Opið samráð um drög að stefnu í málaflokki sveitarfélaga
Drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók) hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Íbúar, sveitarstjórnir og hagsmunasamtök eru hvött til að senda inn umsagnir eða ábendingar um drögin í gegnum gáttina. Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 14. apríl nk.
Hvítbók í málefnum sveitarfélaganna er þáttur í stefnumótunarferli ríkisvaldsins í málefnum sveitarfélaga. Stefnan er unnin á grundvelli gildandi sveitarstjórnarlaga um að ráðherra sveitarstjórnarmála leggi fram tillögu um stefnu í málefnum sveitarfélaga til 15 ára í senn og samhangandi aðgerðaáætlun til fimm ára í senn á minnst þriggja ára fresti. Fyrsta stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga til áranna 2019 til 2033 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun var samþykkt á Alþingi árið 2020. Nú leggur starfshópur innviðaráðherra undir forystu Stefáns Vagn Stefánssonar, alþingismanns, fram drög að endurskoðaðri stefnu og aðgerðaáætlun til áranna 2024 til 2038 í opið samráð.
Stefnuskjalið er unnið á grunni grænbókar um stöðu og valkosti íslenskra sveitarfélaga frá því í lok síðasta árs. Grænbókin er byggð á víðtæku samráði við íbúa, sveitarstjórnir og hagsmunasamtök á öllu landinu. Samráðinu var ýtt úr vör með ítarlegum spurningalista til allra sveitarfélaga í landinu um stöðu og valkosti sveitarstjórnarstigsins á sviði sveitarfélaga-, skipulags- og húsnæðismála síðastliðið sumar. Alls bárust svör við spurningalistanum frá 35 sveitarfélögum af 64 talsins. Í þessum sveitarfélögum búa um 87% íbúa á landinu öllu.
Annar liður í samráðinu fólst í sameiginlegum samráðsfundum allra málaflokka ráðuneytisins með íbúum undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman í október sl. Í tveimur vinnustofum á fundum var gengið út frá meginmarkmiði um búsetufrelsi, þ.e. stefnu ráðuneytisins um að íbúar í öllum sveitarfélögum geti búið við eins sambærileg búsetuskilyrði og aðgengi að þjónustu og og kostur er. Síðast en ekki síst fólst samráðið í viðhorfskönnun meðal ungs fólks á aldrinum 16 til 20 ára gagnvart málaflokkum ráðuneytisins. Samráð var við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í öllu ferlinu.
Markmið hvítbókarinnar er að hvetja til umræðu um drög að stefnu ríkisvaldsins í málefnum sveitarfélaganna og möguleg áhrif hennar á íslenskt samfélag til skemmri og lengri tíma. Um er að ræða fyrstu hvítbókina í málefnum sveitarfélaga í samræmi við stefnumótun Stjórnarráðsins og samhæfingu áætlana á sviði byggða-, húsnæðis-, skipulags- og sveitarstjórnarmála frá upphafi.
Eftir opið samráð verður farið yfir innsendar umagnir áður en endanleg stefna verður útfærð. Þá verður lögð fram á Alþingi tillaga að þingsályktun um samgönguáætlun.