Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherrar funda í Osló

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Jan Tore Sanner ráðherra mennta- og innflytjendamála í Noregi. - mynd
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Noreg ásamt fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fulltrúum menntavísindasviðs Háskóla Íslands og kennaradeildar Háskólans á Akureyri til þess að kynna sér umbætur í menntamálum.

Breytingar á norska menntakerfinu hafa skilað góðum árangri en undanfarin tíu ár hafa verið innleiddar þar breyttar áherslur. Ráðist var í umbætur á menntakerfi Noregs í kjölfar slaks gengis þarlendra nemenda í alþjóðlegum könnunum. Menntun kennara og skólastjórnenda var aukin sem og svigrúm sjálfstæðra skóla. Árið 2006 fóru norsk stjórnvöld í átaksverkefni um eflingu þekkingar á öllum skólastigum en í því fólst að í norskum skólum var lögð sérstök áhersla á tiltekna grunnfærni í öllum námsgreinum; lestur, ritun, norsku, stafræna færni og stærðfræði.

Á fundi ráðherra með Jan Tore Sanner, ráðherra mennta- og innflytjendamála í Noregi, ræddu þau Lilja Alfreðsdóttir meðal annars áherslu á norskunám í menntun barna af erlendum uppruna og sértækar aðgerðir sem nýst hafa til þess að jafna stöðu þeirra í norska skólakerfinu. Í ferðinni heimsótti hópurinn einnig grunnskólann Tøyen í Osló og kynnti ráðherra sér þar stefnu í móttöku barna af erlendum uppruna og aðlögun þeirra en í þeim skóla eru um 90% nemenda með annað móðurmál en norsku.

„Norðmenn standa framarlega á mörgum sviðum í menntamálum en mér fannst sérstaklega áhugavert að sjá hvaða árangri þeir hafa náð í menntun barna af erlendum uppruna. Það kallar á sveigjanleika, viðbragðsflýti og úrræðagæði að taka á móti fjölbreytilegum nemendahópum inn í skólakerfi og þar getum við mögulega nýtt okkur reynslu Norðmanna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Áherslu- og stefnubreytingar sínar í menntamálum byggja Norðmenn á niðurstöðum rannsókna og þar fer fram stöðugt mat á árangri. Menntarannsóknir og gagnrýn viðhorf skipa miklu þegar kemur að því að móta áherslur í menntamálum.“

Aðalefni fundar ráðherra með Iselin Nybø, ráðherra rannsókna og háskólamála í Noregi, voru aðgerðir er miða að því að efla starfsumhverfi og nýliðun í kennarastétt í Noregi. Umsóknum um kennaranám þar hefur fjölgað um 18% milli ára en áherslur Norðmanna hafa meðal annars beinst að því að lengja kennaranám, efla starfsþróun kennara og breyta námslánum í styrki.

„Nýliðun í stétt kennara er áskorun sem mörg nágrannalönd okkar glíma einnig við en í mörgum þeirra hefur tekist vel að styrkja starfsumhverfi kennara og sporna við því að kennarar hverfi til annarra starfa. Við erum á þeirri vegferð nú að bæta starfsumhverfi kennara á Íslandi og það viljum við gera m.a. með því að breyta áherslum í kennaranámi og styðja betur við nýja kennara sem koma til starfa. Það er alltaf gott að fræðast um hvað hefur virkað vel fyrir aðra og þótt kerfi okkar Norðmanna séu ólík eigum við það sameiginlegt að vilja byggja upp frábær menntakerfi með framúrskarandi kennurum.“

Meðal annarra viðkomustaða hópsins voru BI-viðskiptaháskólinn sem ein stærsta endurmenntunarstofnun fyrir kennara í Noregi auk þess sem skólinn sinnir menntun og símenntun skólastjórnenda. Ráðherra hélt þar einnig fyrirlestur um efnahags- og menntamál.

Þá kynntu ráðherra og fylgdarfólk sér kennaramenntun við Oslóar-háskóla og OslóMet. Hópurinn fundaði einnig með sambandi norskra sveitarfélaga og svæðisstjórna og Kennarasambandi Noregs.

  • Menntamálaráðherrar funda í Osló - mynd úr myndasafni númer 1
  • Menntamálaráðherrar funda í Osló - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta