Miklar umbætur hjá Háskólanum á Bifröst
Gæðaráð íslenskra háskóla hefur birt niðurstöður eftirfylgniúttektar á getu Háskólans á Bifröst til þess að tryggja gæði þeirra námsgráða sem hann veitir og er niðurstaðan sú að miklar umbætur og jákvæðar breytingar hafi orðið á starfsháttum skólans.
Er úttektin liður í reglubundnu ytra mati Gæðaráðs með gæðum íslenskra háskóla. Úttektina má nálgast hér.
Úttektarhópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Bifröst til að tryggja gæði þeirra námsgráða sem hann veitir, í nútíð og til nánustu framtíðar.
Líkt og áður segir merki úttektarteymið merkti miklar umbætur og jákvæðar breytingar á starfsháttum skólans. Fram kemur af hálfu gæðaráðsins að niðurstaða úttektarinnar lýsi góðri vinnu og einurð starfsmanna, nemenda og ytri hagaðila til að rýna alvarlega framtíðarsýn, stefnu og stjórnun háskólans. Úttektarteymið hrósar því sérstaklega miklum árangri í ljósi þess tímaramma sem var gefinn til úrbóta.
Engar frekari úrbætur voru settar fram í kjölfar eftirfylgniúttektarinnar.
Gæðaráð íslenskra háskóla starfar fyrir háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið en markmið eftirlits þess er m.a. að bæta kennslu og rannsóknir á vettvangi íslenskra háskóla, tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt og tryggja samkeppnishæfni íslenskra háskóla á alþjóðavettvangi.