Styrkir Þroskahjálp vegna mótunar náms- og atvinnutækifæra fyrir ungt fólk
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur styrkt Þroskahjálp um þrjár milljónir króna vegna verkefnisins Ungt fólk og framtíðin.
Þroskahjálp hefur undanfarið ár unnið að verkefni, með styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og menntamálaráðuneyti, sem lýtur meðal annars að því að kortleggja náms- og atvinnutækifæri fyrir ungt fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir að loknum framhaldsskóla. Það verkefni var ein af tillögum verkefnishóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem fjallaði um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla og lagði fram tillögur þar um.
Við vinnslu verkefnisins hefur komið í ljós að rík þörf er á því að nútímavæða þau tilboð sem standa ungu fólki til boða og uppfæra í takt við þær skyldur sem leiða af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fyrirséða breytingu á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni. Félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir nú viðbótarstuðning til verkefnisins sem felst í því að virkja ungmennaráð Þroskahjálpar sem ráðgjafahóp og samstarfsaðila í verkefninu. Verkefnisstjóri ungmennaráðs og verkefnisstjóri við samhæfingu námsframboðs og atvinnutækifæra munu vinna saman að því að kalla fram áherslur og sýn ungs fólks á eigin framtíð, og í kjölfarið móta tillögur. Haldnir verða vinnufundir með ungmennaráði og öðrum sem koma að verkefninu. Einnig er gert ráð fyrir að haldinn verði opinn dagur um námstækifæri fatlaðs fólks í samstarfi við Fjölmennt. Í lok verkefnis verða niðurstöður samráðs settar fram í skýrslu og kynntar opinberlega.
Ungmennaráð Þroskahjálpar styrkir starf samtakanna í ýmsum mikilvægum málum sem varða réttindi og hagsmuni ungs fólks. Ráðið er vettvangur þar sem ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu fær betri tækifæri til að vera virkir þátttakendur í umræðu og stefnumótun sem varðar réttindi þess og mikilvæg hagsmunamál.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Ungt fólk með þroskahömlun á að fá tækifæri til þess að þroska hæfileika sína, mennta sig og finna sér starf við hæfi. Við munum sjá miklar breytingar á vinnumarkaði á næstu árum og þar eru fjölmörg tækifæri til þess að auka framboð bæði náms og starfa fyrir ungt fólk með þroskahömlun. Ég er því mjög ánægður með að njóta krafta ungmennaráðs Þroskahjálpar í þessu verkefni.“