Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 198/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 198/2019

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 21. maí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. apríl 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 23. nóvember 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. apríl 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. maí 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. maí 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 13. júní 2019, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar 14. júní 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um örorkumat.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um örorku í fyrsta skipti X 2018. Læknir hennar hafi gefið henni vottorð og talið hana ófæra um að vinna. Þá hafi kærandi farið í læknisskoðun X 2018. Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað umsókn kæranda eftir Xmánuði með ákvörðun, dags. X 2018. Ákvörðunin hafi birst á Mínum síðum hjá kæranda eftir að hún hafi farið tvisvar til Tryggingastofnunar. Í X 2018 hafi hún síðast farið til stofnunarinnar og þá fengið þær upplýsingar frá starfsmanni að ákvörðun hefði ekki enn verið tekin í málinu. Fljótlega eftir heimsóknina hafi ákvörðunin verið birt kæranda. Með henni hafi Tryggingastofnun fyrst tekið ákvörðun um að kærandi væri ekki fötluð. Kærandi hafi ekki verið sammála þessari ákvörðun, en hún hafi talið að tungumálahindrun hefði verið um að kenna. Kærandi hafi sagt lækninum að hún vildi staðfesta örorku sína á Íslandi því að í B hefði hún fengið staðfesta [...] fötlun en samkvæmt gildandi B lögum væru [...] fötlunar. Í læknisvottorði vegna umsóknar um örorkubætur hafi kærandi skrifað að hún væri fötluð og gæti ekki unnið. Kærandi sé manneskja sem ekki sé ófær um að vinna vegna fötlunar en hún sé einstaklingur með skerta hæfni sem geti unnið í viðeigandi vinnuskilyrðum sem stundum krefjist tímabundið eða að hluta til aðstoðar frá öðrum. Staðreyndin sé sú að kærandi sé manneskja sem ekki sé fullkomlega virk. Fötlun hennar hafi fengist staðfest frá B læknum. Tryggingastofnun ríkisins neiti hins vegar fötlun hennar. Kærandi hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun X 2018 þar sem fram hafi komið að til þess að unnt væri að meta réttindi kæranda þyrfti hún að senda viðbótarskjöl. Kærandi hafi sagst munu senda viðbótargögn á næsta ári og starfsmaður Tryggingastofnunar hafi upplýst hana um að hún gæti gert það hvenær sem er.

Kærandi hafi talið ákvörðun Tryggingastofnunnar ranga og ákveðið að reyna aftur. Þess vegna hafi hún X 2019 beðið lækni um skjal sem staðfesti fötlun hennar. Læknirinn hafi viðurkennt eftir skoðun og viðtal að hún gæti unnið.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndar, dags. 13. júní 2019, segir að kærandi skilji stöðu Tryggingastofnunar en hún sé ekki sammála stofnuninni. Í greinargerð, dags. 28. maí 2019, hafi stofnunin lagt fram staðreyndir sem kærandi þekkti. Kærandi bendi á að samkvæmt umsókn hennar um örorku, dags. 16. mars 2019, telji læknir hana ófæra um að vinna. Þá hafi kærandi samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis, dags. X 2018, fengið í líkamlega hluta staðalsins þrjú stig fyrir að geta stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað og þrjú stig fyrir að geta ekki gengið upp og niður milli hæða. Kærandi geri það í raun en það sýni að hún sé ekki fullkomlega heilbrigð en einkenni hennar vegna veikindanna séu ekki þau sömu á hverjum degi. Einn daginn geti hún gert mjög mikið en annan dag geti hún ekki farið upp úr rúminu af sársauka. Einn daginn geti hún gengið upp og niður stiga milli hæða án þess að halda sér í og annan dag geti hún ekki gengið án þess að hljóta veruleg óþægindi. Hún geti suma daga staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað en aðra daga geti hún ekki setið og verði að liggja í rúminu.

Í annað skipti sem kærandi hafi viljað sækja um örorku hafi hún beðið lækninn um vottorð þar sem skráð sé að hún sé fötluð en geti unnið. Það sé svo, kærandi sé fötluð en hún geti og vilji vinna. Fötlun hennar hafi verið staðfest af B læknum. Tryggingastofnun viðurkenni hins vegar ekki fötlun hennar. Kærandi viti ekki hver munurinn sé á fötluðum einstaklingi í B og fötluðum einstaklingi á Íslandi. Hún skilji að það séu mismunandi lagaákvæði í B, Íslandi og öðrum löndum sem stjórni málefnum fatlaðra en einstaklingur með fötlun í hverju landi sé einstaklingur sem ekki sé við fullnægjandi heilsu. Það sé ótvírætt að hún sé ekki heilbrigð og jafnvel læknir Tryggingastofnunnar hafi staðfest þetta en hann hafi gefið henni sex stig en ekki núll.

Læknir kæranda hafi aftur sent Tryggingastofnun vottorð um heilsu kæranda X 2019 og við örorkumat lífeyristrygginga sama dag hafi legið fyrir umsókn, dags. X 2018. Kærandi spyrji af hverju hún hafi ekki fengið tækifæri til þess að leggja fram nýja umsókn en Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. X 2018, sagt að svo að hægt væri að meta réttindi þyrfti einnig að skila inn læknisvottorði, útfylltum spurningalista og tekjuáætlun þar sem fram kæmu allar tekjur það sem eftir væri árs.

Tryggingastofnun hafi lagt til að kærandi hefði samband við Sjúkratryggingar Íslands varðandi hugsanlegan rétt til aðstoðar á Íslandi. Kærandi vilji ekki hjálp, hún vilji aðeins vera viðurkennd sem fötluð. Ef þörf krefji geti Tryggingastofnun kannað hana aftur.

Kærandi sé með [...]. Heilsa hennar muni örugglega ekki batna og geti aðeins versnað og með tímanum hafi hún fleiri og fleiri vandamál. Kærandi sé ekki sammála ákvörðun og greinargerð Tryggingastofnunnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati. Þá segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

 

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

 

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

 

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

 

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. X 2018. Með örorkumati, dags. X 2019, hafi örorkumati verið synjað á þeim grundvelli að örorkumatsstaðall væri ekki uppfylltur.

 

Við örorkumat lífeyristrygginga X 2019 hafi legið fyrir umsókn, dags. X 2018, læknisvottorð C, dags. X 2019, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. X 2019. Einnig hafi borist umsókn, dags. X 2018, svör kæranda við spurningalista, móttekin X 2018, læknisvottorð D, dags. X 2018, og skoðunarskýrsla, dags. X 2018.

 

Í læknisvottorði, dags. X 2019, komi fram að sjúkdómsgreining kæranda sé [...]. Varðandi fyrra heilsufar segi:

 

„Er frá B – flutti til Íslands í X. Unnið [...] áður en kom til Íslands. Verið án atvinnu nú frá maí X. Sótt var um örorku en fékk synjað X. Nýlega leitað til undirritaðs vegna [...].“

 

Í læknisvottorði, dags. X 2018, hafi komið fram að kærandi sé með [...]. Kærandi [...]. Óskað sé eftir örorkumati vegna þessa með tilliti til færniskerðingar og þarfar á [...]. Í svörum við spurningalista, mótteknum X 2018, lýsi kærandi heilsuvanda í líkamlega hluta staðalsins. Hafi hún lýst færniskerðingu í liðunum að sitja á stól, að standa upp af stól, að beygja sig eða krjúpa, að standa, að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að teygja sig eftir hlutum og að lyfta og bera.

 

Í skýrslu skoðunarlæknis, dags. X 2018, hafi kærandi fengið í líkamlega hluta staðalsins 3 stig fyrir geta stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað og 3 stig fyrir að geta ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér, eða samtals 6 stig.

 

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi öroka hennar verið samþykkt varanlega í B og það mat veiti rétt til ýmissar aðstoðar þar í landi. Sú aðstoð sem þar um ræðir myndi hér á landi vera veitt af Sjúkratryggingum Íslands en ekki af Tryggingastofnun. Kæranda sé því bent á að hafa samband við Sjúkratryggingar varðandi hugsanlegan rétt til sambærilegrar aðstoðar hér á landi.

 

Kærandi uppfylli ekki læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkumati hér á landi, auk þess sem upplýsingar um að varanlegt örorkumat hafi legið fyrir í B fyrir flutning hennar hingað til lands gefi tilefni til að líta svo á að ekki sé um áframhaldandi réttindaávinnslu að ræða hér á landi.

 

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja um örorkumat, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. júní 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Kærandi gerir athugasemdir við að Tryggingastofnun ríkisins viðurkenni ekki fötlun hennar. Þar sem kæra lýtur að ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um örorkulífeyri telur úrskurðarnefndin að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að upplýsingar um að varanlegt örorkumat hafi legið fyrir í B fyrir flutning kæranda hingað til lands gefi tilefni til að líta svo á að ekki sé um áframhaldandi réttindaávinnslu að ræða hér á landi. Ekki verður ráðið af orðalaginu eða hinni kærðu ákvörðun að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri og örorkustyrk á framangreindum grundvelli. Þvert á móti verður ráðið af gögnum málsins að farið hafi fram mat á því hvort kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkumati og að synjun stofnunarinnar um greiðslur hafi byggt á því að kærandi uppfyllti ekki læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkumati, sbr. staðal reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999. Úrskurðarnefndin mun því einungis endurskoða læknisfræðilegt mat stofnunarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. X 2018. Í vottorðinu segir um fyrra heilsufar kæranda:

„Er frá B – flutti til Íslands í X. [...]. Vinnur í E, 100% vinnu. Er með [...]. Óskað eftir örorkumati vegna þessa mtt færnisskerðingar, [...].“

Samkvæmt vottorðinu taldi D kæranda vera vinnufæra. Þá er eftirfarandi skráð í athugasemdum:

„[...].“

Í læknisvottorði C, dags. X 2019, segir um fyrra heilsufar:

„Er frá B – flutti til Íslands í X. Unnið [...] áður en kom til Íslands. Verið án atvinnu nú frá X. Sótt var um örorku en fékk synjað X. Almennt hraust utan þess sem fram kemur í sjúkrasögu. Nýlega leitað undirritaðs vegna [...].“

Samkvæmt vottorðinu telur C kæranda vera óvinnufæra að hluta frá X 2019. Þá segir um heilsuvanda hennar og færniskerðingu í vottorðinu:

 „[…] Vann í E, 100% vinnu. Er með [...]. Treysti sér ekki lengur til þess að vinna þessa vinnu [...]. Verið án atvinnu nú frá X. Sótt var um örorku en fékk synjað á X. Ástandið er í meginatriðum óbreytt, hefur skerta [vinnugetu] á grunni sinnar [...] fötlunar.“

Um horfur á aukinni færni, fyrirhugaða meðferð og endurhæfingu segir í vottorðinu:

„[...].“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi [...]. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi erfitt með að sitja þannig að hún eigi stundum erfitt með að sitja en það lýsi sér í því að hún geti stundum ekki setið með góðu móti vegna [...]. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól með því að vísa til svars hennar við spurningunni um færni hennar til að sitja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún geti ekki beygt sig niður eða kropið vegna [...]. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún [...]. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu með þeim hætti að hún [...] þegar hún er mjög verkjuð. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún þurfi að [...]. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig þannig að hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig upp fyrir sig til þess að ná í hluti, auk þess sem hún eigi erfitt með að ná í hluti af gólfinu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún geti ekki haldið á þungum hlutum vegna verkja og hún þurfi aðstoð við það. Þá svarar kærandi neitandi spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða.

Skýrsla F skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins X 2018. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér og geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[...].“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að hún getur stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað og gefur slíkt þrjú stig samkvæmt staðli. Þá getur kærandi ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér í, sem gefur þrjú stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er andleg færniskerðing ekki talin vera til staðar.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga  um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur að þær niðurstöður sem koma fram í áðurnefndri skoðunarskýrslu séu í samræmi við gögn málsins og leggur hana því til grundvallar við úrlausn málsins. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk sex stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og engin stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Um örorkustyrk er fjallað í 19. gr. laga um almannatryggingar. Þar kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli veita einstaklingi á aldrinum 18 til 62 ára örorkustyrk ef örorka hans sé metin að minnsta kosti 50% og hann uppfylli búsetuskilyrði samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna. Ekki er gerð grein fyrir því í lögunum hvernig meta skuli læknisfræðileg skilyrði örorkustyrks. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að ætlun löggjafans hafi verið að breyta skilyrðum örorkustyrks þegar skilyrðum örorkulífeyris var breytt með lögum nr. 62/1999 og ekki heldur þegar orðalagi ákvæðisins um örorkustyrk var breytt með lögum nr. 74/2002. Úrskurðarnefndin telur því að við mat á örorkustyrk eigi að styðjast við mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. skerðingu á getu til að afla atvinnutekna, en ekki læknisfræðilegt örorkumat, eins og gert hafði verið um áratuga skeið áður en lögunum var breytt árið 1999.

Að mati C læknis hefur kærandi verið óvinnufær að hluta frá X 2019, sbr. læknisvottorð hans, dags. X 2019. Í vottorðinu segir að kærandi hafi skerta vinnugetu á grunni [...] fötlunar. Ekki er greint frá því hversu hátt starfshlutfall læknirinn telur kæranda færa um að vinna. Þá er hvorki í hinni kærðu ákvörðun né í greinargerð Tryggingastofnunar að finna rökstuðning fyrir því mati stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkustyrk. Úrskurðarnefndin telur að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar í gögnum málsins til þess að taka afstöðu til vinnufærni kæranda. Þær upplýsingar, sem fram koma í læknisvottorði C, gáfu Tryggingastofnun tilefni til að óska eftir frekari upplýsingum um vinnufærni kæranda, að mati nefndarinnar. Úrskurðarnefndin telur því að stofnuninni hafi borið að rannsaka málið betur áður en ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um örorkustyrk var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkustyrk felld úr gildi. Þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. apríl 2019, um að synja A, um örorkulífeyri, er staðfest. Synjun stofnunarinnar um greiðslu örorkustyrks er felld úr gildi og vísað aftur til Tryggingastofnunnar ríkisins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta