Þættir sem sóttvarnalæknir leggur til grundvallar tillögum til ráðherra vegna COVID-19
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag minnisblað sóttvarnalæknis þar sem fjallað er um þá þætti sem sóttvarnalæknir leggur til grundvallar að tillögum til heilbrigðisráðherra um takmarkanir/aðgerðir vegna COVID-19. Minnisblaðið er meðfylgjandi.
Eins og segir í minnisblaðinu hafa opinberar aðgerðir frá því að COVID-19 faraldurinn hófst hér á landi í lok febrúar á þessu ári, falist í almennum og opinberum sóttvarnaráðstöfunum eins og þær eru skilgreindar í sóttvarnalögum. Samkvæmt lögunum ákveður heilbrigðisráðherra að fengnum tillögum frá sóttvarnalækni hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana en sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram telji hann að hvers konar töf sé hættuleg og skal hann þá gera ráðherra jafnskjótt kunnugt um þær ráðstafanir.
Í yfirstandandi faraldri hefur sóttvarnalæknir gefið einstaklingum, fyrirtækjum, félögum og stofnunum ýmsar almennar leiðbeiningar og fyrirmæli er varða almennar sóttvarnaráðstafanir eins og honum ber að gera skv. sóttvarnalögum. Einnig hefur fjöldi minnisblaða verið sendur til ráðherra um tillögur að ýmsum opinberum sóttvarnaráðstöfunum eins og fjöldatakmörkunum, nándarreglum, opnunartíma ýmissar starfsemi, sóttkví og skimunum. Þessar tillögur hafa síðan verið lögfestar með auglýsingu eða reglugerð.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis eru rakin þau atriði og þeir þættir sem tillögur sóttvarnalæknis og ákvarðanir varðandi sóttvarnir byggjast einkum á. Nánar er fjalla um hvern þátt í minnisblaðinu en þeir eru eftirtaldir:
- Faraldsfræði sjúkdómsins innanlands
- Faraldsfræði sjúkdómsins erlendis
- Skimanir/rannsóknir fyrir sjúkdómnum í samfélaginu
- Alvarleiki sjúkdómsins
- Geta heilbrigðiskerfisins
- Eiginleikar veirunnar
- Sóttvarnaráðstafanir sem þegar eru í gangi
- Samfélagsleg áhrif og trúverðuleiki ráðstafana