Þátttaka Íslands á bóksöluhátíðinni Fera del Libro í Madríd
Sendiráð Íslands í París, sem einnig fer með fyrirsvar á Spáni, tók þátt í annað sinn í samstarfi sendiráða Norðurlandanna í Madríd í tengslum við bóksöluhátíðina Feria del Libro sem lauk um síðustu helgi. Hátíðin hefur verið haldin árlega í yfir 80 ár í Retiro garðinum í höfuðborg Spánar og stendur yfir í tvær vikur frá lok maí fram í miðjan júní. Um er að ræða sannkallaða bókaveislu sem er vel sótt af Madrídarbúum á hverju ári.
Norðurlöndin reka sameiginlegan bás á hátíðinni, Casa Nordica, þar sem hægt er að kaupa bækur frá Norðurlöndunum í spænskri þýðingu og fræðast um bókmenntahefðir landanna.
Þó nokkrir íslenskir höfundar hafa verið þýddir á spænsku og bækur þeirra hafa fengið jákvæðar viðtökur.