Kaflar á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi boðnir út á næstunni
Boðnir verða út á næstu vikum vegarkaflar á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tilkynnti þetta á málstofu Vegagerðarinnar og ráðuneytisins í dag þar sem sérfræðingar norsku vegagerðarinnar fjalla um veggjöld.
Rætt var um þessi útboð á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimilað að ræða nánar um útboðin við fjármálaráðherra og var málið útkljáð í gær. Kostnaður við verkin er áætlaður um 1.400 milljónir króna á Suðurlandsvegi og um 500 milljónir króna á Vesturlandsvegi og skiptist hann á tvö ár.
Suðurlandsvegur
Verkið felst í breikkun milli Fossvalla í Lögbergsbrekku ofan við Lækjarbotna og Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna. Lengd útboðskafla er um 6,5 km. Að vestan tengist kaflinn núverandi þriggja akreina vegi um Lögbergsbrekku og að austan tengist hann núverandi 2+1 vegi um Svínahraun. Í verkinu er einnig lagfæring á öxlum núverandi vegar sem verður suðurakbraut. Eftir framkvæmdina verður Suðurlandsvegur með aðskildar akstursstefnur samfellt allt milli Fossvalla og vegamóta við Hamragilsveg eða um 11,3 km kafli alls.
Útboðsgögn verða tilbúin í febrúar og boðið verður út á Evrópska efnahagssvæðinu. Miðað er við að semja við verktaka í maí. Verklok eru áætluð 1. október 2011.
Vesturlandsvegur
Um er að ræða tvöföldun kaflans milli Hafravatnsvegar og Þingvallavegamóta, samtals 1,5 km. Í verkinu felst stækkun hringtorgsins við Álafossveg, lenging undirganga fyrir göngu-, hjólreiða- og reiðfólk við Varmá, lenging stálundirganga fyrir göngu- og hjólreiðafólk, breikkun brúar yfir Varmá, gerð göngubrúar yfir Varmá, gerð reið-, göngu- og hjólreiðastíga meðfram Hringvegi, ásamt hljóðmön milli vegar og byggðar við Ásland. Verkið er unnið í samráði við Mosfellsbæ.
Útboð verður auglýst í mars. Miðað er við að semja við verktaka í maí. Verklok eru ráðgerð haustið 2011.