Eitt brýnasta samfélagsmálefni sem við stöndum frammi fyrir
Í gær fór fram opna málþingið Gervigreind, siðferði og samfélag. Málþingið var á vegum landsnefndar UNESCO í samvinnu við Háskóla Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
Í ávarpi sínu fór Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra meðal annars yfir helstu áhættuþætti og áskoranir tengda gervigreind sem og næstu skref fyrir íslensk stjórnvöld. Gervigreindin getur gert mikið með samspili við máltækni, líkt og fyrirtæki eins og Open AI, Microsoft og fleiri hafa sýnt fram á síðustu misseri.
„Gervigreindin er alls staðar. Hún er að skoða það hver okkar hegðun er, bæði þegar við erum í hinum stafræna heimi og hún er líka að nýtast okkur úti um allt,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra við setningu málþingsins.
Áskoranir og tækifæri
Ráðherra rifjaði upp fund sendinefndar Íslands við Open AI árið 2022 þar sem farið var meðal annars yfir þá stórkostlegu þróun sem hefur átt sér stað í íslenskri máltækni og á sér auðvitað langan aðdraganda.
„Við kynnum að það sé búið að smíða þessa innviði með hjálp okkar færasta fólks í háskólanum og svo í samspili við atvinnulífið. Við tókum þá ákvörðun að það væri mjög mikilvægt að við færum og myndum hitta þessa sem væru fremstir í tækninni.“
Íslenska sendinefndin fundaði þá meðal annars með Apple, Microsoft og fleiri fyrirtækjum. Ráðherra segir að þróun gervigreindar setji athyglina á þessar áskoranir sem við stöndum fyrir en líka tækifærin, hvað gervigreindin getur gert til að aðstoða okkur í þessu daglega lífi.
Í yfirferð sinni um áhættuþætti og áskoranir ræddi ráðherra sérstaklega um vinnumarkaðinn.
„Við munum sjá að störf eru að fara að breytast. Það eru einhver störf sem munu verða úrelt og við höfum séð það í öllum tæknibreytingum, það verður mikil aðlögun að þessari nýju tækni,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu.
Enginn hópur megi vera skilinn eftir og því þurfi að hafa mjög góðan skilning á áhrifunum á vinnumarkaðinn hér á landi í kjölfarið á gervigreind.
„Stjórnvöld ættu því að mæta þessu með því að reyna að vera aðeins á undan. Þau störf sem eru líkleg til að vera ekki enn til staðar, að bjóða upp á endurmenntun og vera fremst í flokki að bjóða þá ný tækifæri á þessum vinnumarkaði“
Lesskilningurinn mikilvægur
Ráðherra benti einnig á að með tilkomu gervigreindar væri mikilvægt að huga að því að tæknin gerir líka mistök, líkt og margir hafa rekist á sem hafa prófað forrit eins og Chat GPT-4.
„Við erum allt í einu komin í heim þar sem það er ekki endilega víst að það sem þú ert með fyrir framan þig sé endilega satt og rétt.“
Ítrekaði hún mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og djúps lesskilnings á þessum breyttu tímum og nefndi einnig mikilvægi ritstýrðra fjölmiðla í þessu samhengi.
„Þess vegna er mjög bagalegt þegar við höfum séð þeirra tekjumódel nánast hrynja af því að auglýsingatekjurnar fara mjög mikið á þessar stóru efnisveitur.“
Máltækniáætlun 2 er nú í vinnslu innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
„Þarna ætlum við að taka saman aftur gott samstarf við fræðasamfélagið, Stofnun Árna Magnússonar, atvinnulífið og stjórnvöld. Þetta er eitt af því sem við ætlum að halda áfram að sinna,“ segir ráðherra
„Þetta er eitt brýnasta samfélagsmálefni sem við stöndum frammi fyrir og ég held að við séum mjög vel undirbúin sem samfélag þar sem menntun er almenn og lesskilningur er býsna góður, þrátt fyrir að hann komi kannski frekar fram á seinni stigum í náminu. En þetta á að hvetja okkur enn frekar til dáða, að ná einstaklega góðum tökum á lesskilningi og að passa upp á að það sé menntun fyrir alla í samfélaginu okkar og auka þá stuðning við þá nemendur sem á þurfa að halda.“
Í samráðsgátt er nú þingsályktunartillaga um eflingu íslenskrar tungu.
UNESCO tilmælin þýdd á íslensku
Í nóvember 2021 samþykktu 193 aðildarríki á aðalráðstefnu UNESCO Tilmæli um siðferði gervigreindar, þar sem mörkuð voru, í fyrsta sinn, alþjóðlega viðurkennd siðferðileg viðmið um þróun og nýtingu gervigreindartækni og lagður grunnur að leiðarvísi fyrir ábyrga stefnumótun um efnið.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið og háskóla- og nýsköpunarráðuneytið munu gefa út íslenska þýðingu á þessum tilmælum á næstu misserum, líkt og ráðherra tilkynnti um í ávarpi sínu í dag.
Tilmælin hafa það meginmarkmið að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn og stuðla að því að hin nýja tækni verði notuð í þágu alls mannkyns. Á málþinginu verður velt upp margvíslegum spurningum um gervigreind, siðferði og samfélag.