Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2012 Innviðaráðuneytið

Samið um almenningssamgöngur á Suðurnesjum

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og Vegagerðin undirrituðu í dag samning um skipulagningu almenningssamgangna milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Er verkefnið í samræmi við þá áherslu ríkisstjórnarinnar að greiða fyrir auknum hlut almenningssamgangna.

Skrifað var undir samning um almenningssamgöngur á Suðurnesjum 1. febrúar.
Skrifað var undir samning um almenningssamgöngur á Suðurnesjum 1. febrúar.

Samningurinn er hliðstæður samningum sem gerðir hafa verið milli Vegagerðarinnar og landshlutasamtaka sveitarfélaga um landið allt nema hvað ekki hefur verið gengið frá samningi við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Markmið samninganna er að bæta almenningssamgöngur bæði innan svæðanna og milli svæða og gera þær að ódýrasta valkosti íbúa og ferðamanna. Með því að færa skipulag almenningssamgangna undir ábyrgð landshlutasamtakanna er þjónustan færð nær heimamönnum sem sjá þar með um útfærslu og  framkvæmd hennar.

Undir samninginn skrifuðu þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri (í miðið), Ólafur Þór Ólafsson (lengst til hægri), formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.

Skrifað var undir samning um almenningssamgöngur á Suðurnesjum 1. febrúar.

Samningurinn við Suðurnesjamenn gildir út árið 2018, er óuppsegjanlegur fyrstu tvö árin en eftir það getur hvor aðili um sig sagt honum upp með eins árs fyrirvara miðað við áramót. Samningurinn er byggður á grundvelli laga nr. 73/2001 og nr. 162/2011 sem heimila Vegagerðinni að veita sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga heimild til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum á tilteknum svæði og á tilteknum leiðum. Í samræmi við efni laganna er SSS veitt einkaleyfi til reglubundinna fólksflutninga milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Með reglubundnum fólksflutningum er átt við fastar ferðir ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun.

Skrifað var undir samning um almenningssamgöngur á Suðurnesjum 1. febrúar.Samningurinn tilgreinir að farnar skuli reglubundnar ferðir á helstu þéttbýlisstaði og flugvelli á Suðurnesjum og tilgreind er lágmarks tíðni. Tengistöðvar eru í Reykjanesbæ og BSÍ í Reykjavík. Vegagerðin greiðir 20 milljónir króna árlega í styrk vegna fólksflutninganna. 

Þá kemur fram að samningsaðilar eru sammála um að notendur almenningssamgangna á starfssvæði SSS hafi aðgang að sameiginlegu þjónustuborði sem þróað verði á tímabilinu. Einnig að unnið verði að því að fella akstur með framhaldsskólanema að öðrum almenningssamgöngum með það að markmiði að fjármunir nýtist sem best. Jafnframt munu sveitarfélögin vinna að því að skipuleggja skólaakstur með tilliti til aðgangs almennings að akstrinum eftir því sem tök eru á.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta