Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 949/2024 Úrskurður

Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 949/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24030144

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. mars 2024 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], kt. [...], ríkisborgari Íran ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. mars 2024, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 28. janúar 2017. Hinn 23. maí 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda ekki til efnislegrar meðferðar og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið, sbr. 74. og 78. gr. laga um útlendinga, þar sem hann nyti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 410/2017, dags. 11. júlí 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Hinn 21. september 2017 tók Útlendingastofnun nýja ákvörðun í máli kæranda og komst aftur að þeirri niðurstöðu að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnislegrar meðferðar. Með úrskurði kærunefndar nr. 9/2018, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 21. janúar 2018 óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum síðastnefnds úrskurðar yrði frestað, auk þess sem hann krafðist endurupptöku úrskurðarins. Með úrskurði kærunefndar nr. 69/2018, dags. 6. febrúar 2018, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað en með úrskurði nefndarinnar nr. 68/2018, dags. 6. febrúar 2018, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og umsókn hans send til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun.

Hinn 23. ágúst 2018 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, með gildistíma til 23. ágúst 2019. Leyfið hefur verið endurnýjað fjórum sinnum, síðast með gildistíma til 11. september 2025. Hinn 27. júní 2023 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. mars 2024, var umsókn kæranda synjað. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hefði ekki lagt fram gilt vegabréf eða annað viðurkennt gilt kennivottorð sem gefið væri út af þar til bærum yfirvöldum og væri gilt ferðaskilríki. Því uppfyllti kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um útlendinga og var umsókn hans synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála 25. mars 2024. Degi síðar, 26. mars 2024, lagði fram kærandi fram frumrit frekari fylgigagna hjá kærunefnd.

Í samræmi við 3. málsl. 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kæranda heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram sérstakar röksemdir vegna málsins. Hinn 26. mars 2024 lagði kærandi fram frumrit íranskra skilríkja og ökuskírteinis, með gildistíma til áranna 2010 og 2011, ásamt þýðingum skjalanna, en þýðingarnar eru dagsettar 2. desember 2018. 

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Í 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um dvalarleyfi skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun geri kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveði á um. Í 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um útlendinga kemur fram að umsækjandi skuli sanna á sér deili með því að leggja fram gilt vegabréf eða annað viðurkennt gilt kennivottorð sem gefið er út af þar til bærum yfirvöldum og er gilt ferðaskilríki.

Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að ekki liggi fyrir gilt vegabréf eða annað viðurkennt gilt kennivottorð frá heimaríki kæranda. Þar að auki vísar Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi fengið útgefið vegabréf fyrir útlending með gildistíma frá 25. apríl 2022 til 1. júní 2023 í þeim tilgangi að hann geti aflað sér vegabréfs frá heimaríki. Þrátt fyrir framangreint hafi kærandi ekki lagt fram vegabréf frá heimaríki.

Fram kemur í 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga að útlendingur sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd, en án þess að vera veitt alþjóðleg vernd, skal fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða til útlanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur með reglugerð. Þar má og heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með því. Fjallað er um vegabréf fyrir útlendinga í VII. kafla reglugerðar nr. 560/2009 um vegabréf, ásamt síðari breytingum. Fram kemur í 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar að Útlendingastofnun er heimilt að gefa út vegabréf fyrir útlendinga, sem ekki geta með öðrum hætti aflað sér vegabréfs eða annars ferðaskilríkis. Í 2. mgr. kemur fram að vegabréf fyrir útlending verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé löglega búsettur hér á landi og geti sýnt fram á að hann geti ekki fengið ferðaskilríki frá heimaríki, eða að hann sé ríkisfangslaus. Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að gildi vegabréfs má binda við tiltekið svæði auk þess sem heimilt er að gefa slíkt vegabréf út með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar en síðastnefnt ákvæði mælir fyrir um að gildistími vegabréfs fyrir útlending skuli að jafnaði vera til tveggja ára, sbr. þó 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar.

Ekki er mælt fyrir um frekari takmarkanir á efni eða gildi vegabréfa fyrir útlendinga í reglugerð um vegabréf né lögum um vegabréf nr. 136/1998. Hvort svo sem vegabréf það sem Útlendingastofnun hafði gefið út til kæranda teljist vegabréf eða annað ferðaskilríki í skilningi 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um vegabréf er ljóst að gildistími þess var runninn út þegar kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt framansögðu var vegabréfið ekki gild skilríki í skilningi 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um útlendinga. Fullnægði kærandi því ekki skilyrðum 58. gr. laga um útlendinga til að fá útgefið ótímabundið dvalarleyfi.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta