Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja opnaði íslenska skálann í Feneyjum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Sigurður Guðjónsson við verk Sigurðar á Feneyjatvíæringnum í ár.  - mynd

Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, opnaði íslenska skálann á alþjóðlegu listahátíðinni Feneyjatvíæringnum í dag við hátíðlega athöfn. Tvíæringurinn hefur verið haldinn í Feneyjum annað hvert ár, með nokkrum undantekningum, allar götur síðan 1895. Hátíðin er þungamiðja í alþjóðlegum listum og menningu. Að þessu sinni taka 213 listamenn frá 58 löndum þátt. Ísland tók fyrst þátt í hátíðinni árið 1960 þegar þeir Jóhannes Sveinsson Kjarval og Ásmundur Sveinsson voru valdir til þátttöku.

Fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum að þessu sinni er myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson en hann hefur getið sér gott orð fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hlaut Sigurður meðal annars Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018. Verk hans á tvíæringnum heitir Ævarandi hreyfing og er fjölskynjunarskúlptur, myndbandsinnsetning á tveimur sex metra flekum. Þar gefur að líta svífandi járnryk sem hefur verið stækkað og magnað upp með myndavélarlinsu listamannsins.

Árið 2020 tryggðu íslensk stjórnvöld fjármagn til að færa sýningarsvæði Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022 yfir á aðalsvæði hátíðarinnar. Með tilfærslu íslenska skálans skapast ótvíræð tækifæri til að kynna betur íslenska myndlist en í kringum sex hundruð þúsund gestir heimsækja að jafnaði það svæðið sem skálinn stendur nú á. Það þýðir að gestafjöldi í íslenska skálanum geti nær tuttugufaldast frá því sem verið hefur síðastliðin ár en hátíðin stendur yfir fram í nóvember. Er verkefnið unnið í samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Íslandsstofu.

„Þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringum skiptir miklu máli fyrir íslenska menningu og það er sérlega ánægjulegt að fylgjast með þeirri jákvæðu erlendu umfjöllum sem listamaðurinn Sigurður Guðjónsson hefur fengið vegna þátttöku sinnar. Hátíð sem þessi skapar fjölmörg tækifæri til þess að kynna íslenska menningu á erlendri grundu. Flutningur íslenska skálans á aðalsvæði hátíðarinnar er liður í stefnu stjórnvalda um að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar á sviði menningar og lista. Ég óska Sigurði og teymi hans innilega til hamingju með þennan merkisáfanga á ferlinum og þakka honum fyrir hans framlag í þágu íslenskrar menningar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra en hún opnaði íslenska skálann formlega í dag. 

Aukin áhersla er lögð á málefni myndlistar í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti. Ný myndlistarstefna fyrir Ísland verður meðal annars kynnt á fyrstu 100 starfsdögum hins nýja ráðuneytis og innleidd í framhaldinu á næstu árum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta