Góður árangur og mikil námsgæði niðurstaða úttektar á skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Meginniðurstöður úttektarinnar eru þær að mikil námsgæði og góður árangur hafi náðst með starfi skólanna í þágu þróunarríkja, námið samrýmist stefnu Íslands, Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnu þróunarríkja. Í úttektinni koma fram ýmsar ábendingar sem snúa bæði að skólunum og ráðuneytinu um það hvernig styrkja megi starfið enn frekar. Einnig er fjallað um áhrif mögulegrar sérstakrar stofnunar Háskóla SÞ á Íslandi. Unnið verður úr þeim á næstu vikum í samstarfi ráðuneytisins og skólanna.
Úttektaraðilum var falið í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun og ábendingar í jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD um þróunarsamvinnu Íslands að meta árangur skólanna og sýna fram á hvernig námið á Íslandi hefði stuðlað að uppbyggingu þekkingar í þróunarríkjum. Margvíslegum matsaðferðum var beitt og úttektarhópurinn rýndi meðal annars námið í skólunum hér á landi og fór í vettvangsferðir til átta þróunarríkja.
Skólarnir fjórir sem um ræðir eru Jarðhitaskólinn sem stofnaður var 1979 og hefur aðstöðu hjá Orkustofnun, Sjávarútvegsskólinn sem stofnaður var 1979 og hefur aðstöðu hjá Hafrannsóknarstofnun, Landgræðsluskólinn sem stofnaður var 2010 og hefur aðstöðu hjá Landbúnaðarháskólanum og Landgræðslu ríkisins og Jafnréttisskólinn sem stofnaður var 2013 og hefur aðstöðu hjá Háskóla Íslands. Allir skólarnir eru að mestu leyti fjármagnaðir af utanríkisráðuneytinu af framlögum til þróunarsamvinnu.
Skólar háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa á Íslandi byggja á sérþekkingu Íslendinga á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis. Hlutverk þeirra allra er að stuðla að þekkingaruppbyggingu í þróunarríkjum. Skólarnir fjórir bjóða fimm til sex mánaða námskeið árlega á Íslandi fyrir sérfræðinga í þróunarríkjum. Frá árinu 1979 til ársloka 2016 höfðu 1149 nemar frá 101 landi útskrifast frá skólunum, þar af 30% konur. Fram kemur í skýrslu úttektaraðila að Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn, elstu skólarnir, bjóði líka með reglubundnum hætti námskeið í samstarfslöndum og hafi um árabil styrkt útskrifaða nemendur til háskólanáms á Íslandi sem skilað hafi góðum árangri.