Framkvæmdir hafnar við stækkun BUGL
Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók fyrstu skóflustungu að byggingu nýs húsnæðis fyrir göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss við Dalbraut 12 í dag. Þá voru undirritaðir samningar um framkvæmd verksins við verktakafyrirtækið Framkvæmd ehf. Húsnæðinu verður skilað fullbúnu í maí á næsta ári.
Ákveðið hefur verið að byggja upp og endurbæta húsnæði barna- og unglingageðdeildar, BUGL, við Dalbraut 12. Fyrirhugað er að vinna verkið í fjórum áföngum:
1. Nýbygging göngudeildar
2. Nýbygging iðjuþjálfunar og skóla
3. Viðbygging og endurinnrétting innlagnadeilda
4. Endurinnrétting sameiginlegs hluta göngu- og innlagnadeilda
Í mars 2006 lá fyrir frumkostnaðaráætlun vegna allra áfanganna fjögurra sem unnin var af Arkís ehf., alls um 650 milljónir króna. Fyrsti áfanginn, nýbygging göngudeildar, var boðinn út í desember 2006 og bárust 14 tilboð. Lægsta tilboð átti Framkvæmd ehf. sem bauð 275 milljónir króna eða 95,6% af kostnaðaráætlun.
Við uppbyggingu BUGL er byggt á þeirri stefnu Landspítala-háskólasjúkrahúss að efla dag- og göngudeildarþjónustu og leggja meiri áherslu á meðferðarrými fyrir einstaklinga og hópa en hefðbundin legurými. Með byggingu fyrsta áfanga, þ.e. nýbyggingu göngudeildar, verður umtalsvert rýmra um göngudeildarþjónustuna og vegur þar þyngst fjölgun viðtalsherbergja og meðferðarherbergja.
BUGL sinnir þjónustu við börn og unglinga um allt land. Deildin skiptist í barnadeild, unglingadeild og göngudeild. Göngudeildin skiptist m.a. í almenna göngudeild, átraskanateymi, vettvangs- og bráðateymi og fjölskylduteymi. Komur á göngudeildina voru tæplega 5000 árið 2006 og hefur komum fjölgað um tugi prósenta á síðustu árum.
Nýtt húsnæði göngudeildar mun stórbæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks BUGL. Viðbyggingin verður 1244 fermetrar, tvær hæðir og kjallari. Á efri hæðunum tveimur verður móttaka og skrifstofur en í kjallara verður matsalur, geymslur og vinnuaðstaða. Grafið verður frá kjallaranum og hægt að ganga þaðan út í garð. Byggingin verður tengd núverandi húsi með glerjuðum tengigangi og ný aðkoma verður gerð að húsinu frá Dalbraut þar sem verða bílastæði.
Fjöldi félagasamtaka hefur stutt við áform um uppbyggingu barna- og unglingageðdeildarinnar með myndarlegum gjöfum. Má þar nefna Kvenfélagið Hringinn, Barnaheill, Thorvaldsenfélagið, Kiwanis, Lionshreyfinguna, kvenfélagasamtök og marga fleiri, einstaklinga og fyrirtæki.
Verkkaupi framkvæmdarinnar er Landspítali-háskólasjúkrahús fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Umsjón með framkvæmdunum hefur Framkvæmdasýsla ríkisins. Byggingin er hönnuð af Arkís ehf., hönnun lóðarinnar annaðist Landhönnun ehf., Línuhönnun hf. hannaði burðarþol og lagnir og Raftæknistofan ehf. raflagnir.