Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Óttast að barnahjónaböndum fjölgi á næstum árum

Forsíðumynd skýrslunnar. - mynd

Talið er að tólf milljónir stúlkna yngri en átján ára gangi í hjónaband á ári hverju, þar af um tvær milljónir yngri en fimmtán ára. Að mati alþjóðasamtakanna Barnaheilla - Save The Children er ástæða til að óttast fjölgun barnahjónabanda á næstu árum vegna ytri aðstæðna í heiminum eins og stríðsátaka, heimsfaraldurs kórónuveirunnar og verstu matvælakreppu um langt árabil. Samtökin telja að tíu milljónir stúlkna til viðbótar verði giftar fyrir lok áratugsins.

Í nýrri skýrslu Save the Children – Global Girlhood Report 2022: Girls on the frontline – er sérstök athygli vakin á því að stúlkur á átakasvæðum séu tuttugu prósent líklegri til að enda í hjónabandi á barnsaldri borið saman við jafnöldrur þeirra í friðsælum heimshlutum. Þar kemur enn fremur fram að 90 milljónir stúlkna – ein af hverjum fimm í heiminum – búi á átakasvæði sem hafi skelfleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra, og framtíðartækifæri.

Í skýrslunni segir að þótt tekist hafi að koma í veg fyrir 25 milljónir barnahjónabanda á árunum 2008 til 2018 sé fjarri lagi að heimurinn sé á réttri leið hvað varðar fyrirheitið um að útrýma barnahjónaböndum fyrir árið 2030 eins og kveðið sé á um í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

„Átök hafa skelfileg áhrif á fjölskyldur og neyða þær til að flýja heimili sín, skóla og störf til að flytja í tímabundnar búðir, sem oft einkennast af þrengslum, lítilli þjónustu, takmörkuðum möguleikum til tekjuöflunar, og næstum engri vernd gegn ofbeldi. Þótt börn beri þungann af hvaða stríði sem er, vitum við að stúlkur eru skotmörk hrottalegs ofbeldis vegna kyns þeirra - í öllum átökum,“ segir Inger Ashing framkvæmdastýra Save the Children.

Hæsta hlutfall barnahjónabanda í heiminum er í vestur- og miðhluta Afríku.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta