Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 13/2013

Hinn 9. apríl 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 13/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 256/2013

Haukur Hjaltason

gegn

Landsbankanum hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 27. maí 2013 fór Kristján Stefánsson hrl. þess á leit fyrir hönd Hauks Hjaltasonar að mál nr. 256/2013, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. apríl 2013, yrði endurupptekið.  Endurupptökubeiðanda var með bréfi dags. 15. október 2013 gefinn kostur á að rökstyðja frekar hvernig skilyrðum laga um meðferð einkamála um endurupptöku máls væri fullnægt og sendi hann endurupptökunefnd rökstuðning sinn með bréfi dags. 30. október 2013. Með bréfi dags. 9. janúar 2014 sendi Arnar Þór Stefánsson hrl. fyrir hönd Landsbankans hf. skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila. Í kjölfarið gerðu báðir málsaðilar nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum, síðast endurupptökubeiðandi með bréfi dags. 12.  mars 2014. Gagnaðila voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í máli þessu Ragna Árnadóttir, Kristbjörg Stephensen og Sigurður Tómas Magnússon.

II.        Málsatvik

Bú endurupptökubeiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013 að beiðni Landsbankans hf. Gjaldþrotabeiðnin byggðist á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í málinu lá fyrir að árangurslaus löggeymsla hafði verið gerð hjá endurupptökubeiðanda á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem hann hafði undirgengist vegna yfirdráttar á reikningi Skúlagötu 30 ehf. í Landsbanka Íslands hf. en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 1. júlí 2011. Endurupptökubeiðandi hélt því fram að krafa sú sem höfð var uppi í málinu, að fjárhæð 160.642.500 krónur, hefði verið greidd eða hún gefin eftir að hluta. Þá hélt hann því fram að skilyrði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, væru uppfyllt í málinu og því ætti að víkja sjálfskuldarábyrgðinni til hliðar. Fleiri varnir voru hafðar uppi í málinu en engin þeirra var tekin til greina. Með dómi Hæstaréttar frá 23. apríl 2013 í máli nr. 256/2013 var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, um að bú Hauks Hjaltasonar væri tekið til gjaldþrotaskipta, staðfestur.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði a. – c. liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu uppfyllt. Í fyrsta lagi sé skilyrðum a-liðar ákvæðisins fullnægt og sterkar líkur leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og endurupptökubeiðanda verði ekki um það kennt. Rangfærslu sé að finna í héraðsdómi, sem ekki hafi verið leiðrétt í Hæstarétti, þess efnis að fasteignir Skúlagötu 30 ehf. hafi verið seldar nauðungarsölu. Þetta sé rangt, eignum félagsins hafi verið afsalað af skiptastjóra til Regins A1 ehf., félags í eigu gagnaðila, á skiptafundi. Yfirfærsluverð hafi verið langt undir markaðsvirði sem og fasteignamati. Þetta sé staðfest með mati dómkvadds matsmanns. Um þetta beri fundargerðir vitni en þar séu einnig færðar til bókar eftirgjafir gagnaðila á kröfum. Þrátt fyrir þetta segi í dómi Hæstaréttar að endurupptökubeiðandi hafi ekki sýnt fram á staðhæfingar sínar með skjallegum gögnum. Endurupptökubeiðandi leggur í þessu sambandi fyrir endurupptökunefnd kröfulýsingu í þrotabú hans, kröfuskrá þrotabús Skúlagötu 30 ehf., staðfestingu frá embætti sýslumannsins í Reykjavík, dags. 1. nóvember 2013, um að nauðungarsölubeiðnir hafi verið afturkallaðar, afsal fasteignarinnar að Brúarvogi 1-3, fundargerð veðhafafundar frá 2. nóvember 2011 í þrotabúi Skúlagötu 30 ehf. og loks tölvupóst frá skiptastjóra Skúlagötu 30 ehf. frá 4. nóvember 2013.

