Landbúnaðarstefna verður mótuð fyrir Ísland
Mótuð verður Landbúnaðarstefna fyrir Ísland um sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar. Verkefnið verður í forgangi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og mun fyrsti þáttur verkefnisins hefjast á næstu vikum, meðal annars með opnum fundum um allt land. Þetta kom fram í ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við setningu Búnaðarþings í dag. Tillaga um mótun stefnunnar er að finna í lokaskýrslu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga og hefur undirbúningsvinna við mótun hennar staðið yfir síðustu mánuði.
Úr ávarpi Kristjáns Þórs á Búnaðarþingi í dag:
„Ágætu gestir.
Búvörusamningar hafa undanfarna áratugi verið önnur meginstoða íslensks landbúnaðar. Síðustu búvörusamningar tóku gildi í upphafi árs 2016 og gilda til 10 ára en með reglulegri endurskoðun. Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa kosti og skapar tiltekinn fyrirsjáanleika. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að til framtíðar þurfi heildstæðari stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað. Og í mínum huga er þetta hárrétti tíminn til að hefja slíka vinnu enda stendur íslenskur landbúnaður að mörgu leyti á krossgötum.
Því fagna ég tillögu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga að mótuð verði landbúnaðarstefna, um sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar. Skýr landbúnaðarstefna til langrar framtíðar er hagur allra; bænda, neytenda, smásöluaðila, framleiðenda og stjórnvalda. Samhliða gefst tækifæri til að endurskoða landbúnaðarkerfið frá grunni. Við þurfum ekki að óttast endurskoðun. Hún er löngu tímabær og ég er sannfærður um að hún er forsenda frekari framþróunar greinarinnar. Mótun landbúnaðarstefnu er samvinnuverkefni bænda, neytenda og atvinnulífs, og stuðlar að frekari sátt um framtíð íslensks landbúnaðar.
Eftirspurn eftir hollum, hreinum og upprunavottuðum matvælum mun einungis aukast á komandi árum. Þar munu verða ráðandi verðmæti sem við Íslendingar búum svo vel að eiga, nægt hreint vant, endurnýjanleg orka, lítil mengun, heilbrigðir búfjárstofnar og lítil notkun aðskotaefna við framleiðslu matvæla. Þessi gæði eru grunnur þess að Ísland geti verið leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Landbúnaðarstefna sem miðar að þessu markmiði verður að leggja áherslu á nýsköpun, vöruþróun, verðmætasköpun og sjálfbærni. Einnig verður stefnan að stuðla að náttúruvernd og leggja áherslu á rannsóknir og menntun.
Á sama tíma þarf slík stefnumótun að taka tillit til þess að íslenskur landbúnaður er ekki aðeins framleiðsluferill á matvælum. Íslenskur landbúnaður hvílir á breiðari grunni. Hann er hluti af vitund okkar um náttúruna, lífssýn bóndans og verðmætin sem felast í heiðum og dölum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á þessari arfleifð en um leið verðum við að horfast í augu við að kröfur, smekkur, viðhorf og lífstíll breytast hratt – nánast dag frá degi.
Því segi ég við ykkur hér í dag: Þetta verkefni verður í forgangi í landbúnaðarráðuneytinu á næstu misserum og vonast ég eftir uppbyggilegu samtali og samstarfi við bændur. Fyrsti þáttur verkefnisins hefst á næstu vikum, meðal annars með opnum fundum um allt land.“
Ávarpið í heild sinni má finna hér.