Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 135/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 135/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110008

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Perú (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2019, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. nóvember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 18. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. nóvember 2019. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa henni kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og almenns ástands í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé fædd og uppalinn í [...] í Perú. Hún hafi búið á mismunandi stöðum í Perú í gegnum tíðina, m.a. hafi hún sótt nám í [...] og síðan unnið í Lima í um 15 ár.

Kærandi hafi greint frá því að í heimaríki hennar sé mikið um glæpi og spillingu og að hún hafi tvisvar sinnum verið hætt komin. Annars vegar árið [...] þegar að [...] menn hafi ráðist að leigubíl sem hún hafi verið í og hins vegar árið [...] þegar að menn á mótorhjóli hafi ógnað henni með stórum hníf og rænt hana. Kærandi óttist bæði glæpamenn og yfirvöld og telji að hún fái enga aðstoð auk þess sem einstæðar konur eigi undir höggi að sækja í samfélaginu og ekkert félagslegt kerfi nái utan um konur í hennar stöðu.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Perú og vísað í alþjóðlegar skýrslur um landið. Þar komi fram að spilling ríki innan stjórnsýslunnar, m.a. hjá lögregluyfirvöldum. Þá sé ofbeldi gegn konum útbreitt vandamál í Perú. Íhaldssamar skoðanir og viðhorf á hlutverkum kynjanna sé ríkjandi. Enda þótt landslög kveði á um refsingar vegna kynbundinna morða, nauðgana og heimilisofbeldis sé framfylgd laganna ófullnægjandi og lögin óskilvirk. Þrátt fyrir að konur eigi að hafa jafnan rétt á við karlmenn á atvinnumarkaði og í menntakerfinu séu afar fáar konur í valdastöðum og konur þurfi að þola mikla mismunun á vinnumarkaði. Þá hafi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum viðrað áhyggjur sínar af lagasetningu í landinu en nefndin telur mörg lög landsins mismuna konum, bæði óbeint og beint. Fordómar samfélagsins í garð kvenna og mismunun í þeirra garð hafi leitt til ójöfnuðar, bæði hvað varði efnahagsstöðu og atvinnutækifæri til handa konum.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda eigi kærandi á hættu ofsóknir á grundvelli kyns síns. Í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynbundnar ofsóknir komi fram að kynferðislegt ofbeldi og aðrar tegundir kynbundins ofbeldis á borð við heimilisofbeldi og mansal geti talist til ofsókna. Þar sé einnig tekið fram að enda þótt viðkomandi ríki hafi sett lög til að freista þess að stemma stigu við þeim athöfnum sem um er að ræða sé samt sem áður um ofsóknir að ræða ef stjórnvöld láta slíkar athafnir óátaldar eða stjórnvöldum takist ekki að stöðva þær athafnir á skilvirkan hátt. Það að refsing liggi við umræddum athöfnum samkvæmt landslögum sé því ekki nægjanlegt til að komast að þeirri niðurstöðu að kæranda sé ekki flóttamaður. Með vísan til þess sem að framan er rakið um stöðu kvenna í Perú sé ljóst að þær eigi á töluverðri hættu að verða fyrir kynbundnu ofbeldi. Nauðganir og morð á konum séu afar algeng í landinu. Þá sæti konur mismunun í landinu, t.a.m. á vinnumarkaði og hafi lög sem sett hafi verið til að stemma stigu við þessu ekki reynst skilvirk og hafi gerendur ítrekað komist upp með að brjóta gegn konum. Þá geti konur ekki treyst á vernd yfirvalda. Þá vísar kærandi til ákvæða a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um að ekki sé raunhæft að leita ásjár yfirvalda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er sú krafa gerð til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess sem rakið hafi verið að framan eigi kærandi á hættu áframhaldandi ofsóknir og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð vegna kyns síns í heimaríki.

Til þrautavara er gerð sú krafa að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laganna. Ljóst sé að konur eigi mjög undir högg að sækja í Perú. Kynbundið ofbeldi sé gríðarlega algengt og konur geti ekki stólað á vernd yfirvalda vegna þess. Þá sé ljóst að konum sé mismunað á margan hátt, beint og óbeint. Með vísan til framangreinds sé ljóst að félagslegar aðstæður kæranda sem einstæð kona í Perú yrðu ekki ákjósanlegar.

