Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupmáttur hefur vaxið þrátt fyrir minni verðmætasköpun

  • Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 4,8% milli ára á fyrsta ársfjórðungi ársins skv. Hagstofu Íslands;
  • Sé litið yfir lengra tímabil sést að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið á sama tíma og verðmætasköpun hagkerfisins hefur dregist saman;
  • Greining fjármála- og efnahagsráðuneytisins bendir til þess að kaupmáttur dragist einkum saman í efsta hluta tekjudreifingarinnar;
  •  Samdráttur í kaupmætti ráðstöfunartekna skv. Hagstofu endurspeglar ekki samdrátt í kaupmætti meðalheimilis, sem líklega er nokkuð minni. Skýringin liggur að einhverju marki í örri fólksfjölgun.

Um þessa og fleiri þætti er fjallað hér að neðan, en athygli er vakin á því að umfjöllunin styðst annars vegar við gögn Hagstofu og hins vegar við gögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, en stofnanirnar styðjast við ólík gögn og mismunandi skilgreiningar sem getur leitt til ólíkrar niðurstöðu, líkt og nánar er greint er frá að neðan.

Þrátt fyrir lækkun síðastliðið ár hefur kaupmáttur heimilanna vaxið frá árinu 2019, en á sama tíma hefur verðmætasköpun hagkerfisins á mann dregist saman. Viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum stuðluðu að stöðugum kaupmætti heimila þrátt fyrir skarpan samdrátt landsframleiðslu árið 2020. Þá er vöxtur kaupmáttar á mann samhliða minni verðmætasköpun á mann meðal þess sem hefur stuðlað að því að viðskiptajöfnuður hefur snúist í halla eftir heimsfaraldurinn.

 

Kaupmáttur heimilanna, skv. gögnum ráðuneytisins, dregst einkum saman hjá heimilum í efsta hluta tekjudreifingarinnar. Á hinn bóginn óx kaupmáttur heimila í neðri hluta og við miðbik tekjudreifingarinnar á síðasta ári.

 

Annar grundvallarmunur á framsetningu Hagstofunnar og ráðuneytisins lýtur að því að ráðstöfunartekjur skv. ráðuneytinu eru heildartekjur heimilanna eftir skatta, en Hagstofan dregur bæði skatta og vaxtagjöld frá heildartekjum. Hærri vaxtagjöld vegna vaxtahækkana sl. árs leiða þannig beint til 0,7% samdráttar kaupmáttar í tölum Hagstofunnar og skýra 15% af lækkun kaupmáttar milli ára.

 

Að lokum er bent á að samdráttur í samanlögðum kaupmætti allra heimila lækkar aðeins um 1,4% milli ára á fyrsta ársfjórðungi þrátt fyrir 4,8% lækkun kaupmáttar á mann. Kaupmáttur á mann í gögnum Hagstofunnar getur lækkað af tveimur ástæðum:

  1. Ef kaupmáttur heimilanna minnkar;
  2.  Ef heimilum í neðri hluta tekjudreifingarinnar fjölgar hraðar en heimilum í efri hluta tekjudreifingarinnar.

Gögn Hagstofunnar leyfa ekki mat á innbyrðis vægi framangreindra þátta, en fólksfjölgun á fyrsta ársfjórðungi ársins var sú mesta frá því Hagstofan hóf að safna ársfjórðungslegum upplýsingum um mannfjölda árið 2010. Þó að innflytjendur starfi í öllum geirum atvinnulífsins þá eru þeir sérstaklega hátt hlutfall starfsfólks í atvinnugreinum með lága framleiðni. Því er ekki hægt að álykta út frá gögnum Hagstofu að kaupmáttur meðalheimilis hafi dregist saman um 4,8% milli ára. Af framangreindum ástæðum má raunar álykta að samdrátturinn sé minni.

Greining fjármála- og efnahagsráðuneytisins byggir á skattframtölum og ná aðeins til ársins 2022. Upplýsingar Hagstofu Íslands um tekjur á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023 byggja m.a. á staðgreiðsluskrám og bráðabirgðauppgjöri Fjársýslunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta