Skýrsla um stöðu heimsmarkmiðanna á Íslandi send til Sameinuðu þjóðanna
Íslensk stjórnvöld hafa sent svokallaða landrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til stofnunarinnar. Skýrslan verður kynnt á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, High Level Political Forum on Sustainable Development, í New York þann 18. júlí nk.
Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi. Þar er einnig umfjöllun um smitáhrif (e. spillover effects) Íslands, sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands. Þar er átt við þau áhrif sem aðgerðir innanlands geta haft á getu annarra landa til þess að ná heimsmarkmiðunum. Stjórnvöld munu standa fyrir sérstökum hliðarviðburði um smitáhrif í tengslum við ráðherrafundinn í New York í júlí.
Í skýrslunni er að finna stöðumat stjórnvalda sem nálgast má á mælaborði á vefsíðu heimsmarkmiðanna á Íslandi. Til samanburðar er þar einnig stöðumat frjálsra félagasamtaka, sem er nýjung frá því að fyrsta skýrslan var birt árið 2019.
Skýrslan er afrakstur víðtæks samráðs og samstarfs ýmissa hagaðila. Hún var skrifuð af samráðsvettvanginum Sjálfbæru Íslandi. Í henni er einnig að finna kafla sem skrifaðir voru af Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Skýrsluna má nálgast hér: Landrýniskýrsla Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2023