Endurupptökubeiðandi heldur því fram að misskilnings gæti í dómi Hæstaréttar þar sem fram komi að endurupptökubeiðandi hafi ekki sýnt fram á að krafan, sem höfð sé uppi í málinu, hafi verið greidd eða gefin eftir að hluta. Í dóminum sé ekki litið til atvika er urðu eftir að bú Skúlagötu 30 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og þeirra gjörninga sem skiptastjóri þrotabúsins framkvæmdi á skiptafundi er hann afsalaði fasteignum félagsins. Endurupptökubeiðandi hafi í málarekstrinum lagt fram skjöl, þ.e. afsöl og fundargerðir, þar sem fram komi greiðslur og eftirgjafir. Þá vísar endurupptökubeiðandi til fyrrgreinds tölvupósts skiptastjóra þrotabús Skúlagötu 30 ehf. en þar sé upplýst að gagnaðili hafi lækkað kröfur sínar í búið sem nemi mismuni annars vegar á fasteignamati eigna þeirra er dótturfélag hans leysti til sín og hins vegar á því verði er félagið leysti eignirnar til sín úr þrotabúinu.

Vanreifun Hæstaréttar hvað varði mikilsverð málsatvik hafi orðið til þess að marka forsendum dómsins rangan farveg og grundvallarspurningum kröfu- og skuldaskilaréttar ekki svarað, auk þess sem sönnunarreglum réttarfars hafi ekki verið beitt með réttum hætti. Grundvallarregla gjaldþrotaréttar sé að hver sá sem telji sig lánardrottinn og krefjist gjaldþrotaskipta beri fyrir því sönnunarbyrði að hann eigi kröfu. Krafa gagnaðila í þrotabú Skúlagötu 30 ehf. hafi áður numið 624.247.005 krónum. Hún virðist samkvæmt gögnum málsins einungis lækka um 10 milljónir króna þrátt fyrir að gagnaðili hafi leyst til sín fleiri tugi þúsunda af fermetrum í nýju hátækniatvinnuhúsnæði sem hafi staðið til tryggingar kröfunni. Þá hafi gagnaðili ekki gert grein fyrir verðmætum er hann hafi fengið með ráðstöfunum skiptastjóra þrotabús Skúlagötu 30 ehf. Þrátt fyrir þessi atriði og fleiri sem endurupptökubeiðandi nefnir í rökstuðningi sínum, hafi gagnaðili sótt að fullu á hann án þess að tillit hafi verið tekið til eftirgjafar skulda. Hæstiréttur hafi ekki hreyft við gögnum sem hafi sýnt fram á greiðslu á ætluðum kröfum gagnaðila en sem endurupptökubeiðandi hafi sannanlega aflað og lagt fyrir dóm. Verði ekki betur séð en að þau hafi mislagst hjá Hæstarétti. Endurupptökubeiðandi vekur einnig athygli á því að mál það, sem endurupptökubeiðni lýtur að, varði einungis einn reikning, nr. 60126, en Skúlagata 30 ehf. hafi skilið eftir sig skuldir á fjórum reikningum. Reikningur nr. 60126 hafi verið betur tryggður en hinir, með 1. og 2. veðrétti í fasteigninni að Brúarási 1-3, en eignasafn þrotabúsins hafi nægt til að tryggja efndir á öllum reikningunum.

Loks telur endurupptökubeiðandi að víkja hafi átt umræddri sjálfskuldarábyrgð til hliðar á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga en Hæstiréttur hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu með rökstuddum hætti. Hvað áskilnað b-liðar 1. mgr. 167. gr. um ný gögn varðar vísar endurupptökubeiðandi til fyrrgreindra gagna sem hann hefur lagt fyrir endurupptökunefnd. Þá séu stórfelldir hagsmunir hans í húfi, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr.

IV.      Viðhorf gagnaðila

Gagnaðili krefst þess að beiðni um endurupptöku verði hafnað. Endurupptökubeiðandi hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á yfirdrætti á reikningi Skúlagötu 30 ehf. Hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðar hafi verið ákveðin 160 milljónir króna. Yfirdráttarheimildin hafi runnið út án þess að skuld á reikningnum hefði verið greidd. Í kjölfarið hafi hafist innheimtuaðgerðir gagnvart endurupptökubeiðanda, gerð hafi verið krafa um löggeymslu en hún hafi reynst árangurslaus. Á grundvelli þessa var gerð krafa um að bú endurupptökubeiðanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Endurupptökubeiðandi virðist ekki bera brigður á að rétt hafi verið að ljúka löggeymslunni sem árangurslausri. Hann hafi ekki gert neina tilraun til að sýna að hann hafi verið borgunarmaður fyrir þeim kröfum sem gagnaðili hafi haft uppi en eins og rakið sé í dómi Hæstaréttar í málinu hafi endurupptökubeiðandi ekki sýnt fram á að umrædd krafa gagnaðila hafi verið greidd eða hún gefin eftir.  

Gagnaðili telur að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. séu ekki uppfyllt. Ekki hafi sérstaka þýðingu í málinu hvort fasteignir Skúlagötu 30 ehf. hafi verið seldar nauðungarsölu en það sé rétt sem fram komi í máli endurupptökubeiðanda að það hafi verið skiptastjóri þrotabús Skúlagötu 30 ehf. sem ráðstafaði eignunum á grundvelli 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þetta atriði hafi ekki verið hluti af efnislegri niðurstöðu héraðsdómara í málinu. Auk þess hafi endurupptökubeiðandi vakið athygli á þessu í kæru sinni til Hæstaréttar en rétturinn hafi ekki talið þetta skipta slíku máli að ástæða þætti til að árétta þetta sérstaklega í dóminum. Loks sé augljóst að það hafi engu skipt varðandi efnislega niðurstöðu málsins, hvort eignunum hafi verið ráðstafað með nauðungarsölu eða ráðstöfunum skiptastjóra. Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar að endurupptökubeiðandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum.

Erfitt sé að átta sig á röksemdum endurupptökubeiðanda hvað varði greiðslu og eftirgjöf umræddrar skuldar en hann blandi enn og aftur skiptum á Skúlagötu 30 ehf. inn í ágreining milli aðila. Gagnaðili hafnar því alfarið að krafa hans hafi verið nægilega tryggð eða greidd að fullu. Rekur hann kröfulýsingu bankans í þrotabú Skúlagötu 30 ehf., sem hafi numið samtals 1.895.468.595 krónum, meðferð skiptastjóra á kröfunum, ráðstöfun skiptastjóra á eignum þrotabúsins og uppgjöri veðkrafna og lögveðskrafna. Er í þessum efnum vísað til gagna sem lágu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu. Gagnaðili rekur meðal annars að skiptastjóri hafi haldið veðhafafundi þar sem yfirveðsettum fasteignum þrotabúsins hafi verið ráðstafað til Regins A1 ehf., dótturfélags gagnaðila. Á móti hafi gagnaðili fallist á að lækka kröfur sínar í þrotabúið sem næmi fasteignamati eignanna að frádregnu því sem Reginn A1 ehf. hafi þurft að verja til uppgjörs veðkrafna og lögveðskrafna. Eftir það uppgjör hafi Reginn A1 ehf. greitt tvisvar sinnum inn á lán hjá gagnaðila, samtals 609.283.977 krónur, en það hafi verið allt sem gagnaðili hafi fengið vegna kaupa Regins A1 ehf. á umræddum fasteignum. Samkvæmt þessu sé fjarstæðukennt að halda því fram að gagnaðili hafi fengið kröfur sínar að fullu greiddar eða þær tryggðar með fullnægjandi hætti.

Þá hafnar gagnaðili því að skilyrði hafi verið til beitingar 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga í málinu. Ekki séu færð frekari rök fyrir beitingu ákvæðisins í málinu umfram þau sem endurupptökubeiðandi færði fram fyrir dómi. Loks telur gagnaðili að ekki hafi verið lögð fram ný gögn í málinu sem muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft, samkvæmt umsókn aðila, að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Bú endurupptökubeiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu lá fyrir að árangurslaus löggeymsla hafði verið gerð hjá endurupptökubeiðanda á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem hann hafði undirgengist vegna yfirdráttar á reikningi Skúlagötu 30 ehf. í Landsbanka Íslands hf. Virðist ekki vera ágreiningur um þessi atriði í málinu fyrir endurupptökunefnd.

Endurupptökubeiðandi ber aftur á móti brigður á þá kröfu gagnaðila sem varð þess valdandi að gengið var að honum sem sjálfskuldarábyrgðarmanni vegna fyrrgreinds yfirdráttar og telur að skuldin hafi verið greidd eða gefin eftir að hluta. Hann telur í fyrsta lagi það hafa þýðingu að ranglega hafi verið lagt til grundvallar í úrskurði héraðsdóms að nauðungarsala hafi farið fram á fasteignum þrotabúsins að Skúlagötu 30 ehf. og það hafi ekki verið leiðrétt í Hæstarétti. Leggur hann fram gögn fyrir endurupptökunefnd máli sínu til stuðnings. Í öðru lagi sé í dómi Hæstaréttar ekki litið til atvika sem urðu eftir að bú Skúlagötu 30 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og þeirra gerninga sem skiptastjóri þrotabúsins framkvæmdi á skiptafundi er hann afsalaði fasteignum félagsins. Endurupptökubeiðandi vísar meðal annars til fundargerðar frá veðhafafundi 2. nóvember 2011 í þrotabúi Skúlagötu 30 ehf. og tölvupósts frá skiptastjóra Skúlagötu 30 ehf. frá 4. nóvember 2013. 

Báðar þessar málsástæður hafði endurupptökubeiðandi uppi við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Sérstaklega er tekið fram í kæru hans til Hæstaréttar að eignirnar hafi ekki verið seldar nauðungarsölu. Þetta atriði lá því fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti en hafði ekki áhrif á niðurstöðu þess. Þá bar endurupptökubeiðandi fyrir sig, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, að gagnaðili hefði fengið fullar heimtur krafna sinna með því að leysa til sín allar tryggingar og að eignir stæðu fyllilega undir skuldum við gagnaðila þegar þær hefðu verið rétt reiknaðar og uppgjör vegna gengistryggðra lána hefði farið fram. Lagði hann meðal annars fram fyrrgreinda fundargerð veðhafafundar fyrir Hæstarétt. Auk þessarar fundargerðar leggur hann fyrir endurupptökunefnd tölvupóst frá skiptastjóra þrotabús Skúlagötu 30 ehf. auk annarra gagna. Ekki verður séð að umræddur tölvupóstur eða önnur framlögð skjöl fyrir endurupptökunefnd geti talist til nýrra gagna sem hafi þýðingu í málinu til viðbótar við þau gögn sem endurupptökubeiðandi lagði fram í dómsmálinu og þar var tekin afstaða til. Þótt þessi skjöl lúti að atriðum er varða skipti á þrotabúi Skúlagötu 30 ehf., sem var eigandi reikningsins sem sjálfskuldarábyrgð endurupptökubeiðanda tók til, hafa þau ekki að geyma upplýsingar sem varpa frekara ljósi á að hve miklu leyti gagnaðili fékk heimtur á kröfu þeirri, sem lá til grundvallar hinni árangurslausu löggeymslu hjá endurupptökubeiðanda, en í dómi Hæstaréttar í málinu kemur fram að endurupptökubeiðandi beri, gegn andmælum gagnaðila, sönnunarbyrði fyrir slíku.

Endurupptökubeiðandi hefur því ekki leitt líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og að honum hafi ekki verið um að kenna, sbr. fyrrgreint ákvæði a-liðar 1. mgr. 167. gr. Þá uppfylla gögn þau sem hann leggur fram í þessu sambandi ekki áskilnað b-liðar sama ákvæðis um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Hvað varðar þá röksemd endurupptökubeiðanda að víkja eigi sjálfskuldarábyrgð þeirri sem hann undirgekkst vegna reiknings Skúlagötu 30 ehf., nr. 60126 hjá Landsbanka Íslands hf., til hliðar á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þá hafði endurupptökubeiðandi einnig þá málsástæðu uppi á báðum dómstigum. Hafnaði héraðsdómur henni með nánar tilgreindum rökum. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna hans.  Er því ekki fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. séu uppfyllt.

Að framansögðu er ljóst að á skortir að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt og er því beiðni um endurupptöku hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Hauks Hjaltasonar um endurupptöku máls nr. 256/2013 sem dæmt var í Hæstarétti 23. apríl 2013 er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Kristbjörg Stephensen

Sigurður T. Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta