Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skilgreining á grunnþjónustu sveitarfélaga

Velferðarvaktin hefur skilgreint hvað felst í grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga og sett fram ábendingar um hvaða leiðir skuli fara til að verja grunnþjónustuna þegar teknar eru ákvarðanir um hagræðingu og niðurskurð. Skýrsla um málið var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Í tengslum við framfylgd stöðugleikasáttmálans frá 25. júní 2009 var velferðarvaktinni falið „að leita leiða í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins til að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélaga“. Settur var á fót vinnuhópur um verkefnið á vegum velferðarvaktarinnar þar sem sátu fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtaka, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyta.

Í greinargerð hópsins er bent á að iðulega sé vísað til hugtaksins „grunnþjónustu“ í umræðu um hagræðingu og niðurskurð: „Einhugur er um að leitast við að vernda grunnþjónustuna en flóknara er að komast að niðurstöðu um hvað felist í hugtakinu. Ekki verður hjá því komist að forgangsraða innan allrar stjórnsýslunnar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, og því er nauðsynlegt að greina á milli grunnþjónustu og annarrar þjónustu“, segir í greinargerðinni.

Samkvæmt skilgreiningu velferðarvaktarinnar er grunnþjónusta í fyrsta lagi lögbundin lágmarksþjónusta sem ekki verður skert án lagabreytinga. Í öðru lagi felur hún í sér tiltekið þjónustustig lögbundinnar þjónustu sem hefð hefur skapast um að standi einstaklingum og fjölskyldum til boða þótt það sé ekki skilgreint í lögum. Í þriðja lagi er um að ræða ólögbundna þjónustu sem einstaklingar með sérþarfir vegna fötlunar eða heilsubrests þurfa á að halda við athafnir daglegs lífs og til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Velferðarvaktin beinir eftirfarandi ábendingu til stjórnvalda sem hafa þarf í huga þegar ákvörðun er tekin um að draga úr tiltekinni þjónustu vegna efnahagsástandsins:

  • Standa verður vörð um grunnþjónustuna og má ekki draga úr henni gagnvart viðkvæmustu hópunum.
  • Fullnægjandi upplýsingar verða að vera fyrir hendi um áhrif og afleiðingar ákvörðunar á notendur. Í því felst að ákvörðunina er best að taka í anda opins lýðræðis í fullu samráði við þá sem hún snertir, þar með talda notendur og þeirra samtök ef við á og eftir atvikum aðstandendur og sérfræðinga á viðkomandi sviði. Enn fremur ber að leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins þegar ákvörðunin snertir þá.
  • Flötum niðurskurði verði ekki beitt sem leggst af fullum þunga á notendur heldur er ákvörðun tekin um hagræðingu á afmörkuðu sviði og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum sem mildar afleiðingar niðurskurðarins.
  • Gæta verður jafnræðis, samræmis og meðalhófs í hvívetna og að tilteknir hópar notenda finni ekki meira en aðrir fyrir hagræðingaraðgerðum.
  • Hagræðing og sparnaður á einum stað má ekki leiða til aukinna útgjalda og álags á öðrum sviðum hins opinbera. Sérstaklega þarf að gæta að því að útgjaldaliðir séu ekki færðir milli ríkis og sveitarfélaga án þess að gerðar séu um leið breytingar á tekjustofnum.
  • Þegar ákvörðun um hagræðingu er birt skal taka fram hvort um sé að ræða tímabundna ráðstöfun og þá til hve langs tíma eða varanlega ákvörðun. Allar neyðaraðgerðir sem gripið er til á erfiðum tímum þurfa að vera þess eðlis að unnt sé að leiðrétta þær aftur þegar betur árar, án þess að skaði hafi orðið af.
  • Við hagræðingu í skólastarfi verði lögð áhersla á að fá nærsamfélagið til samstarfs, ekki síst foreldra og þriðja geirann.

Sé sparnaði beitt án þess að gripið sé til mótvægisaðgerða, með áherslu á að tryggja gæði þjónustunnar og jafnræði, er ekki um hagræðingu að ræða heldur niðurskurð. Sveitarfélög og stofnanir ríkisins eru hvött til að setja saman lista yfir þá þjónustu sem ekki má skerða og hafa framangreind atriði að leiðarljósi við hvert skref.

Greinargerð um grunnþjónustu og aðferðir við hagræðingu í efnahagsþrengingum

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta