóttir Olsen (Fjármála- og efnhagsráðuneyti), Sigrún Dögg Kvaran (Innviðaráðuneyti) og Ásta Margrét Sigurðardóttir (Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) sem jafnframt leiðir hópinn. Hópnum er falið að skila tillögum til hlutaðeigandi ráðherra fyrir 15. desember 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta