Skólabyggingar Samvinnuskólans á Bifröst friðlýstar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hefur, að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands, ákveðið að friðlýsa elsta hluta skólabygginga Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði. Tilkynnt var um friðlýsingu þessa í heimsókn ráðherra á Bifröst í gær. Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu og veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara.
„Samkomuhúsið á Bifröst er mikilvægt og vel varðveitt dæmi um höfundaverk Sigvalda Thordarson og samstarfsmanna hans, Gísla Halldórssonar og Kjartans Sigurðarsonar, frá upphafsárum þeirra starfsferils. Ekki síst á það við innréttingar og búnað í samkomusal og setustofu, sem varðveist hefur í nær upprunalegri mynd allt til dagsins í dag,“ segir ráðherra.
Samkomuhúsið var elsta byggingin á Bifröst, þá samkomu- og veitingastaður í eigu Sambands íslenskra Samvinnufélaga, þegar Samvinnuskólinn flutti þangað í land Hreðavatns í Norðurárdal árið 1955. Skólinn hafði þá áður verið til húsa á Sölvhólsgötu í Reykjavík þar sem nú eru skrifstofur mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þegar Samvinnuskólinn tók við samkomuhúsinu var svo reist við það viðbygging með tengigangi, þrílyft heimavistarálma, teiknuð af Skúla H. Norðdahl. Saman mynda húsin tvö fallega og samræmda heild sem hefur einkennt ásýnd Bifrastar og verið táknmynd þeirra skólastofnana sem þar hafa starfað.