Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna sett í dag
Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna hófst í Naíróbí í Kenía í dag. Á þinginu eru rædd ýmis brýn úrlausnarefni sem fyrir liggja í umhverfismálum á heimsvísu og í þetta sinn verða sjálfbær neysla og framleiðsla í brennidepli.
Umhverfisþingin eru haldin annað hvert ár en þar koma saman umhverfisráðherrar heimsins, auk annarra ráðamanna, félagasamtaka, fulltrúa fyrirtækja og fleiri. Fyrir þinginu liggja tillögur um hvernig hægt er að efla nýsköpun til að takast á við þær áskoranir sem fylgja ósjálfbærum hagkerfum heimsins. Þá verður á þinginu rætt um plastmengun, matarsóun, auðlindanotkun, verndun hafsins, líffræðilegan fjölbreytileika, loftslagsbreytingar og fleira. Niðurstöður þingsins geta þannig haft veruleg áhrif á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að markmið Parísarsamkomulagsins náist.
Á þinginu verður kynnt ný skýrsla vísindamanna um horfur í umhverfismálum í heiminum, sem hefur yfirskriftina Global Environment Outlook 6.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er væntanlegur til Naíróbí á þriðjudag.
„Eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans er að ná tökum á þeirri miklu neyslu sem einkennir mörg samfélög. Of mikil neysla er ein meginástæða þeirra umhverfisvandamála sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við sjáum áhrifin til dæmis í loftslagsbreytingum og fjöllum af plasti sem hafa safnast upp og setja lífríki Jarðar í hættu. Á þinginu fær Ísland tækifæri til að taka þátt í að móta stefnuna í umhverfismálum á heimsvísu,“ segir Guðmundur Ingi.
Á þinginu mun Ísland meðal annars leggja áherslu á að vinna gegn plastmengun í hafi og að dregið verði úr ósjálfbærri neyslu. Efling hringrásarhagkerfisins er lykilatriði, þ.e. hagkerfis þar sem auðlindum er ekki sóað heldur eru þær endurnýttar og endurunnar og viðhaldið í hringrás.
Umhverfis- og auðlindaráðherra flytur ávarp Íslands á þinginu á fimmtudag og tekur að auki þátt í fjölda funda og viðburða. Þingið var sett í morgun í skugga hörmulegs flugslyss í gær þar sem vél Ethiopian Airlines hrapaði á leið til Naíróbí.