Mál nr. 13/2021- Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.
A kærði ákvörðun R um að ráða konu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hjá sveitarfélaginu. Að mati kærunefndar var ekki sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að R hefði gerst brotleg við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála 6. maí 2022 er tekið fyrir mál nr. 13/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dags. 27. september 2021, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ráða konu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hjá Reykjavíkurborg. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Reykjavíkurborg brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 7. október 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 22. nóvember s.á., og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 23. s.m. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 7. desember 2021, sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dags. 14. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 18. janúar 2022, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 19. s.m. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust kærunefndinni með bréfi, dags. 8. febrúar 2022, og voru þær sendar kærða með bréfi kærunefndar, dags. 10. s.m. Viðbótarathugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 2. mars 2022, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 4. s.m.
MÁLAVEXTIR
- Kærði auglýsti starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar 26. febrúar 2021. Umsóknarfrestur var til 15. mars 2021 en ákveðið var að framlengja hann til 22. mars s.m. Í auglýsingu kom fram að leitað væri að öflugum og metnaðarfullum leiðtoga í tímabundið starf til eins árs við nýja atvinnu- og virknimiðlun borgarinnar. Verkefnið væri samstarfsverkefni mannauðs- og starfsumhverfissviðs og velferðarsviðs.
- Í auglýsingunni voru annars vegar talin upp helstu verkefni og ábyrgð og hins vegar hæfniskröfur. Helstu verkefni og ábyrgð voru þarfagreining og gerð áætlana vegna atvinnu- og virknimiðlunar hjá Reykjavíkurborg, ábyrgð á sköpun fjölbreyttra stuðnings- og virkniúrræða til að tryggja atvinnutengda endurhæfingu, heildarsýn yfir vinnumarkaðsaðgerðir á hverjum tíma, m.a. út frá áætlunum stjórnvalda, að tryggja tölfræðilega og fjárhagslega greiningu á verkefnum á vegum atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar og stýring samráðsvettvangs atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar. Menntunar- og hæfniskröfur voru háskólagráða auk framhaldsmenntunar sem nýtist í starfi, leiðtogahæfni og stjórnunarreynsla, þekking og reynsla af sviði atvinnu- og virknimiðlunar, af verkefnastjórnun, greiningum og áætlanagerð, frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi, skipulagshæfni og sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptahæfni, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku og hreint sakavottorð samkvæmt lögum sem og reglum Reykjavíkurborgar. Þá var þekking og reynsla af breytingastjórnun og reynsla af opinberri stjórnsýslu tilgreint sem kostur.
- Alls bárust 32 umsóknir um starfið og var sjö umsækjendanna boðið í viðtal. Í framhaldinu var þremur þeirra, tveimur körlum, þ. á m. kæranda, og einni konu, boðið í síðara viðtal og jafnframt óskað eftir því að þau leystu af hendi ákveðið verkefni. Að því loknu var ákveðið að bjóða konunni starfið sem hún þáði.
- Kærandi óskaði 28. apríl 2021 eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og var hann veittur með bréfi, dags. 27. maí 2021.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi telur að við ráðningu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hjá kærða hafi ákvæði laga nr. 150/2020 verið brotin. Hafi þannig kyn verið látið ráða við ákvörðunartökuna fremur en hæfni til starfans. Telur kærandi að rökstuðningur kærða leiði í ljós slíka annmarka á ráðningarferlinu að ekki verði hjá því komist að álykta að niðurstaða kærða hafi ekki verið byggð á málefnalegum rökum og hlutlægu mati.
- Gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við einstaka matsþætti og stigagjöf valnefndar. Telur kærandi að valnefndin hafi við stigagjöf sniðgengið beinar og hlutlægar staðreyndir í mati sínu á þekkingu hans, hæfni og hæfileikum. Niðurstaða stigagjafar valnefndar hefði orðið önnur hefði matið farið fram með vönduðum hlutlægum samanburði, byggðum á staðreyndamati, og honum boðið starfið.
- Kærandi gerir athugasemd við mat kærða á matsþættinum háskólagráða. Hvergi komi fram í auglýsingu starfsins að háskólapróf í hagfræði eða viðskiptafræði sé „betra“ eða æskilegra háskólapróf en annað háskólapróf. Þá ætti að vera ljóst miðað við eðli starfsins að menntun á sviði mann- og félagsvísinda sem og MBA-viðskiptapróf ætti að vera metin til fleiri stiga en menntun á sviði samgönguverkfræði. Telur kærandi að hann hefði átt að fá fjögur stig í stað þriggja fyrir þennan þátt. Hins vegar gerir kærandi ekki athugasemdir við mat ráðningaraðila á matsþáttunum framhaldsmenntun og stjórnunarreynsla.
- Kærandi telur að fyrir matsþáttinn reynsla á sviði atvinnu- og virknimiðlunar hafi ekki verið tekið að fullu tillit til reynslu hans og þekkingar þrátt fyrir að hún hafi komið skýrt fram í gögnum og viðtölum og sé opinberlega þekkt. Bendir kærandi á að sem framkvæmdastjóri Rauða krossins hafi hann verið vel inni í virkniúrræðum á vegum félagsins, ríkis og sveitarfélaga, auk úrræða annarra hjálpar- og mannúðarsamtaka hér á landi og erlendis. Þá bendir kærandi á að hann hafi áralanga reynslu af mannauðsmálum auk þess að hafa aflað sér þekkingar og reynslu á sviði sáttamiðlunar og hafa réttindi til að kenna áfallahjálp. Telur kærandi að hann hefði átt að fá minnst þrjú stig fyrir þennan matsþátt í stað eins.
- Kærandi telur að fyrir matsþættina þekking á verkefnastjórnun (breytingastjórnun), reynsla af áætlanagerð og greiningum og opinber stjórnsýsla hafi kærði ekki tekið tillit til reynslu og þekkingar hans á þessum þáttum sem hafi komið skýrt fram í viðtölum og framlögðum gögnum auk opinberra gagna. Vísar kærandi til stjórnunar hans á fjölmörgum verkefnum í samvinnu við opinbera aðila og einkaaðila s.l. 30 ár þar sem áætlanagerð og greiningar af margvíslegu tagi hafi verið eitt af helstu viðfangsefnunum. Kærandi telur að hann hefði átt að fá fjögur stig í stað þriggja fyrir hvern þessara matsþátta.
- Þá gerir kærandi alvarlega athugasemd við matsþáttinn íslenskukunnátta. Engar hlutlægar forsendur séu fyrir þeim tveimur stigum sem valnefnd hafi úthlutað honum fyrir hæfni í móðurmálinu. Telur kærandi að það segi sig sjálft að þau ábyrgðarstörf sem hann hafi gegnt síðustu áratugi, óteljandi kynningar, minnisblöð, fundargerðir, greinargerðir, skýrslur og blaðagreinar sem hann hafi skrifað, krefjist betri þekkingar á íslensku máli en kærði telji hann búa yfir. Kærandi segir óskiljanlegt hvernig kærði hafi komist að þeirri niðurstöðu að íslenskukunnátta hans sé rétt í meðallagi. Miðað við mælikvarða við stigagjöf hefði kærandi átt að fá þrjú til fjögur stig fyrir þennan matsþátt.
- Kærandi gerir einnig alvarlega athugasemd við stigagjöf kærða fyrir matsþáttinn enskukunnátta. Engar forsendur séu fyrir því að gefa kæranda eitt stig fyrir kunnáttu í ensku. Kærandi segir enga tilraun hafa verið gerða af hálfu kærða til að kanna hæfni hans í ensku. Hann hafi farið í gegnum fimm ára framhaldsnám á ensku í Danmörku. Til viðbótar hafi hann stundað dagleg vinnutengd erlend samskipti í áratugi á talaðri og skrifaðri ensku. Kærandi hafi skipulagt og farið fyrir viðskiptasendinefndum um allan heim, kynnt land og þjóð og íslensk viðskipti í flestum heimsálfum á ensku. Hann hafi gegnt stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá alþjóðastofnunum. Í ljósi þessa hljóti kærandi að hafa talsvert meira til brunns að bera en almenna enskukunnáttu. Miðað við mælikvarða kærða við stigagjöf fyrir þennan matsþátt hefði kærandi átt að fá þrjú til fjögur stig.
- Kærandi telur að við hæfnisþættina leiðtogahæfileikar og frumkvæði hafi kærði byggt stigagjöf alfarið á huglægu mati. Báðum umsækjendum voru gefin þrjú stig fyrir fyrri matsþáttinn en kærandi segist hafa fengið fjögur stig fyrir seinni matsþáttinn. Ekkert liggi fyrir um á hvaða forsendum stigagjöfin hafi verið byggð.
- Kærandi gerir athugasemd við stigagjöf fyrir hæfnisþáttinn samskiptahæfni, sem kærandi fékk þrjú stig fyrir. Að mati kæranda virðist matið byggja á viðtölum við valnefndina en ekki á farsælum samskiptum sem kærandi hafi átt við mikinn fjölda fólks í starfi sínu áratugum saman. Telur kærandi það ágalla að nefndin sé skipuð fólki af sama kyni, konum. Það sé þekkt staðreynd að skipan slíkrar nefndar af sama kyni geti reynst hinu kyninu andsnúið. Telur hann það ófaglegt að fela valnefnd sem eingöngu er skipuð konum að meta af stuttum viðtölum þennan matsþátt.
- Kærandi bendir á að kærði hafi gefið kæranda þrjú stig fyrir hæfnisþáttinn skipulagshæfni en kærandi telur að hann hefði átt að fá fjögur stig eins og sú sem var ráðin. Ekki sé tekið tillit til staðreynda sem komi fram í gögnum og viðtölum og styðji skipulagshæfni kæranda. Greinilega sé ekki metin til verðleika sú staðreynd að kærandi hafi sinnt fjölmörgum flóknum stjórnunar- og verkefnastjórastörfum síðustu áratugi, störfum þar sem mikið reyni á skipulags- og samskiptahæfni, m.a. vegna samskipta við fólk frá mismunandi menningarheimum.
- Kærandi tekur fram að hann hafi ekki fengið aðra tilfinningu frá kynningarfundi í síðara viðtali en að honum hefði tekist mjög vel upp með efnisöflun, greiningu og framsetningu. Fékk hann þrjú og hálft stig fyrir þennan þátt. Að mati kæranda virðist þessi stigagjöf enn og aftur byggð á ógagnsæju og að mestu huglægu mati kærða. Heldur kærandi því fram að hann hafi verið látinn gjalda fyrir kynferði sitt og aldur.
- Kærandi telur að engin tilraun hafi verið gerð til þess að sýna fram á að verkefnið sem óskað var eftir að umsækjendur leystu væri talsvert lakara hjá kæranda en hjá þeim umsækjanda sem fékk starfið. Kærandi fékk 2,97 stig fyrir þennan þátt en konan sem var ráðin 3,57. Kærandi telur mega álykta sem svo að kærði hafi „soðið saman“ stigagjöf eftir á í þessum matsþætti til að fleyta konunni einu stigi fram fyrir kæranda í heildarstigamati sínu. Kæranda sé því enn og aftur mismunað vegna kynferðis sem leiði til færri stiga fyrir þekkingu og hæfni en hann hefði átt að fá.
- Kærandi bendir á að í áliti umboðsmanns Alþingis nr. F79/2018 hafi umboðsmaður varað við notkun matsblaða. Gæta þyrfti málefnalegra sjónarmiða í matinu og að matsblað eitt og sér gæti ekki verið einhlítur mælikvarði, heldur þyrfti að bera saman raunverulega hæfni umsækjenda og velja þann hæfasta út frá því.
- Kærandi tekur fram að þegar horft sé til kynjasamsetningar á mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar komi í ljós að þar vinna þrír karlmenn og 21 kona. Í ljósi þessa hefði verið tilvalið fyrir kærða að fara eftir lögum nr. 150/2020 við ráðningu í starfið þar sem mælt er fyrir um að atvinnurekendur skuli vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kvenna og karla innan síns fyrirtækis eða stofnunar.
- Kærandi telur að minnispunktar kærða úr starfsviðtölum gefi ekki rétta mynd af viðtalinu sem hann fór í. Minnispunktarnir hafi verið ritaðir eins og kærandi hafi verið mótfallinn því að umsagna yrði leitað og neitað að gefa upp nöfn umsagnaraðila, sem sé fjarri öllu lagi og gefi mjög neikvæða mynd af kæranda, algerlega að ósekju. Kærandi telur að minnispunktarnir hafi verið ritaðir sem fjandsamlegir, auðmýkjandi og móðgandi gagnvart sér. Kærði hafi engan veginn gætt með fullnægjandi hætti að skráningarskyldu við undirbúning og töku ákvörðunar um ráðningu í starfið, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, IV. kafla laga nr. 77/2014 og meginreglur stjórnsýsluréttar, eins og þeim er beitt í ágreiningsmálum um hæfnismat við stöðuveitingar. Að mati kæranda séu minnispunktarnir til vitnis um handvömm og algera lausung við framkvæmd starfsviðtala, sem reyndust síðan vera grundvöllur fyrir ómálefnalegri niðurstöðu í hæfnismati, sem flest bendi til að hafi verið fyrir fram ákveðin konunni í hag. Kærandi telur að þetta skýri einnig hvernig einkunnir í matsblaðinu voru fundnar og þá þannig að sú sem ráðin var kæmi betur út.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði bendir á að ráðning í opinbert starf sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri kærða því að fara að þeim lögum við meðferð slíkra mála. Í því sambandi vísar kærði til þess að hin kærða ákvörðun sé matskennd stjórnvaldsákvörðun þar sem ekki eru að öllu leyti ákvörðuð með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum þau skilyrði sem ákvörðun kærða skal byggjast á. Af því leiði að við töku slíkra ákvarðana sé kærða að einhverju leyti heimilt að meta hvert efni ákvörðunar skuli vera, að svo miklu leyti sem það brýtur ekki gegn öðrum lagaákvæðum eða skráðum/óskráðum reglum, þar á meðal jafnræðisreglunni. Samkvæmt því hafi kærði nokkurt svigrúm til að meta hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar ráðningu og hvaða umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum.
- Tekur kærði fram að það sé mat hans að þeir þættir sem horft var til við ráðningu í starfið hafi verið málefnalegir og að þau meginsjónarmið sem unnið var með hafi miðað að því að finna hæfasta umsækjandann.
- Kærði tekur fram að 26. febrúar 2021 hafi á vefsíðu kærða og í Fréttablaðinu verið auglýst laust starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar. Í auglýsingunni hafi verið teknar fram helstu menntunar- og hæfniskröfur fyrir starfið. Efni auglýsingarinnar hafi tekið mið af því að uppfylla markmið auglýsingaskyldunnar þannig að jafnræði og réttaröryggi umsækjenda væri tryggt. Samhliða gerð auglýsingarinnar var hannaður matsrammi og vægi hæfnisviðmiða haft til hliðsjónar, auk þess sem tekið var tillit til þess að eðli starfsins væri umfangsmikið og að um tímabundna ráðningu til eins árs væri að ræða. Eingöngu málefnaleg sjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi í ráðningarferlinu, þ.e. sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og persónulega eiginleika sem hafi haft þýðingu fyrir frammistöðu í starfinu.
- Tekur kærði fram að við gerð matsramma og undirbúning á þeim verkefnum sem heyra undir stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hafi verið ljóst að mikilvægt væri að tryggja að sá aðili sem gegndi starfinu hefði góða þekkingu sem sneri að greiningarhæfni og framsetningu gagna þar sem stór hluti starfsins væri að setja fram gögn og tölulegar upplýsingar varðandi atvinnuleysi, kostnaðarmat og tölfræði varðandi einstaklinga sem njóta fjárhagsaðstoðar. Hafi þessar fyrir fram ákveðnu hæfniskröfur því fengið meira vægi en aðrar hæfniskröfur í heildarmatinu. Hið sama hafi átt við um kröfur um samskiptahæfni þar sem stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar tilheyri tveimur sviðum borgarinnar og þurfi þar af leiðandi að vera í samskiptum við fjölda fólks og samræma ólíkar nálganir og áherslur.
- Er það mat kærða að framangreind málefnaleg sjónarmið hafi öll verið til þess fallin að varpa ljósi á raunverulega hæfni umsækjenda til að gegna starfinu. Þá hafi hæfniskröfurnar verið tilgreindar í auglýsingunni og hafi ráðningaraðilar gefið hverjum þætti viðeigandi vægi út frá eðli og kröfum starfsins.
- Kærði bendir á að umsækjendur hafi verið 32 talsins og hafi sjö þeirra verið boðaðir í fyrra viðtal m.t.t. hæfniskrafna sem fram komu í auglýsingu. Eftir yfirferð á viðtalsgögnum hafi verið ákveðið að boða þrjá umsækjendur í síðara viðtal, tvo karlmenn og eina konu, sem skoruðu hæst í fyrra viðtalinu. Var það samdóma álit þeirra sem komu að ráðningarferlinu að sú sem var ráðin uppfyllti best þær hæfniskröfur sem gerðar voru til starfs stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar og væri því hæfust umsækjenda um starfið.
- Tekur kærði fram að hverjum matsþætti hafi verið gefið tiltekið vægi en að við mat á hæfni hafi verið notast við gögn sem lágu til grundvallar við úrvinnslu ráðningarinnar, þ.e. ferilskrár, kynningarbréf og viðtöl.
- Kærði tekur fram að út frá eðli og kröfum starfsins sé viðskiptafræði og hagfræði sú menntun sem skori hæst. Hafi þeir umsækjendur sem höfðu slíka háskólagráðu fengið fjögur stig og þeir sem höfðu menntun í félagsvísindum, félagsráðgjöf, mannauðsstjórnun, markaðsfræði og verkfræði þrjú stig. Kærandi og sá aðili sem var ráðinn hafi fengið jafn mörg stig fyrir þennan hæfnisþátt. Út af athugasemd kæranda um að menntun á sviði mann- og félagsvísinda eigi að vera hærra metin en samgönguverkfræði bendir kærði á að stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar þurfi að koma að greiningum og úrvinnslu gagna og þurfi að geta sett fram gögn á aðgengilegan og einfaldan hátt. Lögð var áhersla á þau sjónarmið þegar leitað var að stjórnanda í umrætt starf.
- Kærði tekur fram að hvorki í ferilskrá né kynningarbréfi kæranda komi fram upplýsingar um reynslu hans á sviði atvinnu- og virknimiðlunar. Aðspurður í viðtali um þekkingu á atvinnu- og virknimiðlun hafi kærandi svarað því til að hann hefði litla þekkingu á því sviði en talað um að leita nýrra leiða og reynslu af því að hafa unnið með sjálfboðaliðum. Sé það mat kærða að svar kæranda hafi ekki sýnt fram á umfangsmikla reynslu af atvinnu- og virknimiðlun. Þá vekur kærði athygli á því að enginn hafi fengið fjögur stig fyrir þennan hæfnisþátt.
- Kærði tekur fram að í hæfnisþættinum reynsla af verkefnastjórnun (breytingastjórnun) hafi bæði sú sem var ráðin og kærandi fengið þrjú stig. Er það mat kærða að til að fá fjögur stig fyrir þennan hæfnisþátt hafi umsækjendur þurft að hafa meira en fjögurra ára reynslu af verkefnastjórnun og breytingastjórnun og að sá hluti starfsins hafi verið stór hluti starfs til lengri tíma. Að virtum umsóknargögnum og upplýsingum í viðtölum var það niðurstaðan að kærandi fengi þrjú stig fyrir þennan hæfnisþátt þar sem verkefnastjórnun hefði ekki verið stór hluti starfs hans í lengri tíma. Bendir kærði á að þau dæmi sem kærandi nefndi um breytingaverkefni hafi verið unnin þegar hann gegndi starfi sem æðsti stjórnandi, sem að mestu felst í almennu stjórnandahlutverki sem kærandi hafi fengið fjögur stig fyrir.
- Að mati kærða var viðunandi stigagjöf fyrir matsþáttinn leiðtogahæfileikar til beggja aðila þrjú stig. Er það mat kærða að til að fá fjögur stig fyrir þennan hæfnisþátt þurfi umsækjendur að gefa rökstudd og sannfærandi dæmi þar sem reynt hefur á leiðtogahæfileika í fyrri störfum. Bendir kærði á að slík dæmi gefi besta forspárgildið um framtíðarhegðun í starfi. Það dæmi sem kærandi hafi gefið hafi verið gott en fulleinfalt.
- Kærði tekur fram að stigagjöf varðandi hæfnisþáttinn frumkvæði sé byggð á mati á dæmum um frumkvæði í fyrri umferð viðtala. Hafi kærandi fengið fjögur stig enda nefnt fullnægjandi dæmi.
- Varðandi hæfnisþáttinn skipulagshæfni telur kærði að kærandi hafi svarað með almennum hætti sem hafi ekki gefið næga innsýn í aðferðir hans til að koma á og viðhalda skipulagi. Fékk kærandi því þrjú stig. Hins vegar hafi sú sem var ráðin sýnt fram á aðferðir/leiðir sem notaðar eru til að koma á og viðhalda skipulagi.
- Kærði tekur fram að til að meta hæfnisþáttinn sem hann ýmist nefnir samskiptahæfni eða samskiptafærni í skýringum sínum sé horft til frammistöðu umsækjenda í tveimur viðtölum þar sem samræmdar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur og þeir m.a. beðnir um að nefna dæmi. Var það mat þeirra sem sátu fyrri viðtölin að kærandi hefði svarað spurningunum jafnframt því að lýsa yfir óánægju með þær. Með því hafi hann sýnt fram á ákveðinn skort á hæfni til að lesa í aðstæður. Aðspurður í síðara viðtali um hvernig hann hafi brugðist við andstöðu eða mótstöðu annarra nefndi kærandi eitt tilvik og útskýrði sín viðbrögð. Kærði mat svar kæranda gott dæmi og fékk hann því þrjú stig.
- Kærði tekur fram að til að meta hæfni í íslenskukunnáttu hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum og kynningu sem umsækjendur lögðu fram auk frammistöðu í viðtölum. Var það mat kærða að kærandi fengi tvö stig fyrir þennan hæfnisþátt. Bendir kærði á að kærandi hafi tekið fram í viðtali að hann hefði skrifað minnisblöð og gert grein fyrir þeim. Jafnframt hefði hann tekið fram að það væri ekki það skemmtilegasta sem hann gerði. Hvorki innsend gögn né viðtöl tilgreindu að stór hluti af störfum kæranda hefði falist í skýrsluskrifum.
- Varðandi hæfnisþáttinn hæfni í ensku í ræðu og riti vísar kærði til þess að í gögnum kæranda hafi komið fram að kærandi tali og riti ensku og dönsku. Aðspurður um enskukunnáttu í viðtali hafi kærandi svarað því til að hún væri þokkaleg. Út frá fyrirliggjandi gögnum sem lágu til grundvallar var það mat kærða að eitt stig fyrir þessa hæfniskröfu væri fullnægjandi. Kærði áréttar að í greinargerð kæranda til kærunefndar varðandi þennan matsþátt komi fram upplýsingar sem hvorki sé að finna í ferilskrá, kynningarbréfi né viðtölum.
- Kærði tekur fram að ákveðið hafi verið að láta þá umsækjendur sem skoruðu hæst úr fyrra viðtali leysa verkefni. Raunhæf verkefni hafi hátt forspárgildi um hæfni einstaklinga og var ákveðið að kanna þekkingu á greiningum, gagnavinnslu og framsetningu gagna. Fengu umsækjendur verkefnið sent í tölvupósti, gátu valið hvenær verkefnið var sent til þeirra og höfðu sólarhring til að leysa það. Voru umsækjendur beðnir að skila úrlausn innan sólarhrings og að persónugreinanleg gögn væru ekki sett á kynninguna. Til að tryggja hlutlaust mat voru úrlausnirnar sendar nafnlaust á aðila úr stýrihóp atvinnu- og virknimiðlunar sem lögðu sjálfstætt mat á þær. Skrifstofustjóri skrifstofu ráðningar og mönnunar hjá mannauðs- og starfumhverfissviði borgarinnar tók í framhaldinu saman niðurstöðurnar.
- Kærði vísar alfarið á bug þeirri staðhæfingu kæranda að kærði hafi soðið saman stigagjöf eftir á. Því til staðfestingar vísar kærði til fylgigagna þar sem fram kemur heildarmat á verkefnum frá þeim umsækjendum sem leystu verkefnið.
- Kærði tekur fram að almennt í ráðningarmálum hjá kærða sé leitast við að afla umsagna frá umsagnaraðila þess umsækjanda sem fái flest stig í ráðningarferlinu. Hlutverk umsagnaraðila sé að staðfesta þá hæfni sem hefur komið fram í viðtölum. Þar sem kærandi hafi ekki verið hæstur úr heildstæðu mati hjá ráðningaraðila hafi ekki verið talin þörf á að leita umsagna vegna hans.
- Kærði tekur fram að líkt og í öðrum ráðningarferlum voru skráðar niður upplýsingar sem komu fram í viðtölum við kæranda á svokölluðum „viðtalsblöðum“ til að uppfylla skráningarskyldu, sbr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
- Kærði tekur fram að ekki hafi verið skipað í valnefnd við ráðninguna heldur hafi handhafar ráðningarvaldsins setið viðtölin ásamt öðrum. Þá áréttar kærði að samkvæmt 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal framkvæmdastjóri annast ráðningu annarra starfsmanna en starfsmanna í æðstu stjórnendastöðum enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum. Því hafi sviðsstjórum velferðarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs borið að annast ráðninguna þar sem atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar er samstarfsverkefni þessara sviða til eins árs. Vill svo til að konur stýra báðum þessum sviðum borgarinnar.
- Auk sviðsstjóranna komu að ráðningarferlinu mannauðsstjóri velferðarsviðs og skrifstofustjóri skrifstofu ráðningar og mönnunar á mannauðs- og starfsumhverfissviði. Þessir aðilar sátu viðtölin í ljósi stöðu sinnar, auk þess sem þeir hafa mestu innsýn í og þekkingu á atvinnu- og virknimálum borgarinnar. Með þessu fyrirkomulagi, sem er í samræmi við venjubundna framkvæmd hjá Reykjavíkurborg, hafi verið tryggt að ráðningaraðilar byggju yfir sérþekkingu á ráðningarmálum annars vegar og nauðsynlegri fagþekkingu hins vegar. Þetta leiddi til þess að konur komu að ráðningarferlinu, auk eins karlmanns sem kom að tilteknum hluta málsins. Kærði bendir á að stór þáttur í hlutverki mannauðsstjóra velferðarsviðs og skrifstofustjóra skrifstofu ráðningar og mönnunar, sem sitji almennt viðtöl sem þessi, sé að gæta að hlutleysi og jafnræði milli umsækjenda auk vinnusálfræðilegra þátta. Kærði tekur fram að það hafi eingöngu verið tilviljun sem réði því að konur hafi verið í meirihluta í ráðningarferlinu. Kærði hafnar alfarið þeirri staðhæfingu kæranda að valnefndir skipaðar einungis einu kyni séu til þess fallnar að hygla sama kyni yfir annað kyn.
- Tekur kærði fram að sá aðili sem ráðinn var hafi uppfyllt best þá hæfnisþætti sem kærði gaf mest vægi í viðkomandi ráðningu, þ.e. greiningarhæfni (þekking á greiningum og áætlanagerð 8% og verkefni sem reynir á gagnavinnslu og framsetningu gagna 12%) og hæfni í mannlegum samskiptum (samskiptahæfni 5% og kynning í síðara viðtali 8%). Hafði sá aðili sem ráðinn var yfirburði í úrlausn verkefnisins ásamt því að framkoma og viðmót hans var til fyrirmyndar í viðtölum en það fullvissaði ráðningaraðila um getu hans til að gegna starfinu.
- Með vísan til alls framangreinds hafnar kærði því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
NIÐURSTAÐA
- Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu konu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hjá Reykjavíkurborg.
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
- Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
- Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
- Í auglýsingunni um starfið kom fram að helstu verkefni og ábyrgð hafi verið þarfagreining og gerð áætlana vegna atvinnu- og virknimiðlunar hjá kærða, ábyrgð á sköpun fjölbreyttra stuðnings- og virkniúrræða til að tryggja atvinnutengda endurhæfingu, heildarsýn yfir vinnumarkaðsaðgerðir á hverjum tíma, m.a. út frá áætlunum stjórnvalda, að tryggja tölfræðilega og fjárhagslega greiningu á verkefnum á vegum atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar og stýring samráðsvettvangs atvinnu- og miðlunar Reykjavíkurborgar.
- Gerð var krafa um háskólagráðu auk framhaldsmenntunar sem nýtist í starfi. Jafnframt varð gerð krafa um leiðtogahæfni og stjórnunarreynslu, þekkingu og reynslu af sviði atvinnu- og virknimiðlunar og af verkefnastjórnun, greiningum og áætlanagerð. Tiltekið var að þekking og reynsla af breytingastjórnun væri kostur sem og reynsla af opinberri stjórnsýslu. Þá var krafist frumkvæðis og metnaðar til að ná árangri í starfi, skipulagshæfni og sjálfstæðra vinnubragða, góðrar samskiptahæfni, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku, auk hreins sakavottorðs samkvæmt lögum sem og reglum Reykjavíkurborgar.
- Í málinu liggur fyrir sú afstaða kærða að mikilvægt væri að tryggja að sá aðili sem gegndi starfi stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hefði góða þekkingu á greiningarhæfni og framsetningu gagna þar sem stór hluti starfsins fælist í því að setja fram gögn og tölulegar upplýsingar varðandi atvinnuleysi, kostnaðarmat og tölfræði varðandi einstaklinga sem njóta fjárhagsaðstoðar. Þá var lögð áhersla á samskiptahæfni í ljósi þess að stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar tilheyrir tveimur sviðum kærða og því í samskiptum við fjölda fólks, auk þess að þurfa að samræma ólíkar nálganir og áherslur. Fengu þessar hæfniskröfur því meira vægi en aðrar hæfniskröfur í heildarmatinu.
- Að mati kærða stóðu þeir sjö umsækjendur sem boðaðir voru í fyrra viðtal framar öðrum umsækjendum miðað við þær hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu og þau verkefni sem stjórnandi atvinnu- og virknimiðlunar kæmi til með að annast. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessar hæfniskröfur í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
- Eftir yfirferð á viðtalsgögnum var kæranda ásamt tveimur öðrum umsækjendum, sem voru hæstir í samanlögðu mati á umsóknum og fyrra viðtali, boðið í síðara viðtal. Fyrir síðara viðtal var verkefni lagt fyrir sem umsækjendur fengu sent í tölvupósti og fengu sólarhring til að leysa. Við skil voru persónugreinanlegar upplýsingar afmáðar og úrlausnirnar merktar með númeri og sendar starfsmönnum í stýrihóp atvinnu- og virknimiðlunar sem mátu verkefnin til stiga. Í síðara viðtali fór svo fram kynning á úrlausn þessara verkefna.
- Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu sem notað var bæði í fyrra og síðara viðtali má ráða að kærandi og sú sem var ráðin hafi að loknu síðara viðtali fengið jafnmörg stig í sumum matsþáttum en mismörg stig í öðrum þáttum sem lágu til grundvallar mati á umsækjendum, þ.m.t. á úrlausn verkefnis og kynningu á því. Verður ekki annað ráðið í þessu tilliti en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak menntunar, starfsreynslu og úrlausn fyrrnefndra verkefna kæranda og þeirrar sem var ráðin í starfið. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvaða menntun og starfsreynsla félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf vegna starfsreynslu er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
- Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara tveggja umsækjenda hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum, þ.m.t. frammistaða í viðtali og úrlausn verkefnis. Á matsblaði sem liggur fyrir í málinu kemur fram að sú sem fékk starfið hafi staðið kæranda framar í síðast greindu matsþáttunum og þeim þáttum sem gáfu mest vægi við ráðninguna, þ.e. greiningarhæfni (þekking á greiningum og áætlanagerð og verkefni sem reynir á gagnavinnslu og framsetningu gagna) og hæfni í mannlegum samskiptum (samskiptahæfni og kynning í síðara viðtali). Byggði kærði mat sitt einkum á framkomu og viðmóti umsækjenda í viðtölum, faglegri þekkingu og frammistöðu að öðru leyti.
- Fyrir liggur að við mat á frammistöðu í viðtölum voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur. Þau sjónarmið sem komu fram í viðtölum fengu þannig vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á menntun, starfsreynslu og öðrum atriðum, eins og samskiptahæfni, frumkvæði og metnaði, og hvernig umsækjendur komu út í viðtölum og þar með hæfni þeirra og afstöðu í víðara samhengi, sem gat haft þýðingu fyrir starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem fékk starfið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtali telst ekki þess eðlis að hann hafi áhrif á þessa niðurstöðu.
- Fyrir liggur að þeir starfsmenn kærða sem komu að ráðningarmálinu hafi að mestu leyti verið konur, auk þess sem þær hafi eingöngu setið viðtöl við umsækjendur. Um hafi verið að ræða sviðsstjóra velferðarsviðs og sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs, mannauðsstjóra velferðarsviðs og skrifstofustjóra skrifstofu ráðningar og mönnunar á mannauðs- og starfsumhverfissviði. Fallast verður á að þessir starfsmenn kærða hafi setið viðtölin í ljósi stöðu sinnar hjá kærða auk innsýnar og þekkingar á atvinnu- og virknimálum kærða. Verður því ekki litið svo á að sjónarmið sem varða kyn hafi haft áhrif á meðferð málsins að þessu leyti.
- Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020.
- Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði hvorki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns né aldurs, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Reykjavíkurborg, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ráðningu í starf stjórnanda atvinnu- og virknimiðlunar.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Anna Tryggvadóttir