UNHCR: Öflugur stuðningur hjálpar milljónum landflótta Úkraínumanna
„Skjót viðbrögð, stuðningur og fjárframlög Íslendinga, sem og annarra Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða, gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að bregðast fljótt og samfellt við neyðarástandinu í Úkraínu og nærliggjandi löndum,“ segir í frétt frá Flóttamannastofnun SÞ, UNHCR, sem skrifuð er á íslensku á vef stofnunarinnar.
Í fréttinni segir enn fremur: „Það sem af er árinu 2022 hafa Íslendingar lagt til rúma 3,1 milljón Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunarinnar, en af því runnu 788.563 Bandaríkjadalir til aðgerða í Úkraínu. 772.499 Bandaríkjadalir voru ekki eyrnamerktir. Árið 2021 lögðu Íslendingar til rúmlega 1,8 milljónir Bandaríkjadala, en þar af voru 26% ekki eyrnamerkt.“
Fram í fréttinn að frá því að stríðið hófst í Úkraínu hafi yfir 7,1 milljón flóttamanna frá Úkraínu farið yfir landamærin inn í nágrannalöndin og sumir hafi haldið för sinni áfram til að leita skjóls í löndum víða um Evrópu. „Um leið eru meira en 6,9 milljónir manna í Úkraínu vegalausar í eigin landi og standa frammi fyrir margvíslegum erfiðleikum, þar á meðal skorti á húsaskjóli, fæði, gistingu, grunninnviðum og aðgangi að atvinnu og menntun.“
„Nú þegar vetrarmánuðirnir nálgast þurfa hins vegar margir á brýnum og viðvarandi stuðningi að halda til að takast á við sívaxandi kuldann. Til dæmis er þörf á öruggum gististöðum, viðgerðum á skemmdum heimilum, hlýjum fatnaði og sálfélagslegum stuðningi.“