Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 307/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 307/2018

Fimmtudaginn 24. janúar 2019

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. ágúst 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. júní 2018, um synjun á umsókn hennar um afskrift á skuld.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. maí 2018, sótti kærandi um afskrift á skuld við Íbúðalánasjóð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. júní 2018, á grundvelli heildstæðs mats þar sem litið var til fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrði og annarra haga kæranda. Með bréfi, dags. 29. júní 2018, fór kærandi fram á endurupptöku ákvörðunar Íbúðalánasjóðs og var þeirri beiðni hafnað með bréfi sjóðsins, dags. 1. ágúst 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 29. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 19. september 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. október 2018 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2018. Athugasemdir bárust frá Íbúðalánasjóði 23. október 2018 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. október 2018. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 13. nóvember 2018 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust frá Íbúðalánasjóði 15. nóvember 2018 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. nóvember 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. nóvember 2018, voru fylgigögn með athugasemdum kæranda frá 13. nóvember send Íbúðalánasjóði. Þann 7. janúar 2019 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði sem bárust 9. janúar sama ár. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2019, voru gögn Íbúðalánasjóðs send kæranda til kynningar. Engin viðbrögð bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að móðir hennar hafi verið skuldari að láni hjá Íbúðalánasjóði en á árinu 2008 hafi kærandi yfirtekið lánið, þá nýorðin X ára gömul. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi kærandi og móðir hennar átt í umtalsverðum fjárhagsörðugleikum og leitað ýmissa úrræða til þess að geta staðið í skilum, meðal annars farið í gegnum svokallaða 110% leið. Kærandi hafi reynt að selja fasteignina á frjálsum markaði en Íbúðalánasjóður hafi ekki samþykkt þau tilboð sem hún hafi aflað í eignina. Þann X 2015 hafi fasteignin verið seld nauðungarsölu og Íbúðalánasjóður keypt hana.

Kærandi vísar til þess að greiðslumat sem hafi verið sent til Íbúðalánasjóðs í hennar nafni hafi ekki verið í samræmi við tekjur hennar á árunum 2007 og 2008. Kærandi hafi ekki komið að gerð greiðslumatsins og kannist ekki við þær forsendur sem þar séu gefnar upp. Engin undirskrift sé á greiðslumatinu en samt sem áður hafi Íbúðalánasjóði verið veitt heimild til að kanna nánar fjárhagsupplýsingar hennar með öflun frekari gagna frá þriðja aðila. Ekki hefði annað þurft en að kanna skattframtöl kæranda til þess að sjá að hún hafi augljóslega ekki haft greiðslugetu til þess að yfirtaka lánið. Þá hafi hún yfirtekið annað lán frá einkahlutafélagi sem hafi skert greiðslugetu hennar enn frekar. Samkvæmt framangreindu geti greiðslumatið ekki haft neina þýðingu í málinu.

Kærandi bendir á að hún hafi búið hjá móður sinni á þessum tíma og verið henni háð um margt og þá sérstaklega húsnæði. Örskömmu eftir X aldur kæranda hafi móðir hennar fengið hana til að yfirtaka lán og gefið út afsal til hennar fyrir fasteigninni. Það sé háttsemi sem falli undir 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nánar tiltekið misneytingu. Það sé með öllu óskiljanlegt að kæranda hafi verið heimiluð yfirtaka lánsins af hálfu Íbúðalánasjóðs miðað við þessar forsendur. Krafa Íbúðalánasjóðs á hendur kæranda hefði aldrei átt að stofnast þar sem hún hafi ekki verið í stakk búin til þess að greiða af láninu þegar það hafi verið tekið. Þá hafi sjóðurinn byggt á greiðslumati sem hafi bæði verið gert á röngum forsendum og ekki komið frá kæranda sjálfri. Í ljósi framangreinds sé ósanngjarnt, í skilningi 36. gr. samningalaga, af hálfu Íbúðalánasjóðs að bera fyrir sig eftirstöðvar kröfunnar. Í 2. mgr. 36. gr. samningalaga segi að við mat á því hvort ósanngjarnt teljist að bera samning fyrir sig skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til. Samningurinn sem hér um ræði sé veðskuldabréf sem móðir kæranda hafi upphaflega tekið. Kærandi hafi því engu ráðið um efni samningsins, samnings sem hún hafi yfirtekið að upplagi móður sinnar, enda verið um margt háð henni líkt og að framan greini. Staða samningsaðila sé því þannig að um sé að ræða stóra fjármálastofnun gegn einstaklingi sem nánast hafi enn verið barn að aldri. Öll atriði sem orki tvímælis beri að virða kæranda í hag.

Kærandi tekur fram að þau atvik er síðar hafi komið til séu meðal annars þau að hún hafi lent í greiðsluerfiðleikum, sem hafi verið einsýnt að myndi gerast, og fasteignin seld nauðungarsölu í X 2015. Það hafi gerst í kjölfar þess að Íbúðalánasjóður hafi meinað henni um frjálsa sölu á fasteigninni. Hin eftirstæða krafa sem Íbúðalánasjóður hafi hafnað að afskrifa hafi gert það að verkum að kærandi eigi í erfiðleikum með að ná fjárhagslegri fótfestu, meðal annars með kaupum á fasteign. Sambýlismaður kæranda hafi fest kaup á fasteign árið 2015 og upp hafi komið vandamál varðandi greiðslumat hans sem rekja megi til þeirrar kröfu sem sjóðurinn telji sig eiga á hendur kæranda. Við það tilefni hafi kærandi haft samband við fulltrúa Íbúðalánasjóðs og verið fullvissuð um að þessi eftirstöðvaskuld yrði ekki innheimt og að hún yrði afskrifuð að þremur árum liðnum frá nauðungarsölunni. Lánveitandi sambýlismanns hennar hafi fengið það staðfest frá Íbúðalánasjóði og sú staðfesting sé í samræmi við fjölda samtala sem kærandi hafi átt við starfsmenn sjóðsins, þ.e. að eftir þrjú ár frá nauðungarsölunni yrði skuldin afskrifuð. Að mati kæranda hafi hún því í höndunum yfirlýsingu, án fyrirvara, sem hafi gefið henni réttmætar væntingar um að skuldin yrði endanlega felld niður og ekki innheimt við það tímamark. Auk framangreinds hafi kærandi aldrei fengið í hendurnar uppgjör vegna nauðungarsölu á eigninni þrátt fyrir beina skyldu Íbúðalánasjóðs þar um, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 359/2010, með síðari breytingum. Kærandi hafi því ekki með neinu móti gert sér grein fyrir stöðu sinni vegna hinnar meintu eftirstæðu kröfu í kjölfar nauðungarsölunnar. Í ljósi alls framangreinds og með vísan til 36. gr. samningalaga sé ósanngjarnt af hálfu Íbúðalánasjóðs að bera hina meintu eftirstöðvaskuld fyrir sig.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Íbúðalánasjóðs er vísað til þess að hvergi í greinargerðinni sé rakið hvernig heildstætt mat á högum skuldara fari fram þegar tekin sé ákvörðun um afskrift. Hinar umdeildu eftirstöðvar hefðu aldrei átt að koma til þar sem kærandi hafi aldrei verið skuldbundin af láni sjóðsins. Ljóst sé af öllum atvikum við yfirtöku lánsins að kærandi hefði aldrei getað staðið í skilum með lánið. Kærandi áréttar að vegna aðstæðna við yfirtöku lánsins hjá Íbúðalánasjóði geti hún ekki, frá upphafi, verið skuldbundin til að greiða lánið eða þær eftirstöðvar sem það sé talið bera í dag. Kærandi hafi ítrekað sótt um niðurfellingu eftirstöðva lánsins, einnig á meðan hún hafi verið í námi. Hvorki á þeim tíma né í upphafi lánveitingar virðist hafa farið fram heildstæð skoðun á högum kæranda af hálfu Íbúðalánasjóðs.

Kærandi hafnar því að hún og móðir hennar skuli leysa ágreining um skuldbindingargildi samningsins sín á milli. Vegna atvika við samningsgerðina sé ljóst að kærandi hafi aldrei orðið skuldbundin af samningnum. Þær skilmálabreytingar sem síðar hafi komið til, sem séu þó eingöngu til þess fallnar að varpa betra ljósi á þá staðreynd að kærandi hafði enga burði til þess að standa í skilum með umrætt lán, breyti engu um ógildi samningsins gagnvart henni. Kærandi hafi verið undir þrýstingi um að yfirtaka lánið frá móður sinni. Að sama skapi uppfylli yfirtaka lánsins öll skilyrði sem 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 fjalli um, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þetta atriði skipti öllu máli við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni. Krafan hefði aldrei átt að stofnast og því ætti engin deila að standa um hvort skuli afskrifa eftirstöðvar hennar. Kærandi mótmæli því sérstaklega að Íbúðalánasjóður hefði ekki getað ætlað annað en að greiðslumat hafi stafað frá kæranda. Sjóðnum hefði að minnsta kosti borið að athuga hvort upplýsingar í téðu greiðslumati væru réttar en þær hafi augljóslega verið rangar, líkt og skattframtöl hennar frá þessum tíma sýni. Ákvæði samningalaga eigi við um alla samninga. Í nefndum ákvæðum laganna sé að finna almenn sanngirnissjónarmið en ákvæði um afskriftir krafna beri að skýra til samræmis við þau sjónarmið, að minnsta kosti á þá leið að séu neytanda hagfelld, sbr. 2. mgr. 36. gr. c samningalaga. Af röksemdum Íbúðalánasjóðs megi ráða að það hafi verið ljóst frá upphafi að kærandi gæti með engu móti staðið í skilum með umrætt lán. Það sé í samræmi við þær forsendur sem fram komi í kæru til úrskurðarnefndar og í samræmi við greiðslugetu kæranda við yfirtöku lánsins og ráða mátti af skattframtölum hennar.

Kærandi bendir á að hún hafi ekki haft neitt með leigusamninga að gera þar sem móðir hennar hafi alfarið séð um gerð þeirra og tekið við leigugreiðslum. Því sé fráleitt að halda því fram að kærandi hafi grætt á því að leigja út íbúðina á meðan lánin hafi fallið í vanskil. Jafnframt mótmæli kærandi því að hún hafi sjálf skapað þær aðstæður sem hafi valdið því að hin umdeilda krafa stofnaðist. Kærandi hafi rétt verið orðin fjárráða á þeim tíma og strax lent í vanskilum þar sem engin greiðslugeta hafi verið til staðar. Kærandi hafi tvívegis reynt að selja fasteignina á frjálsum markaði en Íbúðalánasjóður neitað því og svo farið að fasteignin hafi verið seld nauðungarsölu. Kærandi hafi ekki fengið í hendur uppgjör frá sjóðnum vegna eftirstandandi kröfu og hafi einungis verið ljóst síðar að hún væri á vanskilaskrá vegna hennar, eða þegar hún hafi reynt að fá lánafyrirgreiðslu. Hefði henni verið hafnað í upphafi um yfirtöku lánsins, líkt og eðlilegt hefði verið í ljósi greiðslugetu, væru aðstæður hennar sannarlega ekki með þeim hætti sem þær séu í dag. Ekki sé að sjá að Íbúðalánasjóður hafi nokkra hagsmuni af því að halda kröfunni fram gagnvart kæranda, þá sérstaklega í ljósi þess hvernig hún hafi komið til í upphafi. Krafan hafi þegar valdið kæranda tilfinnanlegum erfiðleikum og nú þegar hún hafi komið undir sig fótunum í lífinu fái hún hvergi lánafyrirgreiðslu og einföld atriði eins og hækkun á kreditkortaheimild hafi reynst henni torsótt.

Í síðari athugasemdum kæranda er meðal annars bent á að með breytingu á reglugerð nr. 359/2010 hafi verið styttur sá tími sem hafi þurft að líða frá sölu fasteignar, úr fimm árum í þrjú ár. Í eldri reglugerð nr. 119/2003 hafi verið viðbótarskilyrði, auk tímamarksins, fyrir afskrift kröfu að skuldari hefði ekki fjárhagsgetu til að greiða skuldina vegna ófyrirséðra og óviðráðanlegra atvika. Það skilyrði sé ekki í gildandi reglugerð en þó virðist sem Íbúðalánasjóður notist við sambærilega aðferð við mat sitt og vísi þar til reglna stjórnar sjóðsins, sbr. kafla 11.1. Miðað við orðalag ákvæða laga nr. 44/1998 og áðurnefndrar reglugerðar sé vandséð að heimild sé fyrir Íbúðalánasjóð að setja slík viðbótarskilyrði. Vísast þar til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 332/2017 þar sem hafi verið talið að framangreint ákvæði í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs ætti sér ekki stoð í lögum. Hin kærða ákvörðun eigi svo sannarlega undir valdsvið nefndarinnar og sjónarmiðin sem kæran byggi á eigi meðal annars við um lántöku kæranda frá upphafi. Það skipti sannarlega máli þegar horft sé til þess hvort ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé réttmæt. Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín og með vísan til þeirra og þess sem að framan greini beri að fallast á að hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs verði felld úr gildi. Í ljósi þess að Íbúðalánasjóður byggi ákvörðun sína á reglum sem ekki hafa verið taldar eiga sér lagastoð, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 332/2017, krefst kærandi þess jafnframt að henni verði úrskurðaður málskostnaður eftir mati nefndarinnar. Kærandi hafi haft verulegan kostnað af því að halda fram hagsmunum sínum í málinu sem Íbúðalánasjóður hafi mótmælt á ólögvörðum grundvelli.

III.  Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að málsmeðferð sjóðsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, reglugerð nr. 359/2010 og reglur stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleika. Að mati Íbúðalánasjóðs hafi leiðbeiningarskyldu verið sinnt við afgreiðslu málsins og það rannsakað eftir því kostur hafi verið áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Greiðsluerfiðleikanefnd hafi tekið ákvörðun í málinu á grundvelli mats á fjárhagslegum aðstæðum kæranda til lengri tíma, sbr. 3. og 4. tölul. í kafla 11.1 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleika.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 sé stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt, þegar þrjú ár séu liðin frá sölu fasteignar skuldara, að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Við afgreiðslu á slíkum umsóknum fari fram heildstætt mat á högum skuldara og velti ákvörðun á því hvort efni standi til að afskrifa skuldina á grundvelli niðurstöðu þess mats og málefnalegra sjónarmiða. Skuldir eigi jafnan aðeins að vera afskrifaðar ef skuldarar hafi ekki fjárhagsgetu til að greiða skuldina. Skuldir séu ekki afskrifaðar hjá einstaklingum sem ætla megi að geti endurgreitt hluta skuldarinnar, að teknu tilliti til eigna og/eða tekna. Greiðslugeta skuldara til að greiða skuldina sé metin með framkvæmd greiðsluerfiðleikamats en einnig sé litið til framfærslubyrðar og aðstæðna skuldara. Með hliðsjón af heildstæðu mati á fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðum, framfærslubyrði og högum kæranda hafi það verið niðurstaða Íbúðalánasjóðs að ekki stæðu efni til að afskrifa skuld hennar við sjóðinn. Í kæru sé því hvergi haldið fram að kærandi uppfylli skilyrði samkvæmt reglum um meðferð greiðsluerfiðleika til þess að fá skuld sína afskrifaða. Þar sé eingöngu að finna lýsingu á atvikum sem kærandi haldi fram að hafi verið fyrir hendi við yfirtöku lánsins og að þær aðstæður eigi að leiða til þess að ákvörðunin um synjun verði felld úr gildi. Ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé hins vegar reist á heildarmati á högum kæranda þegar sótt sé um niðurfellingu en ekki miðað við það tímamark þegar hún hafi yfirtekið lán hjá sjóðnum. Greiðslumatið sem kærandi vísi til hafi verið fyllt út af henni sjálfri, eða í það minnsta með hennar samþykki, og hún ábyrgst að upplýsingar sem þar kæmu fram væru réttar. Til þess að fylla út greiðslumat vegna umsóknarinnar og senda það hafi kærandi þurft að nota sinn persónulega Íslykil.

Íbúðalánasjóður bendir á að kærandi og móðir hennar verði að leysa sín á milli ágreining er varðar 31. gr. samningalaga nr. 7/1936. Sjóðurinn geti ekki látið hann sig varða eins og atvikum sé háttað. Ekki sé hægt að fallast á að aðstæður kæranda hafi fallið undir lýsingu ákvæðis 31. gr. samningalaga. Kærandi hafi sannarlega verið lögráða og Íbúðalánasjóður ekki haft neitt tilefni til að ætla annað en að hennar eigin vilji stæði til þess að taka lánin yfir. Kærandi hafi sjálf ritað undir skilmálabreytingu þar sem fram komi að hún gerist skuldari að láninu hjá sjóðnum. Auk þess hafi hún sjálf ritað undir allt sem viðkomi skilmálabreytingunni vegna greiðsluerfiðleikaúrræða og húsaleigusamninga um fasteignina. Það sé því erfitt að meta aðstæður með þeim hætti að kærandi hafi ekki vitað eða engan hug haft á því að undirgangast skuldbindingar vegna fasteignarinnar. Íbúðalánasjóður mótmæli því harðlega að ósanngjarnt sé af sjóðnum að bera fyrir sig eftirstöðvar kröfunnar samkvæmt samningi aðila, sbr. 2. mgr. 36. gr. samningalaga. Sú málsástæða geti engu máli skipt við úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, enda lúti kæran að því hvort ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja kæranda um niðurfellingu skuldar hennar við sjóðinn haldi gildi sínu. Ákvæði samningalaga séu almenn gagnvart sérákvæðum laga um húsnæðismál og því gangi þau síðarnefndu framar. Kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir vegna yfirtöku sinnar á láninu fyrr en nú. Athugasemdirnar séu nú settar fram til að rökstyðja niðurfellingu á kröfu sem hafi að miklu leyti orðið til í kjölfar greiðslufrestana sem kærandi hafi sótt um og fengið. Á sama tíma hafi kærandi fengið arð af eigninni vegna útleigu hennar, án þess að fjárhagslegar aðstæður hennar séu með þeim hætti að það hafi verið forsvaranlegt.

Hvað varðar uppgjör vegna nauðungarsölunnar tekur Íbúðalánasjóður fram að á þessum tíma hafi gengið illa að fá verðmat samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, enda hafi fasteignamarkaðurinn tekið við sér og nauðungarsalan hafi farið fram í upphafi sumars. Til þess að getað reiknað kröfuna til bráðabirgða hafi verðmæti fasteignarinnar því verið áætlað af sérfræðingum Íbúðalánasjóðs að fjárhæð 26.670.000 kr. Krafa vegna glataðs veðs hafi verið stofnuð út frá því mati, þ.e. fjárhæð þess hafi verið dregin frá heildarkröfu Íbúðalánasjóðs við nauðungarsölu á fasteign kæranda, auk sölulauna í ríkissjóð og lögveðskrafna. Niðurstaða þess útreiknings hafi verið 9.307.609 kr. og í X 2015 hafi Íbúðalánasjóður selt fasteignina fyrir 23.400.000 kr. Kærandi hafi því notið þess að niðurstaða bráðabirgðamats hafi verið rúmum þremur milljónum króna hærri heldur en söluverð fasteignarinnar á sama ári, sem endurspegli þá markaðsverð eignarinnar í skilningi 57. gr. nauðungarsölulaga. Það sé rétt hjá kæranda að kröfur sem hafi glatað veðtryggingu við nauðungarsölu séu ekki innheimtar. Hins vegar sé það ekki svo að slíkar kröfur séu skilyrðislaust afskrifaðar að þremur árum liðnum frá nauðungarsölu. Um sé að ræða heimild til að samþykkja niðurfellingu þessara krafna og slíkar umsóknir sæti mati, líkt og áður hafi verið lýst, og séu lagðar fyrir greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs. Krafan verði því ekki felld niður nema aðstæður umsækjanda réttlæti það miðað við greiðsluerfiðleikamat og hagir kæranda hafi verið metnir þannig að ekki væri forsvaranlegt að fella niður kröfu á hendur henni. Í ljósi þess sem segi í 1. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál og 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 sé með öllu óskiljanlegt að ætla að slíkar niðurfelldar kröfur séu afskrifaðar án nokkurs mats. Þá sé ekki heldur hægt að fallast á að tölvupóstur frá starfsmanni Íbúðalánasjóðs, sem vísað sé til í kæru, feli í sér neitt slíkt loforð, enda geti starfsmaður sjóðsins ekki gefið slíkt loforð svo bindandi sé. Þar segi aðeins að krafan verði ekki innheimt, sbr. beina tilvísun í tölvupóstinum.

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs er meðal annars vísað til þess að ágreiningur málsins lúti að því hvort afskrifa eigi kröfu Íbúðalánasjóðs á hendur kæranda. Sjóðurinn hafi tekið hina kærðu ákvörðun á grundvelli þeirra ákvæða sem gildi um afgreiðslu slíkra umsókna. Sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar en hún byggist á heildstæðu mati á fjárhagslegri stöðu kæranda. Þau ákvæði sem gildi um afgreiðslu þessara umsókna séu sérákvæði gagnvart ákvæðum samningalaganna að því er varðar afskrift þessara krafna. Úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar í málinu afmarkist því við að skera úr um réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. út frá því hvort hún standist gagnvart ákvæðum laga nr. 44/1998, reglugerð nr. 359/2010 og reglum sjóðsins.

Í síðari athugasemdum Íbúðalánasjóðs kemur fram að heimild til að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu byggi ekki á því skilyrði að skuldari hafi ekki fjárhagsgetu til að greiða skuldina vegna ófyrirséðra og viðráðanlegra atvika. Afgreiðsla slíkra umsókna byggist þvert á móti á heildarmati á högum skuldara og hvort efni standi til afskrifta á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Um það heildarmat vísist til þess sem segir í rökstuðningi í greinargerð Íbúðalánasjóðs. Það sé því ekki svo að ákvörðun sjóðsins hafi verið byggð á tilteknum skilyrðum um hlutföll tekna og eigna af skuld sem glatað hafi veðtryggingu, líkt og sé fjallað um í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 332/2017, heldur byggi hún á heildarmati. Slíkt mat sé forsenda þess að Íbúðalánasjóður geti tekið ákvörðun um það hvort heimilt sé að afskrifa slíkar kröfur, sbr. 47. gr. laga um húsnæðismál og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Matið og ákvörðun Íbúðalánasjóðs byggi því eðli málsins samkvæmt á því að nauðsynlegt mat þurfi að eiga sér stað til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess hvort heimila eigi afskrift krafna, sbr. hin tilgreindu ákvæði laganna og reglugerðarinnar. Að þessu sögðu sé því mótmælt að ákvörðunin eigi sér ekki lagastoð, enda hafi matið ekki verið byggt á þeim skilyrðum sem fram komi í úrskurði nr. 332/2017. Íbúðalánasjóður telur fráleitt að kærandi krefjist málskostnaðar á þessum grundvelli og þeirri kröfu sé því mótmælt harðlega. Í lögum um húsnæðismál sé hvergi kveðið á um greiðslu kostnaðar við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni, enda sé það val aðila máls að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur fyrir nefndinni. Í lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála sé ekki heldur kveðið á um að henni sé heimilt að úrskurða um málskostnað. Að mati Íbúðalánasjóðs þurfi kærandi því sjálf að bera þann kostnað sem hún kunni að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni. Íbúðalánasjóður áréttar fyrri sjónarmið til rökstuðnings kröfu um að ákvörðun sjóðsins verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn. Kærandi byggir meðal annars á því að tiltekin atvik við yfirtöku láns hjá Íbúðalánasjóði á árinu 2008 eigi að hafa áhrif á ákvörðun sjóðsins um afskrift kröfunnar og er vísað í því samhengi til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Úrskurðarnefndin tekur fram að umfjöllun nefndarinnar takmarkast við það hvort skilyrði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál og reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu til afskriftar á skuldinni séu til staðar. Við mat á því tekur nefndin ekki til skoðunar fjármunaréttarreglur er snúa að atvikum við yfirtöku lánsins árið 2008.

Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skuldari geti hvenær sem er greitt inn á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu og Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafa að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í reglugerðinni ekki kveðið á um frekari skilyrði fyrir afskrift á skuld.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að miðað við orðalag ákvæða laga nr. 44/1998 og reglugerðar nr. 359/2010 sé vandséð að Íbúðalánasjóður hafi heimild til að setja viðbótarskilyrði fyrir afskrift á skuld líkt og gert sé í reglum sjóðsins um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða. Í því samhengi hefur kærandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 332/2017 þar sem talið var að ákvæði í grein 11.1. framangreindra reglna ætti sér ekki stoð í lögum.

Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram það mat nefndarinnar að það þyrfti að fara fram efnislegt mat á grundvelli 47. gr. laga nr. 44/1998 á því hvort efni stæðu til afskrifta á skuld. Ekki væri fullnægjandi að vísa til staðlaðrar reglu sem hefði ekki skýra stoð.

Umsókn kæranda var að sögn Íbúðalánasjóðs synjað á grundvelli heildstæðs mats þar sem litið var til fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og annarra haga kæranda. Vísað var til þess að við mat á umsóknum væri framkvæmt heildstætt mat á högum skuldara og hvort efni stæðu til að afskrifa skuldina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Einungis væri gert ráð fyrir að afskrifa skuldir hjá þeim skuldurum sem sannarlega hefðu ekki haft eða hafi ekki fjárhagsgetu til að greiða skuldina. Ekki væru afskrifaðar skuldir hjá einstaklingum sem ætla mætti að gætu endurgreitt hluta skuldarinnar að teknu tilliti til eigna og/eða tekna. Metin væri greiðslugeta til að greiða skuldina með framkvæmd greiðslumats, en einnig væri litið til framfærslubyrðar og aðstæðna. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að við mat á umsóknum um niðurfellingu skulda sé meðal annars horft til þeirra viðmiða sem komi fram í grein 11.1 í reglum Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða. Þar segir að ef eignir umfram skuldir samkvæmt skattskýrslu nemi helmingi eða meira af kröfu sjóðsins verði beiðni um niðurfellingu synjað. Þar segir einnig að ef mánaðarlegar samanlagðar launatekjur skuldara kröfunnar nemi 25% eða meira af þeim hluta kröfu sjóðsins sem kæmi til greiðslu verði beiðni um niðurfellingu synjað. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsóknin fari til vinnslu hjá starfsmanni á viðskiptasviði sem stilli upp erindi og leggi fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á þar til gerðu eyðublaði með rökstuddri tillögu.

Í gögnum málsins liggur fyrir erindi starfsmanns Íbúðalánasjóðs til greiðsluerfiðleikanefndar vegna umsóknar kæranda um niðurfellingu skuldar. Er þar greint frá högum kæranda og lagt mat á aðstæður hennar ólíkt því sem gert var hjá kæranda í máli nr. 332/2017. Ákvörðun Íbúðalánasjóðs í því máli grundvallaðist eingöngu á grein 11.1 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki um sambærileg mál að ræða hvað þetta atriði varðar. 

Líkt og að framan greinir er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar, sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki annað ályktað en að við framkvæmd þess verði að leggja einstaklingsbundið mat á það hvort gild rök séu fyrir afskrift.

Í greinargerðum Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar hefur komið fram að sjóðurinn taki ákvörðun um afskriftir krafna í kjölfar heildarmats á högum skuldara og því hvort efni standi til afskrifta á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Slíkt mat sé forsenda þess að Íbúðalánasjóður geti tekið ákvörðun um það hvort heimilt sé að afskrifa slíkar kröfur, sbr. 47. gr. laga um húsnæðismál og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Í erindi starfsmanns Íbúðalánasjóðs til greiðsluerfiðleikanefndar, sem inniheldur lýsingu á aðstæðum kæranda og tillögu starfsmanns að synjun umsóknar, er meðal annars vísað til þess að kærandi og sambýlismaður hennar séu búsett í eigin húsnæði. Kærandi sé ekki skráður eigandi fasteignarinnar og því sé í matinu ekki gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði við mat á greiðslugetu hennar, jafnvel þótt hún sé skráð lántaki tveggja áhvílandi lána. Við mat á framfærslukostnaði kæranda var dregin sú ályktun að kærandi hefði greiðslugetu til að taka bankalán til að gera upp helming skuldarinnar við Íbúðalánasjóð, samtals 4.653.805 kr.

Samkvæmt framangreindu endurspeglaði áætlaður framfærslukostnaður ekki raunverulega framfærslu kæranda og horfir úrskurðarnefndin fyrst og fremst til þess að húsnæðiskostnaður hennar var talinn enginn. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að kærandi þarf að bera kostnað af húsnæði, þrátt fyrir að hún sé ekki eigandi fasteignar. Þá er í mati á framfærslukostnaði ekki gert ráð fyrir að kærandi þurfi að bera kostnað vegna dagvistunar barna eða samgangna. Framfærslukostnaður kæranda, sem er hluti hins heildstæða mats sem greiðsluerfiðleikanefnd á að byggja ákvörðun sína á, var því verulega vanmetinn í forsendum matsins.

Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að forsendur hins heildstæða mats hafi ekki verið réttar og því hafi matið ekki verið framkvæmt með fullnægjandi hætti, enda ljóst að það endurspeglar ekki raunverulegar aðstæður kæranda og þar af leiðandi greiðslugetu og möguleika hennar til greiðslu skuldarinnar. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Kærandi óskar greiðslu málskostnaðar vegna reksturs kærumálsins. Það er meginregla íslensks réttar að borgararnir verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af málarekstri fyrir stjórnvöldum. Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slík heimild er ekki í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál. Þá er ekki að finna ákvæði í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sem heimilar greiðslu málskostnaðar. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. júní 2018, um synjun á umsókn A, um afskrift á skuld er felld úr gildi og málinu vísað aftur til nýrrar meðferðar sjóðsins. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta