Mál nr. 9/2018
Hinn 7. maí 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2018:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. S-206/2008:
Ákæruvaldið
gegn
Arnóri Ísfjörð Guðmundssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
- Með erindi, dagsettu 28. september 2018, fór Arnór Ísfjörð Guðmundsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-206/2008, sem dæmt var í Héraðsdómi Vesturlands 8. október 2008, yrði endurupptekið.
- Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
- Með ákæru sýslumannsins í Stykkishólmi 28. maí 2008 var endurupptökubeiðanda gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2008, ekið bifreið undir áhrifum áfengis og svo óvarlega að bifreiðin hafnaði utan vegar.
- Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 8. október 2008 í máli nr. S-206/2008 var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um að hafa ekið undir áhrifum áfengis, sbr. 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Endurupptökubeiðanda var gert að greiða 160.000 kr. í sekt í ríkissjóð en sæta ellegar fangelsi í 12 daga væri sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Þá var endurupptökubeiðandi sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins og gert að greiða sakarkostnað að fjárhæð 408.917 kr., þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 209.160 kr.
- Með bréfi til Hæstaréttar Íslands 1. janúar 2009 sótti endurupptökubeiðandi um endurupptöku dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. S-206/2008. Þann 19. febrúar 2009 tilkynnti Hæstiréttur endurupptökubeiðanda að umsókn hans um endurupptöku hefði verið hafnað. Ekki voru talin lagaskilyrði til að verða við beiðninni, sbr. þágildandi 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
III. Grundvöllur beiðni
- Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að hvert og eitt skilyrða a-d liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt.
- Endurupptökubeiðandi byggir á því að ný gögn hafi komið fram í málinu sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. laga um meðferð sakamála. Í því sambandi vísar endurupptökubeiðandi til þess að hann hafi frá öndverðu haldið því fram að hann hafi ekki verið ökumaður bifreiðarinnar og að fleiri hafi verið með honum í bifreiðinni. Eftir dómsuppkvaðningu hafi komið í ljós að lögregla hafi yfirheyrt vitnið X vegna gruns um aðkomu að slysinu. Endurupptökubeiðandi byggir á því að ekkert hafi verið minnst á þennan þátt málsins í ákæru eða ákærugögnum né hafi hann verið upplýstur um þetta. Þá hafi téður aðili komið fyrir dóm sem vitni í málinu en ekki verið spurður út í ofangreind atriði. Endurupptökubeiðandi telur að hefði það legið fyrir í gögnum málsins að lögregla hafi í rannsókn sinni grunað annan mann um aðkomu að slysinu hefði það stutt við framburð endurupptökubeiðanda þess efnis að hann hafi ekki ekið bifreiðinni umrætt kvöld.
- Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að aðili hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins, sbr. skilyrði b-liðar 1. mgr. 228. laga um meðferð sakamála. Telur hann að verulegar líkur séu á því að þrjú tilgreind vitni í dómsmálinu hafi sammælst um rangan framburð. Um sé að ræða þann aðila sem lögreglan hafði grun um aðkomu að slysinu og tvo aðra sem voru með honum umrætt kvöld. Í þessu sambandi bendir endurupptökubeiðandi á að þremenningarnir hafi ekki minnst einu orði á að einn þeirra hafi verið yfirheyrður af lögreglu eða samveru þeirra með endurupptökubeiðanda fyrr um kvöldið. Endurupptökubeiðandi byggir á því að framburður aðilanna kunni að hafa haft þau áhrif að hann hafi verið sakfelldur og beri því að endurupptaka málið.
- Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að sönnunargögn hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. laga um meðferð sakamála. Þá telur hann að vafi um sönnun í málinu hafi ekki verið túlkaður honum í hag, sbr. áskilnað 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála. Í því sambandi vísar endurupptökubeiðandi til þess að vafi hafi verið uppi um hvort hann hafi verið eini farþegi bifreiðarinnar umrætt kvöld sem hafi ekki verið skýrður honum í hag. Þá hafi hvorki vettvangur né bifreiðin verið rannsökuð, hvorki af lögreglu né sérfróðum matsmönnum. Þannig hafi mat dómara á aðstæðum einungis byggt á ályktunum vitna, sem hafi ekki verið sérfræðingar til þess að meta aðstæður og ekki borið saman um öll atriði.
- Jafnframt telur endurupptökubeiðandi að rangt sönnunarmat hafi átt sér stað þegar framburður vakthafandi læknis á heilsugæslunni á Ólafsvík hafi verið tekinn trúanlegur, en framburður læknis sem annaðist endurupptökubeiðanda á bæklunardeild Landspítala dreginn í efa. Endurupptökubeiðandi byggir á því að þetta sönnunarmat Héraðsdóms Vesturlands hafi verið rangt. Í því sambandi bendir endurupptökubeiðandi á að vakthafandi læknir á Ólafsvík hafi gert mistök í þeirri meðferð sem hann veitti endurupptökubeiðanda umrætt kvöld er slysið varð. Endurupptökubeiðandi telur að vottorð bæklunarlæknis á Landspítalanum þess efnis að áverkar hans bendi til þess að hann hafi verið farþegi bifreiðarinnar sé grundvallargagn sem eitt og sér hafi átt að nægja til að véfengja sönnun um að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt kvöld.
- Jafnframt byggir endurupptökubeiðandi á því að málsmeðferð rannsóknarinnar hafi verið verulega ábótavant. Tjónsbifreiðin hafi ekki verið rannsökuð af lögreglu og mörgum spurningum verið ósvarað, t.d. hvers vegna líknarbelgur í farþegasæti hafi ekki sprungið út. Eins hafi ekki verið skoðað hvort ákomur væru á hanskahólfi bifreiðarinnar í farþegasæti, en ósamræmi sé að mati endurupptökubeiðanda á milli áverka hans og þess að líknarbelgur hafi sprungið út í ökumannssæti, sem hafi þá átt að koma í veg fyrir hnémeiðsl.
- Þá telur endurupptökubeiðandi að rannsaka hafi þurft betur hvort aðrir kynnu að hafa verið í bifreiðinni eða hvort endurupptökubeiðandi hafi neytt áfengis. Einungis hafi verið tekið eitt blóðsýni og eitt þvagsýni úr honum. Að endingu vísar endurupptökubeiðandi til þess að rannsakendum beri að veita endurupptökubeiðanda vitneskju um það ef viðkomandi verður þess var eða fær rökstuddan grun um að skilyrðum a-d liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Það hafi ekki verið gert og hafi endurupptökubeiðandi sjálfur þurft að afla vitneskju og gagna um ákveðna liði málsins hjá lögreglu. Þá hafi gögnum og upplýsingum vísvitandi verið haldið til hliðar frá endurupptökubeiðanda. Slíkt kalli á endurskoðun og ætti eitt og sér að réttlæta endurupptöku málsins.
IV. Viðhorf gagnaðila
- Í bréfi ríkissaksóknara, dags. 14. nóvember 2018, er því hafnað að upplýsingar um viðtal lögreglu við vitnið X hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Í því sambandi vísar ríkissaksóknari til bréfs sýslumannsins í Stykkishólmi frá 12. janúar 2009 þar sem fram kemur að rætt hafi verið við vitnið X vegna ábendingar endurupptökubeiðanda. Vitnið hafi neitað að hafa verið í bifreiðinni og lögreglumenn hafi séð hann í húsi í Ólafsvík um svipað leyti og tilkynning barst vegna slyssins. Miðað við vettvanghafi lögreglumönnum þótt ótrúlegt að vitnið X hafi getað verið í bifreiðinni og hafi hann því verið útilokaður frá málinu í upphafi. Þá vísar ríkissaksóknari til þess að af reifun héraðsdóms á framburði vitnisins X og vitnanna Y og Z megi ráða að vitnunum bar saman um að síðarnefndu vitnin hafi fyrst séð bifreiðina utan vegar þegar þau voru á leið að sækja vitnið X í samkvæmi í Ólafsvík.
- Ríkissaksóknari rekur einnig að sér sé ekki kunnugt um að nein gögn í málinu styðji að fyrrgreind vitni hafi vísvitandi skýrt rangt frá fyrir dómi.
- Þá bendir ríkissaksóknari á að af frumskýrslu lögreglu í málinu verði ráðið að rannsókn hafi farið fram á vettvangi. Þar komi meðal annars fram að endurupptökubeiðandi hafi verið einn í bifreiðinni þegar slysið varð. Eina sætið í bifreiðinni sem hafi verið brotið hafi verið ökumannssætið og aðeins líknarbelgur ökumannsmegin hafi verið sprunginn út. Þá kom einnig fram að bifreiðin hafi verið í eigu föður endurupptökubeiðanda.
- Ríkissaksóknari bendir á að í héraðsdómi hafi verið raktar niðurstöður vottorða tveggja lækna og framburðir þeirra. Ekki hafi verið vísað til vottorðanna í niðurstöðu dómsins og því verði ekki ályktað að öðru hvoru þeirra hafi verið veitt vægi umfram hitt.
- Þá rekur ríkissaksóknari að hvorki verksummerki né bifreiðaflakið hafi bent til þess að aðrir en endurupptökubeiðandi hafi verið í bifreiðinni, auk þess sem ekkert þeirra vitna sem hafi komið á vettvang hafi orðið vör við mannaferðir annarra en endurupptökubeiðanda. Þá verði að telja miðað við ástand bifreiðarinnar að ef annar aðili hafi verið í bifreiðinni hafi hann þurft að leita sér aðhlynningar, en enginn hafi gefið sig fram á nærliggjandi heilsugæslustöð. Að mati ríkissaksóknara er ekki ástæða til að ætla að framangreint sönnunarmat hafi verið rangt.
- Að endingu kemur fram í bréfi ríkissaksóknari að þau atriði sem endurupptökubeiðandi bendir á og telur verulega galla á málsmeðferð hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins og séu því ekki skilyrði til staðar fyrir endurupptöku.
V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
- Þann 21. janúar 2019 bárust athugasemdir endurupptökubeiðanda við sjónarmið ríkissaksóknara. Í bréfinu áréttar endurupptökubeiðandi að það teljist nýtt gagn í málinu að annar aðili hafi verið yfirheyrður vegna gruns um aðkomu að því en þessar upplýsingar hafi ekki komið fram í ákæru eða fyrir dómi. Rík ástæða hafi verið til að upplýsa um þennan þátt málsins en endurupptökubeiðandi hefur frá upphafi staðfastlega haldið því fram að hann hafi ekki verið einn í bifreiðinni.
- Þá telur endurupptökubeiðandi að ekki sé hægt að stóla á mat lögreglu á líkamlegu ástandi vitnisins X á kvöldi slyssins með tilliti til þess hvort hann hafi verið í bifreiðinni eða ekki. Í því sambandi rifjar endurupptökubeiðandi upp að lögregla taldi hann óslasaðan þrátt fyrir að síðar hafi þurft að flytja hann með bráðaflutningi á Landspítalann.
- Þá áréttar endurupptökubeiðandi að engin rannsókn hafi verið framkvæmd á bifreiðinni sjálfri og rannsókn á vettvangi hafi verið lítil sem engin. Engin skýrsla hafi verið lögð fram um rannsókn á bifreiðinni.
- Að endingu vekur endurupptökubeiðandi máls á því að lykill bifreiðarinnar hafi aldrei fundist á vettvangi. Endurupptökubeiðandi byggir á því að ef hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar hefði lykillinn átt að vera í kveikjulási bifreiðarinnar. Hann hafi þó ekki fundist og engin rannsókn framkvæmd sem gæti varpað ljósi á þetta atriði, sem styðji að mati endurupptökubeiðanda að hann hafi ekki ekið bifreiðinni umrætt kvöld.
VI. Niðurstaða
- Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d er fullnægt.
- Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
- fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
- ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
- verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
- verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
- Endurupptökubeiðandi byggir beiðni um endurupptöku á öllum stafliðum 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
- Líkt og í fyrri endurupptökubeiðni telur endurupptökubeiðandi að ef gögn um grun lögreglu og handtöku á vitninu X hefðu verið lögð fram í málinu hefðu þau stutt verulega við framburð endurupptökubeiðanda um að hann hafi ekki ekið bifreiðinni. Í bréfi sýslumanns Snæfellinga, dags. 12. janúar 2009, kemur fram að vitnið X hafi komið á lögreglustöð til viðtals. Þar hafi það neitað að hafa verið í bifreiðinni þegar umrætt atvik átti sér stað. Í bréfinu kemur jafnframt fram að lögreglumennirnir hafi séð vitnið við hús þar sem veisluhöld áttu sér stað um það leiti sem tilkynning barst um slysið. Auk þess hafi enga áverka verið að sjá á því og miðað við vettvang og tjónið hafi lögreglumönnum þótt ótrúlegt að vitnið hafi verið í umræddri bifreið þegar atvikið átti sér stað. Í ljósi þessa upplýsinga verður ekki séð að upplýsingar í bréfinu séu þess eðlis að líta megi á það sem nýtt gagn sem ætla megi að hefði verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef það hefði komið fram áður en dómur gekk, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
- Endurupptökubeiðandi staðhæfir að þrjú vitni hafi vísvitandi skýrt rangt frá fyrir dómi. Engar upplýsingar né gögn liggja fyrir í málinu sem styðja þessa staðhæfingu. Með vísan til þessa er ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, að ætla megi að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins.
- Líkt og í fyrri endurupptökubeiðni telur endurupptökubeiðandi að verulegar líkur séu á því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Telur hann að gögnum hafi ekki verið til að dreifa um rannsókn lögreglu á bifreið og vettvangi. Þá hafi ekki verið kallaðir til sérfróðir matsmenn til að skoða vettvang og bifreið. Mat dómara um hvort annar aðili hafi verið ökumaður og að fleiri hafi verið í bifreiðinni hafi byggt alfarið á ályktunum vitna. Þá telur hann sönnunarmat dómara á framburðum lækna rangt. Í dóminum er gerð grein fyrir því að strax hafi verið hugað að því hvort aðrir en endurupptökubeiðandi kynnu að hafa orðið fyrir slysi. Hvorki verksummerki né bifreiðarflakið hafi bent til að aðrir en endurupptökubeiðandi hafi verið í bifreiðinni. Þá hafi ekkert af þeim vitnum sem komu á vettvang orðið vör við mannaferðir, auk þess sem enginn hafi gefið sig fram á nærliggjandi heilsugæslustöð eftir að hafa lent í slysi. Með hliðsjón af því hvernig bifreiðin var leikin eftir slysið hafi allt bent til að sá sem var í bifreiðinni þegar slysið varð hefði þurft aðhlynningu af einhverju tagi. Að öllu þessu virtu taldi dómurinn óhætt að slá því föstu að endurupptökubeiðandi hafi í umrætt sinn ekið bifreiðinni, enda hafi ekkert komið fram málinu sem benti til hins gagnstæða. Í ljósi framangreinds sönnunarmats verður ekki talið að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnungargögn hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
- Endurupptökubeiðandi heldur því fram að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins. Máli sínu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til þess að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant þar sem bifreið og vettvangur hafi ekki verið nægilega rannsakaður, hvorki með tilliti til þess hvort aðrir kynnu að hafa verið í bifreiðinni eða hvort endurupptökubeiðandi hafi neitt áfengis. Ekki verður fallist á þessa ályktun endurupptökubeiðanda og að mati endurupptökunefndar er ekkert komið fram sem bendir til þess að tilefni hafi verið fyrir lögreglu að framkvæma ítarlegri rannsókn en fór fram. Verður því ekki fallist á að fyrir hendi séu skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. laga um meðferð sakamála.
- Samkvæmt framansögðu er ekkert skilyrða 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt.
Úrskurðarorð
Beiðni Arnórs Ísfjörð Guðmundssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-206/2008, sem dæmt var í Héraðsdómi Vesturlands 8. október 2008, er hafnað.
Haukur Örn Birgisson formaður
Gizur Bergsteinsson
Þórdís Ingadóttir