Hoppa yfir valmynd
24. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 235/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 235/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040025

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. apríl 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2018, um að synja henni um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og vegna sérstakra tengsla við landið.

Af greinargerð kæranda verður ráðið að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 15. ágúst 2017 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi, aðallega vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 72. gr. laga um útlendinga, en til vara á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. sömu laga. Kærandi var stödd hér á landi þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi og með bréfi Útlendingastofnunar til hennar, dags. 15. nóvember 2017, var henni veitt heimild til að dvelja á landinu á meðan umsókn hennar um dvalarleyfi væri til vinnslu, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggði umsókn sína um dvalarleyfi á því að hún eigi dóttur og tvö barnabörn hér á landi, en annað barnabarna hennar eigi við [...]. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 4. apríl 2018, var umsókn kæranda um dvalarleyfi synjað. Ákvörðunin var móttekin af umboðsmanni kæranda hér á landi þann 9. apríl 2018 og þann 16. apríl sama mánaðar var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 27. apríl 2018, en áður höfðu borist gögn frá kæranda. Þann 8. maí 2018 leiðbeindi kærunefnd kæranda um framlagningu frekari gagna varðandi aðstæður hennar. Engin frekar gögn bárust frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Vegna aðalkröfu kæranda vísaði Útlendingastofnun til þess að að samkvæmt 69. og 72. gr. laga um útlendinga gætu foreldrar 67 ára og eldri átt rétt á dvalarleyfi hér á landi vegna fjölskyldusameiningar. Kærandi væri hins vegar 57 ára og var umsókn hennar um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar því synjað. Í umfjöllun um varakröfu var gerð grein fyrir 20. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, en þar koma fram skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Var m.a. rakið að fjölskyldu og félagsleg tengsl umsækjanda við heimaríki yrðu að vera slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Vísaði Útlendingastofnun til þess að í framlögðum gögnum frá kæranda væri ekki að finna umfjöllun um tengsl kæranda við heimaríki. Yrði því ekki séð að það væri bersýnilega ósanngjarnt að veita kæranda ekki dvalarleyfi hér á landi vegna þess að hún væri ein eftir í heimaríki eða að tengsl hennar við Ísland væru þeim mun sterkari en tengsl hennar við heimaríki. Þá var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður barnabarns kæranda gætu ekki talist til umönnunarsjónarmiða í skilningi 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við landið að beitt yrði undantekningarreglu 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að það sé álit lækna að vera hennar hér á landi hafi góð áhrif á líðan barnabarns hennar. Kærandi segir það vera erfitt að þurfa að yfirgefa aðstæðurnar vitandi að líðan barnabarns verði enn verri. Þá kveður kærandi dóttur sína hafa lent í bílslysi í [...] og að hún hafi verið óvinnufær síðan. Fyrir kærunefnd hafa jafnframt verið lögð fram gögn sem sýna fram á millifærslur frá dóttur kæranda til hennar árið 2017.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Umsókn um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. segir m.a. að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Þá kemur fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er jafnframt heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur, sbr. 55. gr. laganna, ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Af framangreindu er ljóst að foreldri verður aðeins veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga hafi það náð 67 ára aldri en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur ekki náð þeim aldri og er því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.

Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Er þar kveðið á um að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Af framangreindum ákvæðum má ráða að þau umönnunarsjónarmið sem vísað er til í 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga eigi við þær aðstæður þar sem umsækjandi um dvalarleyfi þarfnist sjálfur umönnunar og að fjölskyldu- og félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu að öðru leyti þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi.

Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er einkum byggð á því að [...] barnabarn hennar sem er búsett hér á landi þarfnist stuðnings hennar [...]. Eins og rakið hefur verið gera ákvæði reglugerðar um útlendinga ekki ráð fyrir því að útlendingi, sem hefur aldrei dvalist hér á landi, verði veitt dvalarleyfi samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga á grundvelli þess að aðstandandi hans hér á landi þarfnist umönnunar. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi eiginmann í heimaríki. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu varðandi félagslegar aðstæður hennar í heimaríki eða varðandi heilsufar hennar sem benda til þess að hún þarfnist umönnunar. Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu verður ekki séð að bersýnilega ósanngjarnt sé að veita kæranda ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta