Hoppa yfir valmynd
23. desember 2021 Innviðaráðuneytið

Endanleg framlög Jöfnunarsjóðs fyrir 2021 - útgjaldajöfnunarframlög hækkuð fyrir árið 2022

Innviðaráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun tekjujöfnunarframlags, útgjaldajöfnunarframlags og framlags vegna tekjutaps fasteignaskatts fyrir árið 2021. Þá hefur ráðherra samþykkt tillögur um útgjaldajöfnunarframlög fyrir árið 2022 og úthlutun framlaga vegna nemenda sem þurfa að sækja tónlistarskóla utan síns sveitarfélags fyrir skólaárið 2021-2022.

Útgjaldajöfnunarframlög 2021

Ráðherra samþykkti tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2021, skv. 14. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 1088/2018. Samþykkt var að hækka útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins vegna ársins 2021 um 600 m.kr. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi.

Nema framlögin samtals 11.600 m.kr. þar af eru framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli á árinu samtals að fjárhæð 750 m.kr og framlög vegna akstursþjónustu fatlaðra úr dreifbýli að fjárhæð 18 m.kr. Til greiðslu á árinu hafa komið samtals 8.664 m.kr. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 2.936 m.kr. koma til greiðslu milli jóla og nýárs. Meðtalin í þeirri greiðslu eru viðbótarframlög vegna skólaaksturs að fjárhæð 175 m.kr. og framlög vegna akstursþjónustu fatlaðra úr dreifbýli að fjárhæð 18 m.kr. 

Tekjujöfnunarframlög 2021

Þá var samþykkt tillaga ráðgjafarnefndarinnar um endurskoðaða úthlutun tekjujöfnunarframlaga fyrir árið 2021, skv. 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 1088/2018. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna á árinu 2020.

Heildarúthlutun tekjujöfnunarframlaga í ár nemur 1.400 m.kr. Um ¾ hlutar framlaganna að fjárhæð 1.050 m.kr. komu til greiðslu í nóvember. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 350 m.kr. koma til greiðslu milli jóla og nýárs.

Framlag til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts 2021 

Ráðherra samþykkti jafnframt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs um endurskoðaða úthlutun framlags til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts fyrir árið 2021, skv. reglugerð nr. 80/2001. Endurskoðunin tekur mið af auknu ráðstöfunarfjármagni sjóðsins til greiðslu framlagsins.

Heildarúthlutun framlagsins í ár nemur 4.599,3 m.kr. Nú þegar hafa 4.206,4 m.kr. komið til greiðslu. Eftirstöðvar framlagsins að fjárhæð 392,9 m.kr. koma til greiðslu milli jóla og nýárs.

Útgjaldajöfnunarframlög 2022

Innviðaráðherra samþykkti einnig tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að hækka útgjaldajöfnunarframlag sjóðsins vegna ársins 2022 um 400 m.kr. Áætlað framlag skv. A-hluta framlaganna nemur því 10.800 m.kr. 

Áætlað framlag vegna B-hluta útgjaldajöfnunarframlaga ársins nemur 575 m.kr. en í lok árs 2022 verður úthlutað 175 m.kr. á grundvelli umsókna frá sveitarfélögum vegna íþyngjandi kostnaðar við skólaakstur á árinu 2022 umfram tekjur. Jafnframt er áætlað að 50 m.kr. verði úthlutað vegna akstursþjónustu úr dreifbýli á árinu 2022. 

Samtals nema því áætluð útgjaldajöfnunarframlög 11.600 m.kr. á árinu 2022.

Framlög Jöfnunarsjóðs vegna nemenda sem sækja tónlistarnám utan síns sveitarfélags skólaárið 2021-2022

Ráðherra samþykkti loks tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutun framlaga vegna nemenda sem þurfa að sækja tónlistarskóla utan síns sveitarfélags fyrir skólaárið 2021-2022, á grundvelli 7. gr. reglna frá 31. ágúst 2016. Framlagið byggist á samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.

Framlag á hvern nemenda fyrir skólaárið 2021-2022 er 488.851 kr. og samþykktar voru umsóknir fyrir 17 nemendur. Heildarupphæð framlaga er því um 8,3 m.kr. sem greiðist í jöfnum greiðslum á tólf mánuðum. Við greiðslu framlagsins fyrir desember fer jafnframt fram greiðsla vegna framlaga fyrir september, október og nóvember. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta