Átján erindi á tveggja daga umferðarþingi
Boðað hefur verið til umferðarþings dagana 23. og 24. nóvember næstkomandi og fer það fram á Hótel Loftleiðum í Reykjavík. Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, setur þingið og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flytur ávarp við setninguna og afhendir Umferðarljósið, verðlaun Umferðarráðs, sem veitt eru fyrir eftirtektarvert og/eða árangursríkt starf á sviði umferðarmála.
Að umferðarþingi, sem haldið er á tveggja ára fresti, standa samgönguráðuneytið, Umferðarráð og Umferðarstofa og mun íslenskir og erlendir fyrirlesarar í þetta sinn flytja 18 erindi. Er þeim skipt í eftirtalda flokka:
- Öruggari vegir, götur og umhverfi vega
- Forvarnir, löggæsla
- Öruggari ökutæki – öruggari ökumenn – ungir ökumenn
- Áfengi, lyf, þreyta, slysarannsóknir
- Umferðaröryggi í alþjóðlegu samhengi
Tveir erlendir fyrirlesarar verða á þinginu. Fjallar Bernd Wogang Wink, stjórnarmaður í European Union Road Federation, um nýjungar í vegriðum og öryggisbúnaði vega í Evrópu og Günter Breyer, aðstoðarvegamálastjóri Austurríkis, ræðir um umferðaröryggi í Evrópu í dag, stöðuna og leiðir til úrbóta.
Á síðasta hluta þingsins munu umræðuhópar fjalla um ofangreinda efnisflokka og fulltrúar þeirra gera grein fyrir starfi þeirra. Í lok þings verða lagðar fram ályktanir og í framhaldinu býður samgönguráðherra til móttöku.
Skráning fer fram á vefsíðu Umferðarstofu.