Með því að senda kæranda til heimaríkis yrði auk þess brotið gegn grundvallareglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Að lokum gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Stofnunin hafi fjallað um vernd kvenna sem landslög og stjórnarskrá Perú kveði á um, án tillits til þess hvernig framkvæmdin sé í raun. Þá telji Útlendingastofnun upp lög og áætlanir sem yfirvöld hafi sett en ljóst sé að lögin séu óskilvirk í framkvæmd og framfylgd ábótavant. Að mati kæranda gefi umfjöllun stofnunarinnar ekki raunsæa mynd af stöðu kvenna í Perú.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað perúsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé perúskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Perú m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og er eftirfarandi umfjöllun samantekt á helstu upplýsingum sem þar koma fram og varða mál kæranda:

  • Compilation on Peru: Report of the Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights (United Nations General Assembly, 28. ágúst 2017);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Peru (U.S. Department of State, dags. 11. mars 2020);
  • Concluding observations on the combined seventh and eigth periodic reports of Peru (Committee on the Elimination of Discrimination Against Women, 24. júlí 2014);
  • Peru 2019 Crime and Safety Report (OSAC, 23. maí 2019);
  • Peru: Domestic violence, including femicide; legislation; state protection and support services available to victims (2014- February 2018) (Immigration and Refugee Board of Canada, 13. mars 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Peru (Freedom House, 1. ágúst 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Peru (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Mointains to climb and progress made: Girls´ education in Peru (The Borgen Project, 22. júní 2018);
  • Peru: New Legislative Protection for Equal Pay (The Society for Human Resource Management (SHRM), 16. febrúar 2018);
  • Foreign travel advice: Peru (United Kingdom: Foregin and Commonwealth Office, síðast uppfært 17. mars 2020);
  • Global Health Workforce Alliance – Peru (World Health Organization, dags.) og
  • Peru: Protesters march to denounce violence against women (frétt Deutsche Welle, dags. 18. ágúst 2019).

Perú er forsetalýðveldi í Suður-Ameríku og í landinu búa um 33 milljónir manns. Árið 1956 gerðist Perú aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1978 gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Perú gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1988 og að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1982.

Helstu vandamál á sviði mannréttinda í Perú séu spilling innan stjórnkerfis, ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og mansal. Í framangreindum gögnum komi fram að glæpahópar séu vandamál og götuglæpir tiltölulega algengir, sérstaklega í Lima. Yfirvöld hafi þó á undanförnum árum handtekið, ákært og sakfellt fjölda starfsmanna hins opinbera fyrir tengsl við glæpahópa. Heimildir beri með sér að lögregluyfirvöld í Perú séu að jafnaði fagleg.

Í framangreindum skýrslum komi m.a. fram að heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi sé útbreitt auk þess sem konum sé mismunað þegar komi að menntun og atvinnutækifærum. Stjórnarskrá Perú leggi bann við mismunun, m.a. á grundvelli kynferðis auk þess sem landslög kveði á um jafnræði kynjanna og leggi bann við mismunun vegna stöðu, svo sem hjúskaparstöðu o.fl. Löggjöf kveði einnig á um sömu laun fyrir sambærilega vinnu og leggi bann við mismunun á grundvelli kyns við ráðningar. Kynbundið ofbeldi sé útbreitt í Perú og kvenmorð (e. femicide) séu vandamál. Nýlega hafi refsingar verið þyngdar fyrir slík brot og kveði á um 20 ára lágmarksrefsingu og 30 ár í tilvikum þar sem þolendur eru ungmenni, eldri konur eða barnshafandi konur. Þá hafi verið samþykkt landsáætlun gegn kynbundnu ofbeldi fyrir árin 2016-2021, sem kveði á um ýmsar aðgerðir til að vernda konur. Þá sé starfandi ráðuneyti kvenna og einstaklinga í viðkvæmri stöðu (s. Ministerio de la Mujer y Poblaciones Vulnerables) sem hafi yfirumsjón með löggjöf og framkvæmd í málefnum kvenna og minnihlutahópa í samfélaginu með það að markmiði að eyða fátækt og skapa umhverfi sem styðji við jöfn tækifæri karla og kvenna í samfélaginu. Ráðuneytið starfræki hjálparlínu og þjónustumiðstöðvar með lögreglu, saksóknurum, ráðgjöfum og starfsmönnum í velferðarkerfinu til að aðstoða þolendur.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar að þjóðfélagshópi, sem einstæð kona. Þá sé hún í hættu vegna hárrar glæpatíðni og almenns ástands í heimaríki og skorti á lögregluvernd.

Kærandi greindi í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 18. september 2019 frá því að hún sé fædd og uppalin í bænum [...] í Perú og hafi stundað nám og starfað í fimmtán ár í Lima. Kærandi hefur að eigin sögn lokið háskólamenntun og m.a. starfað sem prófessor í heimaríki. Kærandi kvaðst óttast glæpamenn í heimaríki og að hún hafi tvisvar verið rænd. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt og ákveðið að snúa ekki aftur vegna spillingar og glæpatíðni þar í landi.

Kærandi greindi frá því í viðtalinu að hún óttist tilviljunarkennda glæpi og að yfirvöld veiti henni ekki vernd. Hún kvaðst hafa leitað aðstoðar lögreglunnar árið [...] vegna framangreinds ráns en að það hafi ekkert haft upp á sig. Þá kvaðst kærandi ekki geta fengið stuðning sem einstæð kona í heimaríki sínu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir er ljóst að töluvert sé um glæpi í heimaríki kæranda en morðtíðni sé þó með því lægsta sem þekkist í rómönsku Ameríku. Þá benda gögnin til þess að konur sæti mismunun á vinnumarkaði og menntakerfinu auk þess sem heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum sé vandamál þar í landi. Engu að síður benda gögn ekki til þess að einstæðar konur eigi almennt á hættu meðferð í heimaríki kæranda sem jafnist á við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga eða að kærandi sé útsettari en aðrar konur í hennar stöðu fyrir slíkri hættu. Kærandi hefur því ekki lagt grunn að þeirri málsástæðu að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna, eða að þær ofsóknir sem hún kveðst óttast séu af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. laganna, sbr. 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3 gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3 gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendingaÞar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er heilsuhraust. Hún hafi greint frá því að hún glími við háan blóðþrýsting og að hún taki lyf vegna þess. Heilbrigðisaðstæður kæranda eru því ekki þess eðlis að þær leggi grundvöll að veitingu dvalarleyfis skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að félagslegar aðstæður kvenna í heimaríki sínu séu bágbornar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærandi hefur greint frá því að hún sé menntaður [...] og hafi m.a. starfað sem prófessor í heimaríki. Þá hafi hún greint frá því að hún eigi fasteign með systur sinni í [...] og fjölskyldu í Perú, en systir hennar og faðir eru að sögn kæranda búsett í [...] sem er um 200 km sunnar í landinu. Þó svo að fallast megi á að kynbundið ofbeldi sé nokkuð algengt í heimaríki kæranda hefur hún ekki lagt fram eða vísað til gagna sem sýna fram á að félagslegar aðstæður hennar við endurkomu til heimaríkis séu slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að hún óttist glæpahópa í heimaríki. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi kveðst hafa verið rænd tvisvar í heimaríki, fyrst árið [...] og síðar árið [...]. Þó svo að engin gögn liggi fyrir um þau atvik er ekki ástæða til að draga í efa að hún hafi verið þolandi nefndra glæpa og liðið fyrir það andlega um tíma. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður kæranda í heimaríki telur kærunefnd hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á að þær séu svo alvarlegar að þær leggi grundvöll að veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð og úrlausn Útlendingastofnunar í máli hennar. Kærunefnd hefur yfirfarið öll gögn málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um aðstæður í heimaríki kæranda. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 2. nóvember 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 7. nóvember 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.Undirritað rafrænt

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta