Styrkjum úthlutað úr þróunarsjóði innflytjenda
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði í dag 14,2 milljónum króna í styrki úr þróunarsjóði innflytjenda. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum frá stofnun hans árið 2007. Frá þeim tíma hafa styrkir verið veittir til meira en 110 þróunarverkefna og rannsókna.
Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á rannsóknar- og þróunarverkefni sem leggja áherslu á þau samfélagslegu áhrif sem fólk af erlendum uppruna hefur á íslenskt samfélag, falla vel að áherslum þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016-2019 eða stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra, en fleiri verkefni komu einnig til álita.
Afhending verðlaunanna fór fram í Hannesarholti þar sem styrkþegum voru færðar rósir og ljúfir tónar ómuðu þegar hæfileikafólk söng og lék portúgalska sigurlagið úr Eurovision á frummálinu og í íslenskri þýðingu.
Ráðherra segist afar ánægður með hvað styrkumsóknirnar endurspegla mikla grósku í málaflokknum þar sem verkefnin eru fjölbreytt og metnaðarfull.
Alls bárust 40 umsóknir í sjóðinn til margvíslegra verkefna og hlutu eftirtalin fimmtán verkefni styrk.
Rannsóknarverkefni:
Innflytjendur í ferðaþjónustu.
Umsækjandi: MIRRA
Styrkur: 1.200.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnisins er að kortleggja og greina þátttöku innflytjenda í störfum í ferðaþjónustu með aðaláherslu á hótel og gistiheimili. Í verkefninu verður dregin upp heildarmynd af dreifingu þeirra innan greinarinnar eftir mismunandi starfsgreinum - leiðsögumenn, bílstjórar, ferðaskrifstofur, osfrv., - og erlendir starfsmenn hótela og gistiheimila settir í samhengi við þá heildarmynd. Verkefnið hefur ótvírætt gildi og dýpkar skilning á hlutdeild innflytjenda í stærstu atvinnugrein samfélagsins og framlags þeirra til samfélagsins.
--------------------------------------------
Áhrif nafns umsækjanda á mat á reynslu og hæfni umsækjenda.
Umsækjandi: Margrét Sigrún Sigurðardóttir
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Rannsóknin skoðar hvort greina megi mismunun í ráðningaferli og viðhorfi til útlendinga á vinnumarkaði. Lögð er áhersla á uppruna, og skoðuð skörun uppruna við kyn og trúabrögð. Verkefnið er framhald af verkefnis sem fékk styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála árið 2015. Sú rannsókn byggði á viðtölum við mannauðsstjóra í stjórum þjónustu fyrirtækjum og var framkvæmd með „að hugsa upphátt“ aðferðinni.
----------------------------------------
Aðstæður innflytjendafjölskyldna sem eiga fötluð börn
Umsækjandi: Guðbjörg Ottósdóttir
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvernig fjölskyldur af fyrstu kynslóð innflytjenda sem eiga fötluð börn takast á við daglegt líf, samskipti þeirra við nærsamfélagið og við þjónustukerfið sem ætlað er að styðja fjölskyldur fatlaðra barna. Rannsóknin varpar því mikilvægu ljósi á aðstæður fjölskyldnanna hér á landi, samskipti þeirra við nærsamfélagið og hvernig þjónustukerfið nýtist þeim til stuðnings.
---------------------------------------
Innflytjendur á Austurlandi, aðlögun og upplifun.
Umsækjandi: Austurbrú ses.
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnis er tvíþætt, annars vegar að kortleggja þá þjónustu/aðlögun sem innflytjendum mætir þegar þeir velja að búa og starfa á Austurlandi en í dag eru þeir um 900 talsins, eða tæp 10% íbúa Austurlands. Tilgangur rannsóknar er að kanna stöðu innflytjenda á Austurlandi og út frá því meta núverandi verklag varðandi móttöku með það í huga að styðja við aðlögun innflytjenda að samfélaginu.
-------------------------------------
Tækifæri og hindranir í háskólanámi á Íslandi með hliðsjón af uppruna og kyni
Umsækjandi: Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Í rannsókninni verður aðferð samtvinnunar (e. intersectionality) beitt – þar sem samhliða er skoðað í hvaða mæli fólk af erlendum uppruna og fólk af ólíkum kynjum sækir sér háskólamenntun á Íslandi; ástæður að baki mismikilli sókn ólíkra hópa og leitað verður hagnýtra lausna. Verkefnið hefur að markmiði að auka þekkingu á a) hvort fólk af erlendum uppruna sækir háskólanám í minna mæli en aðrir; og b) ástæðum þess að konum hefur á undanförnum árum og áratugum fjölgað hraðar en körlum í háskólanámi; svo og samspili milli a) og b).
------------------------------------
Þróunarverkefni:
Welcome to Iceland
Umsækjandi: Rauði Krossinn í Reykjavík
Styrkur: 900.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið námskeiðsins "Welcome to Iceland" er annars vegar að veita flóttafólki mikilvægar hagnýtar upplýsingar um ýmislegt sem varðar íslenskt samfélag og hins vegar að stuðla að gagnkvæmri aðlögun flóttafólks og Íslendinga hér á landi. Brýnt er að bjóða nýjum íbúum landsins upp á fræðslu þar sem farið er yfir ýmis einkenni og grundvallaratriði íslensks samfélags, til þess að koma í veg fyrir einangrun einstaklinga og stuðla að því að allir eigi sem bestan kost á því að verða ánægðir og virkir borgarar þessa lands.
---------------------------------------------
Vertumemm
Umsækjandi: Velferðarsvið Reykjanesbæjar
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnisins er að efla þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta-og tómstundastarfi í Reykjanesbæ. Rannsóknir sýna að þátttaka barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi er mun minni en annarra barna í sveitarfélaginu og foreldrar af erlendum uppruna sækja síður um hvatagreiðslur sveitarfélagsins sem eru til þess fallnar að niðurgreiða fjölbreytt íþrótta-og tómstundastarf í sveitarfélaginu. Markmið verkefnisins er að ná til foreldra og barna af erlendum uppruna, styrkja félagslega stöðu barna af erlendum uppruna, þátttöku þeirra og sýnileika í sveitarfélaginu.
---------------------------------------
Velferðarverkefnið Áfram
Umsækjandi: Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis
Styrkur: 1.100.000 kr.
Lýsing á verkefni: Megináhersla ÁFRAM er að veita ungmennum ráðgjöf og stuðning sem viðheldur virkni í framhaldsnámi og vinnur gegn brotthvarfi úr námi. Leiðarljósið er að koma á móts við þarfir einstaklingsins hverju sinni og stuðla að því að honum takist að fóta sig í námi og nái markmiðum sínum.
------------------------------------------------
Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna
Umsækjandi: Kvennréttindafélag Íslands
Styrkur: 500.000 kr.
Lýsing á verkefni: Kvenréttindafélag Íslands hyggst halda stjórnmálanámskeið fyrir konur af erlendum uppruna. Í námskeiðinu er farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, innviðir stjórnmálanna kynntir, farið yfir "óskrifaðar reglur" stjórnmálanna, og unnið að tengslamyndun þátttakenda.
-----------------------------------------
Hinsegin innflytjendur: jafnrétti, lýðheilsa og samtvinnun.
Umsækjandi: Samtökin 78
Styrkur: 850.000 kr.
Lýsing á verkefni: Verkefnið snýr að því að ná til þeirra innflytjenda sem falla undir hinsegin regnhlífina varðandi kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni. Hinsegin fólk verður ítrekað fyrir einelti, fordómum og öðru ofbeldi sem hefur markverð áhrif á möguleika þess til menntunar og atvinnu.
----------------------------------------
Listin talar tungum
Umsækjandi: Þróunarverkefni, Listasafn Reykjavíkur
Styrkur: 750.000 kr.
Lýsing á verkefni: Móðurmálshóparnir eru margir eða hátt í þrjátíu mismunandi tungumál. Hóparnir eru mistórir og hafa átt í vandræðum með aðstöðu og sé Listasafnið sér tækifæri til að styðja við samtökin, með því að bjóða upp á vettvang í safnhúsunum: Kjarvalsstaði, Hafnarhúsinu og Ásmundarsafni. Hóparnir fá ókeypis aðgang og fræðslu um sýningarnar. Annar liður í samstarfinu er sá að Listasafn Reykjavíkur hefur sett saman metnaðarfulla viðburðardagskrá með vikulegum leiðsögnum á mismunandi tungumálum “Listin talar tungum”.
----------------------------------
Efling frumkvöðlakvenna af erlendum uppruna
Umsækjandi: Vinnumálastofnun
Styrkur: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnisins er að efla frumkvöðlakonur af erlendum uppruna sem búa á Íslandi með því að bjóða þeim upp á fræðslu um rekstur fyrirtækja. Einnig er markmið verkefnisins að efla tengslanet þeirra kvenna af erlendum uppruna sem huga að stofnun fyrirtækja. Mikil þörf er á því að efla konur af erlendum uppruna þar sem þær eiga oft erfitt uppdráttar í íslensku samfélagi. Þær eru margar hverjar mjög vel menntaðar en oft á tíðum virðast þær ekki fá störf við hæfi. Ein leiðin í þeim aðstæðum er oft á tíðum að skapa sér eigið starf og byggja á hæfni og reynslu sem þær oft hafa í farteskinu. Með því að efla hæfni þeirra og færni í rekstri fyrirtækja eru meiri líkur á því að þær láti hugmynd verða að veruleika og þar með skapa fjölbreyttari störf í íslensku samfélagi.
------------------------------------
Hæfnisgreining starfs túlks og námskrá fyrir túlka af erlendum uppruna
Umsækjandi: Mímir
Styrkur: 1.000.000
Lýsing á verkefni: Markmiðið er að greina hæfni starfandi túlka af erlendum uppruna og skrifa 132 klst. námskrá fyrir samfélagstúlka. Mímir hefur hannað og haldið tvö námskeið fyrir túlka. Markmiðið er að auka hæfni og menntun samfélagstúlka og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin.
Önnur verkefni:
Þýðing og staðfæring á handbókinni; Give us some time. Supporting resettled refugees with psychosocial impairments
Umsækjandi: Rauði krossinn á Íslandi
Styrkur: 1.300.000 kr.
Lýsing á verkefni: Verkefnið gengur út á að láta þýða og staðfæra handbók sem gefin er út af Dutch Council for Refugees og unnin í samvinnu við Pharos Centre of Expertise on Health Disparities. Handbókin heitir Give us some time. Supporting resettled refugees with psychosocial impairments. Handbókinni er ætlað að vera vinnugagn fyrir þjónustuaðila sem vinna í beinu starfi með flóttafólki og nýtist jafnt starfsfólki sveitarfélaga, skóla, heilbrigðisþjónustu og félagasamtaka.
----------------------------------------------------------------------
Íþróttir fyrir alla! - Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf.
Umsækjandi: Ungmennafélag Íslands
Styrkur: 600.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnisins er að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi getur verið jákvæð leið til þess að aðlagast íslensku samfélagi og til þess að rjúfa félagslega einangrun meðal þessa hóps.