Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2011 Innviðaráðuneytið

Hengibrýr, núllsýn og fjörulíf til umræðu á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar

Fjölmörg og fjölbreytt umfjöllunarefni voru á tíundu rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar síðastliðinn föstudag, meðal annars áhrif hita á steinsteypuspennur, ástand kapla í hengibrúm, núllsýn, gæði hjólaleiða, fjörulíf og þveranir fjarða.

Frá rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar 2011.
Frá rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar 2011.

Einn fyrirlesaranna var Guðmundur Valur Guðmundsson hjá Verkfræðistofunni Eflu sem fjallaði um ástand hengibrúa en verkefnið var unnið í samstarfi við brúardeild Vegagerðarinnar. Ásamt Guðmundi unnu verkið þeir Aron Bjarnason og Einar Hafliðason hjá Vegagerðinni og Baldvin Einarsson hjá Eflu. Sjö hengibrýr eru á þjóðvegakerfinu, byggðar árin 1945 til 1967. Ölfusárbrúin er elst og þar er mestur umferðarþungi. Höfundur benti á að kaplar í hengibrúm (sem gerðir eru úr mörgum þráðum) væru orðnir allt að 65 ára gamlir en virtust hafa staðist tímans tönn þrátt fyrir að álag á þá væri margfalt á við það sem gert var ráð fyrir við hönnun þeirra.

Skoðaðar voru brýrnar yfir Hvítá hjá Iðu og Ölfusárbrúin. Almennt er ástand búarinnar hjá Iðu gott, lítið um skemmdir í málningu, strengir galvaniseraðir og í ágætu ástandi. Um Ölfusárbrú segir að tæringarvörn og málning frá árinu 1993 virðist hafa staðist veður og vinda en ekki sé hægt að meta ástand strengjanna að innan með sjónskoðun. Hugsanlegt brot í þráðum eða tæringu megi merkja ef þvermál strengs hefur breyst, það gliðnað eða aflagast. Mat höfunda er að brotöryggi Ölfusárbrúar sé ekki lengur fjórfalt eins og í upphafi heldur 1,8 þar sem hengd hafa verið undir  brúna lagnakerfi og gólf hennar lagt steypu. Mælt er með því að hún verði tekin til frekari skoðunar. Segir í niðurstöðum höfunda að með góðu viðhaldi og vöktun ætti að vera hægt að tryggja endingu brúnarinnar til næstu 50 ára þrátt fyrir aukið álag. 

Mælt er með því að tekin verði upp vöktunaráætlun fyrir hverja brú á grundvelli ástandsskoðana og að kaplar verði skoðaðir reglulega á þriggja til fimm ára fresti. 

Á að taka upp núllsýn?

Haraldur Sigþórsson, verkfræðingur og lektor í Háskólanum í Reykjavík, ræddi spurninguna hvort taka ætti upp núllsýn í umferðaröryggismálum á Íslandi. Hann sagði vinnuhóp nú vinna að könnun málsins og að hann myndi skila niðurstöðum með vorinu. Núllsýn snúist um þá stefnu að á endanum ætti enginn að deyja eða slasast alvarlega innan umferðarkerfisins. Slík sýn hefði verið tekin upp í Svíþjóð 1996, Noregi 2000 og Finnlandi 2001.

Haraldur sagði verkefnið unnið í nokkrum skrefum og nauðsynlegt væri að stjórnvöld myndu setja sér markmið og skuldbinda sig til að bæta umferðaröryggi, stjórnendur umferðaröryggis ættu áfram að þróa umferðaröryggisáætlanir og leggja yrði mikla áherslu á að upplýsa almenning. Haraldur svaraði í lokin spurningunni játandi og sagði það gerlegt með ákveðnum skilyrðum, svo sem áðurnefndri markmiðasetningu og forgangsröðun út frá öryggissjónarmiðum. 

Alls voru flutt 19 erindi á þessari tíundu rannsóknarráðstefnu. Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar veitir árlega allmarga styrki til verkefna og í ár bárust umsóknir fyrir um 370 milljónir króna en í fyrra fyrir kringum 500 milljónir. Sjóðurinn úthlutar liðlega 100 milljónum í verkefnastyrki og er jafnan gerð grein fyrir verkefnunum á rannróknarráðstefnunni.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta