1051/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.
Úrskurður
Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1051/2021 í málum ÚNU 21060017, 21070016, 21080011, 21090009 og 21100008.Kæra og málsatvik
Með erindum, sem bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál á tímabilinu júní 2021 til október 2021, og dagsettar eru 25. júní, 30. júlí, 18. ágúst, 14. september og 14. október 2021 kærði A afgreiðslur Vestmannaeyjabæjar á beiðnum hans um upplýsingar sem varða fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Fyrir liggur að kærandi sendi sveitarfélaginu fyrirspurnir í hverjum mánuði um það hvað sveitarfélagið hefði greitt út í fjárhagsaðstoð mánuðinn á undan og til hve margra einstaklinga. Í hvert skipti svaraði sveitarfélagið honum því að fyrirspurnirnar féllu ekki undir upplýsingalög.Í kærum kæranda er þess krafist að félagsþjónusta Vestmannaeyja verði úrskurðuð til að afhenda umbeðnar upplýsingar. Það sé hafið yfir vafa að útgjöld Vestmannaeyjabæjar heyri undir upplýsingalög. Kærandi sé ekki að biðja um persónulegar upplýsingar heldur biðji hann um heildartölu vegna þessara útgjalda. Alls ekki sé óskað eftir upplýsingum um það hvernig sú upphæð deilist niður á einstaklinga.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 21. október 2021, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 21. október 2021, segir að umbeðnar upplýsingar myndu kalla á sérstaka vinnu starfsmanna sveitarfélagsins í hverjum mánuði, sem sé almennt ekki unnin. Vestmannaeyjabær taki árlega saman skýrslu um fjölda einstaklinga sem þiggi fjárhagsaðstoð og heildarupphæð hennar. Fyrir geti komið að slík vinna sé unnin oftar en þá sé það að beiðni fagráðs sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki. Að mati Vestmannaeyjabæjar samræmist það ekki hlutverki upplýsingalaga að opna fyrir verkbeiðnir almennings um tiltekna mánaðarlega vinnu sem almennt sé ekki unnin hjá sveitarfélaginu. Aftur á móti liggi þessar upplýsingar fyrir á ársgrundvelli og jafnvel oftar og séu þær vel sýnilegar almenningi og hægt að kalla eftir þeim. Þannig sé gegnsæ stjórnsýsla vel tryggð sem og opinberir hagsmunir.
Í athugasemdum, dags. 4. nóvember 2021, ítrekaði kærandi að útgjöld Vestmannaeyjabæjar féllu undir upplýsingalög. Beðið væri um heildartölu umræddra útgjalda og til hve margra, alls ekki um upphæð til hvers og eins. Persónuupplýsingar kæmu því ekki til álita.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um upplýsingar um greiðslur sveitarfélagsins vegna fjárhagsaðstoðar í hverjum mánuði og til hversu margra einstaklinga.Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á almenningur rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Upplýsingar um útgjöld stjórnvalda, þ.á m. kostnað við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, heyra vissulega undir gildissvið upplýsingalaga. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli upplýsingalaga en í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. segir orðrétt: „Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn […].“
Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja hjá stjórnvöldum á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur komið fram að til þess að verða við beiðnum kæranda þyrfti að leggja í sérstaka vinnu í hverjum mánuði. Sveitarfélagið taki þessar upplýsingar ekki saman mánaðarlega heldur sé það að jafnaði gert árlega fyrir skýrslu sem sé svo birt opinberlega. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sér ekki ástæðu til að draga þær skýringar Vestmannaeyjabæjar í efa. Þannig var ekki búið að taka saman upplýsingarnar sem kærandi óskaði eftir þegar beiðnir hans komu fram heldur hefði þurft að vinna þær sérstaklega upp úr bókhaldi sveitarfélagsins svo unnt hefði verið að afgreiða beiðnirnar.
Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kæru þar að lútandi frá.
Úrskurðarorð:
Kærum A, dags. 25. júní, 30. júlí, 18. ágúst, 14. september og 14. október 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir