Opnað á endurgreiðslu á milliuppgjörum vegna kvikmyndaframleiðslu
Í dag var í Stjórnartíðindum birt reglugerð frá ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem heimilar framleiðendum kvikmynda að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu á milliuppgjörum verkefna sem þegar hafa fengið vilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar. Með breytingunni er komið til móts við framleiðendurnar vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft á kvikmyndagerð á Íslandi.
Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum frá stjórnvöldum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Endurgreiðslurnar heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem hefur falið Kvikmyndamiðstöð Íslands umsjón þeirra.
COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft töluverð áhrif á kvikmyndagerð á Íslandi, þar sem frestað hefur þurft tökum og framleiðslu á verkefnum. Þá hefur frumsýningum einnig verið frestað vegna lokunar kvikmyndahúsa. Fjármögnun flestra íslenskra kvikmynda og útgreiðsla styrkja er háð framvindu verkefna og lokum þeirra. Þannig greiða flestir sjóðir lokagreiðslu sína við skil á verkefnum og frumsýningu. Við frestun frumsýninga frestast því greiðslurnar og hefur þetta töluverð áhrif á greiðsluflæði verkefnanna.
Með reglugerðarbreytingunni verður framleiðendum heimilt, á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí 2020, að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta. Þetta á við verkefni sem áður hefur fengið vilyrði fyrir endurgreiðslum, þó framleiðslu sé ekki lokið. Þessi hlutaendurgreiðsla kemur til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör. Sérstök skilyrði eru sett fyrir hlutaendurgreiðslunni, m.a. um áhrif COVID-19 á verkefnið.