Kringum 150 manns á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar
Nærri 150 manns sátu daglanga rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í gær þar sem flutt voru 20 erindi um ýmis rannsóknarverkefni. Var þetta sjötta ráðstefnan af þessum toga en rannsóknasjóður Vegagerðarinnar hefur um 100 milljónir króna til að ráðstafa í styrki árlega.
Erindum var skipt í þrjá flokka: Mannvirki, umferð og umhverfi og samfélag. Meðal erinda um mannvirki má nefna umfjöllun Sigursteins Hjartarsonar um grænt asfalt, hönnun hljóðvarna sem Kristín Þorleifsdóttir kynnti og Haukur Garðarsson og Hersir Gíslason kynntu skráningu upplýsinga á vettvangi með handtölvu.
Í flokknum um umferð kynnti Ólafur Kr. Guðmundsson EuroRap verkefnið sem snýst um gæðamat á vegum en FÍB hefur unnið að slíku mati á íslensku vegakerfi með styrk samgönguráðuneytis og Umferðarstofu með aðstoð Vegagerðarinnar og Loftmynda auk nokkurra fyrirtækja. Unnið er nú að greiningu niðurstaðna eftir síðustu gagnaöflun en alls hafa rúmlega 2.400 km verið skráðir. Meðal atriða sem Ólafur sagði að laga þyrfti væru ljósastaurar við vegi, eins og til dæmis Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Komið hefði í ljós að þeir brotnuðu ekki við árekstur bíla sem gæti átt þátt í að valda meiri meiðslum. Einnig sagði hann að huga þyrfti að vegriðum í þessu sambandi.
Sævar Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, kynnti efni sitt og Ágústar Mogensen. forstöðumanns RNU, en þeir vinna nú að nánari greiningu á slysum sem verða í útafakstri og bílveltum. Sagði hann 48% banaslysa á árunum 1998 til 2006 hafa verið við útafakstur og 26% alvarlegra slysa. Markmið rannsóknarinnar er að greina hvers vegna ekið er útaf, hvað veldur áverkum og hver sé munurinn á litlum meiðslum og alvarlegum. Rannsóknin er dæmi um önnur verkefni sem RNU vinnur að auk aðalverkefnisins að greina orsakir banaslysa og alvarlegra slysa. Slíka upplýsingasöfnun og greiningu geta til dæmis þeir nýtt sér sem starfa við vegagerð og ökukennslu.
Helmingur erindanna var í flokknum umhverfi og samfélag og var þar meðal annars fjallað um svifryksmengun í Reykjavík, landris og eldvirkni vegna rýrnunar Vatnajökuls, mat á áhættu fyrir vegakerfið vegna umbrota í Snæfellsjökli, ferðamenn í Þórsmörk og áhættu- og áfallaþolsgreiningu vegakerfisins í Reykjavík.