Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra kynnti sér kirkjumál og prentminjar á Hólum

Fulltrúar þjóðkirkjunnar og Háskólans á Hólum kynntu ýmsa þætti kirkju-, menningar- og skólastarfs á Hólum í Hjaltadal fyrir innanríkisráðherra í heimsókn hans þangað um síðustu helgi. Var einnig rætt um ýmsar hugmyndir um framtíðarverkefni á Hólum.

Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra eru hér við Auðunarstofu á Hólum.
Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra eru hér við Auðunarstofu á Hólum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra átti fund með Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, vígslubiskupi á Hólum, Skúla Skúlasyni, rektor háskólans, og Málfríði Finnbogadóttur, framkvæmdastjóra Hólanefndar, sem er samstarfsvettvangur kirkju og skóla á staðnum. Einnig sat fundinn Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarstjórna í ráðuneytinu.

Fram kom í máli heimamanna að allir starfsþættir á Hólum í dag, skóli, kirkja, staðarrekstur eða búskapur, styðja hver annan og að brýnt væri að koma staðarhaldi í fast form og ganga frá skipulagi staðarins.

Vígslubiskupinn á Hólum sýnir innanríkisráðherra altaristöfluna fornu í Hóladómkirkju.Fulltrúar kirkjunnar fræddu ráðherrann um stöðu mála og erfiða fjárhagsstöðu kirkjunnar en ríkið á og sér um rekstur á dómkirkjunni á Hólum og Auðunarstofu sem er funda- og sýningarhús auk þess sem vígslubiskup hefur þar starfsaðstöðu sína. Var meðal annars rætt um álagningu fasteignagjalda sveitarfélagsins á Auðunarstofu sem fulltrúar kirkjunnar telja ekki sanngjarna að öllu leyti og hafa leitað leiða til að fá fellda niður. Þá var rætt um fornleifarannsóknir sem þar hafa staðið mörg undanfarin ár og hvernig meðal annars hefðu komið í ljós ýmsar prentminjar, gripir og húshlutar sem staðfestu prentsmiðju- og útgáfurekstur Hólabiskupa.

Vígslubiskup og ráðherra skoða hér biskupskápu sem er eftirgerð kápu Jóns Arasonar.Á vegum vígslubiskupsembættisins er í framhaldi af þessu hafinn undirbúningur að stofnun prentminjasafns á Hólum. Prentminjarnar sem fundist hafa, útgefnar bækur frá Hólaprenti sem gefnar voru kirkjunni á 900 ára afmæli biskupsstóls á Hólum, prentvélar og tæki sem einnig hafa verið gefin og sú staðreynd að útgáfa var rekin á Hólum í 230 ár eru undirstaða slíks prentminjasafns sem sýna myndi um leið prentsögu Íslands. Verið er að kanna nánar fyrirkomulag og fjárhagshlið á slíkum rekstri.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta