Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland veitir viðbótarframlag til mannúðaraðstoðar

Flóttamenn frá Úkraínu koma til Moldóvu. - myndUNHCR

Í ljósi bágs mannúðarástands víða um heim ákvað Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að veita 250 milljón króna viðbótarframlag til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar um áramótin. Framlagið rennur til áherslustofnana Íslands í mannúðarmálum: Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og til starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Moldóvu. 

Á árinu 2022 þurftu 274 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda og er áætlað að sú tala hækki í 339 milljónir á þessu ári. Áhrif langvarandi átaka til að mynda, í Sýrlandi, Jemen og Afganistan, ný átök svo sem stríðið í Úkraínu og alvarlegar afleiðingar loftlagsbreytinga víða í þróunarríkjum settu mark sitt á árið 2022. 

„Staða mannúðarmála er skelfileg víða um heim og er nauðsynlegt að efnaðar þjóðir eins og Ísland leggi sitt af mörkum í að bregðast við ástandinu. Mannúðaraðstoð Íslands hefur farið hækkandi síðustu ár, og liggur fyrir að hún haldi áfram að vaxa á yfirstandandi ári. Við Íslendingar erum ákaflega lánsöm og höfum ríka skyldu til að leggja okkar af mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna veitir neyðarstyrki með áherslu á snemmtækar og skilvirkar aðgerðir og gerir Íslandi kleift að leggja sitt af mörkum á fleiri landssvæðum og málefnasviðum en ella. Þrátt fyrir vaxandi neyð í heiminum drógust framlög til CERF saman á árinu 2022. 

OCHA gegnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum, meðal annars varðandi aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og virðingu fyrir mannúðarlögum. Stofnunin greiddi fyrir mannúðaraðgengi í Úkraínu og gegndi lykilhlutverki í útflutningi á korni frá Úkraínu um Svartahaf.

UNHCR stendur vörð um réttindi og velferð fólks á flótta. Frá upphafi átaka í Úkraínu hafa um átta milljónir manna leitað skjóls í Evrópu og þar á meðal í Moldóvu. Moldóva er eitt fátækasta ríki Evrópu og ekki í stakk búið til að taka á móti þeim mikla fjölda sem þangað hafa leitað, og er staðan sérstaklega viðkvæm þegar vetrarkuldi herjar á.  

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta