Námsframboð eykst í Vestmannaeyjum: íþróttafræði á háskólastigi
„Við viljum efla háskólanám á landsbyggðinni og auka samstarf menntastofnana vítt og breitt um landið. Þetta framtak er liður í því. Samningurinn nú nær til næstu tveggja skólaára og ég bind vonir við að nemendur sjái tækifæri í þessari nýju námsleið og nýti sér hana. Það er öflugt íþróttalíf í Vestmannaeyjum og íþróttafræðin er spennandi fag og starfsvettvangur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Háskólinn í Reykjavík ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd námsins en Vestmannaeyjabær mun leggja til íþróttamannvirki til kennslu í verklegum greinum, svo sem handknattleik, knattspyrnu og sundi, og jafnframt leggja til aðstöðu fyrir nemendur til að stunda fjarnám gegnum Þekkingarsetur Vestmannaeyja. Nánar má fræðast um nám í íþróttafræði á vef Háskólans í Reykjavík.