Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2012 Matvælaráðuneytið

Kristþór Gunnarsson f.h. áhugamanna um ræktun Eldvatns á Brunasandi, kærir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2012.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, ódags. sem barst ráðuneytinu 28. júní 2012, frá Kristþóri Gunnarssyni f.h. áhugamanna um ræktun Eldvatns á Brunasandi, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2012.

    Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, um að hafna umsókn kærenda um úthlutun úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2012.


Málsatvik

    Málsatvik eru þau að með auglýsingu, ódags. sem birt var í Bændablaðinu 19. janúar 2012 og einnig í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 21. janúar 2012 auglýsti Fiskræktarsjóður eftir umsóknum um úthlutun styrkja úr sjóðnum, sbr. 8. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2012.
    Kærendur sóttu um styrk úr Fiskræktarsjóði með umsókn, dags. 29. febrúar 2012. Í umsókninni segir m.a. að markmið verkefnisins sé að byggja aftur upp fiskstofna árinnar, bæði sjóbirtingsstofninn og bleikjustofninn. Einnig kemur þar fram lýsing á vinnu við verkefnið.
    Með bréfi, dags. 24. apríl 2012, tilkynnti stjórn Fiskræktarsjóðs kærendum þá ákvörðun stjórnarinnar að hafna umsókn þeirra um úthlutun úr sjóðnum. Í ákvörðuninni segir m.a.:

"Með umsókn yðar til Fiskræktarsjóðs dags. 29. febrúar 2012 var óskað eftir styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins: Ræktun/eldi sjóbirtingsstofna Eldvatns á Brunasandi.
Stjórn Fiskræktarsjóðs telur því miður ekki unnt að veita þessari umsókn styrk þar sem hún fellur utan verksviðs sjóðsins."

    Þá kom fram í ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs að hún væri kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kærendum barst framangreind tilkynning, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Málsástæður með stjórnsýslukæru o.fl.

    Með stjórnsýslukæru, ódags. sem barst ráðuneytinu 28. júní 2012 kærði Kristþór Gunnarsson f.h. áhugamanna um ræktun Eldvatns á Brunasandi framangreinda ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Í stjórnsýslukærunni er vísað til m.a. 1. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, þar sem kemur fram að Fiskræktarsjóður hafi það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Eins og komi fram í umsókn um styrk, dags. 29. febrúar 2012, telji kærendur að uppsóknin uppfylli þrjú af þessum fjórum markmiðum Fiskræktarsjóðs, sem séu: 1. að efla fiskrækt. 2. styðja við rannsóknir í ám og vötnum og 3. auka verðmæti veiði úr þeim. Einnig er því lýst í stjórnsýslukærunni með hvaða hætti kærendur telji að umsókn þeirra uppfylli framangreind skilyrði.
    Með bréfi, dags. 2. júlí 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Fiskræktarsjóðs kynni að hafa um málið.
    Með bréfi, dags. 18. júlí 2012, barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið. Þar segir m.a.:

"Niðurstaða stjórnar var að umrædd umsókn félli í flokk E sem þýðir að umsóknin fellur utan ramma þeirra verkefna sem stjórnin veitir styrki til.
Fiskræktarsjóður tók þá ákvörðun löngu fyrir þann tíma sem núverandi stjórn hefur setið, að styrkja ekki seiðakaup, seiðaframleiðslu og seiðasleppingar. Ástæða þessa er að árlega er sleppt seiðum í ár og vötn fyrir miklar fjárhæðir og ljóst að Fiskræktarsjóður hefur ekki bolmagn til að veita styrki til þessarar starfsemi. [...]"

    Eftirtalin gögn fylgdu umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs: ljósrit af hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, o.fl.
    Með tölvubréfi frá 12. nóvember 2012 óskaði ráðuneytið eftir tilteknum frekari upplýsingum og gögnum frá stjórn Fiskræktarsjóðs og bárust umræddar upplýsingar og gögn með tölvubréfi frá 13. nóvember 2012.


Rökstuðningur


I.    Með tölvubréfi frá 28. júní 2012 var stjórnsýslukæra í máli þessu móttekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem fór með málefni samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Með forsetaúrskurði nr. 99/2012, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í nýtt ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og tók úrskurðurinn gildi 1. september 2012. Úrskurður í máli þessu er því kveðinn upp af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem nú fer með málefni samkvæmt lögum nr. 72/2008 og tók við eldri málum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt þeim lögum.

II.    Um Fiskræktarsjóð gilda ákvæði laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 1. gr. að Fiskræktarsjóður sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Í 2. gr. kemur fram að Fiskræktarsjóður lýtur fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í 3. gr. kemur fram að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Verkefni stjórnar séu m.a. að taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Í 8. gr. er fjallað um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði. Verklagsreglur fyrir starfsemi sjóðsins eru birtar á vefsíðu Fiskistofu sem er: www.fiskistofa.is. Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.     Fiskræktarsjóður hefur tiltekið ráðstöfunarfé til úthlutunar fyrir almanaksárið 2012 samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum, og ljóst er að ekki er unnt að veita styrki samkvæmt öllum umsóknum sem hafa borist stjórn sjóðsins.  Það er samkvæmt því mat ráðuneytisins að stjórn sjóðsins hafi ákveðið svigrúm til að velja þau verkefni sem ákveðið er að úthluta styrkjum til fyrir almanaksárið.
    Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að hlutverk ráðuneytisins við endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, í máli þessu takmarkist við úrlausn um hvort gætt hafi verið laga og stjórnvaldsreglna við ákvörðunina, þ.m.t. hvort ákvörðunin sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum, en ekki að leggja efnislegt mat á einstakar umsóknir.
    Ráðuneytið hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012 í máli þessu og málsmeðferð stjórnar Fiskræktarsjóðs við ákvörðunina. Það er mat ráðuneytisins að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi við meðferð málsins og ákvörðunina farið eftir ákvæðum laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins. Einnig er það mat ráðuneytisins að hin kærða ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, í máli þessu sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.
    Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs í máli þessu.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Ráðuneytið staðfestir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, um að hafna umsókn Kristþórs Gunnarssonar f.h. áhugamanna um ræktun Eldvatns á Brunasandi, um úthlutun úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2012.

Fyrir hönd ráðherra
Ingimar Jóhannsson.
Sigríður Norðmann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta