Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 128/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 128/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16010044

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. janúar 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 29. september 2015. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi, Bretlandi og Svíþjóð. Þann 15. október 2015 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 20. október sl. barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 20. janúar 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 26. janúar sl. til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 27. janúar 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 15. febrúar sl. Viðbótargögn í málinu bárust kærunefnd þann 22. febrúar og 15. mars sl. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 24. febrúar 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi ekki getað sýnt fram á að hann hafi dvalið utan Evrópu frá því að hann yfirgaf Þýskaland. Því hafi ekki verið tekið til skoðunar hvort einhverjar ástæður mældu gegn því að kærandi yrði sendur til Þýskalands.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Þá sagði í ákvörðuninni að ekkert benti til annars en að kærandi gæti fengið læknis- eða sálfræðiþjónustu í Þýskalandi óski hann eftir henni. Jafnframt séu engin gögn sem leiði líkur að því að ábyrgð Þýskalands hafi fallið niður.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hann hafi orðið fyrir ofbeldi, [...], í hælisbúðum í [...]. Fremstur í flokki hafi verið meðlimur í [...]og hafi þeir verið herbergisfélagar. Kærandi hafi oft beðið öryggisverði í búðunum að vera færður annað en hann hafi ekki getað sagt þeim ástæður þess því hann hafi hræðst herbergisfélaga sinn og menn hans. Sá maður hafi varað hann við því að leita sér aðstoðar og hótað því að skaða bróður kæranda. Kærandi kveður þau samtök sem herbergisfélagi hans tilheyri hafi ítök í [...] og Þýskalandi.

Kærandi kveðst hafa yfirgefið Þýskaland án þess að hafa fengið hælisviðtal. Hann hafi farið til Tyrklands þar sem hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði og hann hafi lagt fram gögn því til staðfestingar. Í gögnum málsins sé að finna stimpla inn og út af Schengensvæðinu. Hann hafi þó neyðst til þess að notast við fölsuð skilríki til þess að komast aftur til Evrópu. Kærandi kveðst hafa sótt um hæli í Tyrklandi og skráð sig hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Dvöl hans í Tyrklandi lengur en í þrjá mánuði leiði til þess að ábyrgð Þýskalands á umsókn hans um hæli sé fallin niður.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé í viðkvæmu andlegu ástandi vegna þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir. Hann hafi ekki fengið þá vernd sem hann hafi óskað eftir í Þýskalandi og hann treysti því ekki þýskum stjórnvöldum til þess að veita sér vernd eftir reynslu hans í hælisbúðum þar í landi. Kærandi telji ljóst að hann muni vera sendur aftur til þeirrar borgar sem hann dvaldi í. Það hafi áður verið vandamál fyrir hann að biðja um flutning í aðrar hælisbúðir. Því telji hann að hann geti ekki dvalið í Þýskalandi óáreittur og fengið úr hælisumsókn sinni skorið án þess að óttast um öryggi sitt.

Í greinargerð kæranda er vísað til Dyflinnarreglugerðarinnar, d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Ákvæði 1. mgr. 46. gr. a kveði á um heimild til stjórnvalda til þess að synja hælisumsókn um efnismeðferð, en ekki skyldu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að álag sé á hæliskerfi Þýskalands í ljósi aukningar hælisumsókna þar í landi. Þýskaland sé meðal þeirra Evrópulanda sem taki við hvað flestum hælisleitendum. Móttökumiðstöðvar séu mjög fjölmennar og jafnvel yfirfullar. Ekki fáist fjármunir til þess að veita

hælisleitendum viðeigandi og mannúðlega þjónustu auk þess sem engar samræmdar reglur séu um aðbúnað fólks í slíkum miðstöðvum. Oft sé aðbúnaður ekki eins og best verði á kosið, t.d. varðandi hreinlæti. Þá sé bent á að Þýskaland hafi ekki innleitt móttökutilskipun Evrópusambandsins að fullu. Þá sé vakin athygli á því að þrátt fyrir nýlega löggjöf í Þýskalandi sem rýmki möguleika hælisleitenda til atvinnu sé raunveruleikinn annar í framkvæmd. Jafnframt beri gögn frá janúar 2015 það með sér að það taki tæplega 19 mánuði að fá niðurstöðu í hælismál einstaklinga frá [...]. Það megi búast við lengri málsmeðferðartíma nú vegna álags á þýska hæliskerfinu.

Hælisleitendur í Þýskalandi njóti takmarkaðrar lögfræðiaðstoðar við hælismál sitt. Þeir hafi ekki sjálfkrafa aðgang að lögfræðiaðstoð heldur sinni góðgerðarfélög og frjáls félagasamtök slíkri þjónustu, en það sé bundið við ákveðin svæði í Þýskalandi og standi ekki alltaf til boða. Ekkert kerfi sé til staðar sem tryggi hælisleitendum aðgang að lögfræðiaðstoð áður en hælisviðtal fer fram. Hælisleitendur verði að greiða sjálfir fyrir lögfræðiþjónustu á fyrsta stjórnsýslustigi. Fari þeir með málið fyrir dómstóla geti þeir sótt um gjafsókn og hvort fallist verði á slíka beiðni velti á því hversu líklegt dómstólnum þyki að fallist verði á hælisumsóknina, en sami dómstóll taki ákvörðun um gjafsókn og dæmi í hælismálinu. Eins og þetta fyrirkomulag um réttaraðstoð sé virðist möguleiki hælisleitenda á að gæta réttinda sinna takmarkaður.

Kærandi kveður andlegt ástand sitt slæmt, sem hafi verið staðfest af sálfræðingi. Í vottorði sem skilað hafi verið til Útlendingastofnunar þann 15. janúar 2016 komi fram að ljóst sé að kærandi sé að vinna úr erfiðum áföllum vegna [...]ofbeldis og pyndinga sem hann hafi orðið fyrir í Þýskalandi. Hann [...] og glími við [...]. Þá liggi jafnframt fyrir vottorð í gögnum málsins frá þýskum sálfræðingi frá árinu 2013. Kærandi hafi oftar en einu sinni [...]. Þá sé ekki tryggt samkvæmt þýskum lögum að sérstaklega viðkvæmir einstaklingar eigi rétt á sérstökum búsetuúrræðum. Kærandi hafi verið með einstaklingi í herbergi frá sama landi en þeir hafi verið með ólíkan [...]bakgrunn. Hann hafi upplifað áframhaldandi ofsóknir af sama meiði og hann hafi flúið frá [...]. Í greinargerð kæranda er vísað til skýrslu Evrópuþingsins um móttöku flóttakvenna og hælisleitenda í Evrópusambandinu um Þýskaland, frá febrúar 2016. Þar komi m.a. fram að aðstaða viðkvæmra hælisleitenda sé bágborin í hæliskerfi Þýskalands. Búsetuúrræði séu yfirfull og fjölmennið hindri að sérstaklega berskjaldaðir einstaklingar fái viðunandi þjónustu. Aðstæður þar séu slíkar að þær skapi hættu á [...]. Þar sem Þýskaland sé sambandsríki telji kærandi ljóst að hann yrði sendur aftur á sama stað í Þýskalandi. Í viðtökusamþykki þýskra stjórnvalda komi fram að flytja skuli kæranda til [...], sem sé staðsett í [...], þar sem kærandi hafi verið í hælisbúðum. Því sé ljóst að kærandi verði sendur á sama stað í ómannúðlegar aðstæður, verði hann endursendur til Þýskalands.

Kærandi byggir einnig kröfur sínar á því að með ákvörðun Útlendingastofnunar hafi stofnunin brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað stöðu hans í Þýskalandi, hvert hann yrði sendur og hvaða aðstæður bíði hans né möguleika hans á að fá viðunandi meðferð þar í landi. Beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Þá er af hálfu kæranda vísað til tillagna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að takast á við komu flóttamanna til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Þar sé biðlað til Evrópuríkja að beita fullveldisreglu Dyflinnarreglugerðar, m.a. með það að markmiði að létta á því álagi sem sé á fáeinum ríkjum, þar á meðal Þýskalandi. Þá hafi European Council on Refugees and Exiles sett fram sambærilegar tillögur. Það sé mat kæranda að rík ástæða sé til þess að íslensk stjórnvöld beiti heimild 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga, sbr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, í máli kæranda. Hann sé frá

[...] og hafi upplifað ofsóknir og pyndingar þar í landi auk áðurgreinds ofbeldis í flóttamannabúðum í Þýskalandi. Því sé hann í viðkvæmri stöðu vegna andlegs ástands síns og flutningur yrði honum þungbær.

Undir meðferð máls kæranda hjá kærunefnd hefur hann skilað inn gögnum um andlega heilsu sína, m.a. vottorði frá [...], sálfræðingi á [...], vottorði frá [...], greinargerð [...], sálfræðings, og vottorði frá [...], lækni á heilsugæslunni [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Þýskalands. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og skuli taka hana til efnislegrar meðferðar.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt frásögn kæranda varð hann fyrir [...] ofbeldi í heimalandi sínu. Kærandi hafi [...] bæði verið beittur [...] ofbeldi og verið neyddur til þess að [...] gegn öðrum einstaklingum. Þá hefur kærandi einnig greint frá því að hann hafi verið beittur [...] ofbeldi í hælisbúðum þar sem hann dvaldi [...] í Þýskalandi. Kærandi kveður herbergisfélaga sinn hafa verið aðalgeranda ofbeldisins en hann sé meðlimur í [...]og hafi verið einn þeirra sem hafi pyntað kæranda og beitt hann ofbeldi í fangelsinu í [...]. Sá maður hafi

jafnframt hótað því að skaða bróður kæranda, myndi hann leita sér aðstoðar vegna ofbeldisins. Kærandi kveðst ítrekað hafa óskað eftir því við starfsfólk hælisbúðanna að vera færður annað en ekkert hafi verið gert. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi verið [...] í Þýskalandi. Þar hafi hann leitað til hjálparsamtakanna Caritas og óskað eftir aðstoð þeirra við að fá sig fluttan í aðrar hælisbúðir en það hafi ekki leitt til þess að hann hefði verið færður.

Samkvæmt samþykki þýskra stjórnvalda um endurviðtöku á kæranda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, dags. 20. október 2015, er óskað eftir því að kærandi verði endursendur á flugvöllinn í [...] í Þýskalandi. Borgin [...] er staðsett í sambandsríkinu [...]. Í Þýskalandi ráða hælisleitendur ekki hvar þeir búa á meðan mál þeirra er til meðferðar hjá stjórnvöldum. Sérstakt kerfi er notað þar í landi til þess að dreifa einstaklingum í hælismeðferð um landið, þ.e. á milli ríkja Þýskalands. Við dreifinguna er m.a. horft til þess frá hvaða ríkjum hælisleitendurnir eru og er líklegt að einstaklingar frá sama landi séu hýstir á sama stað, sbr. m.a. Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015). Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að líkur séu á að kærandi yrði hýstur í sömu hælisbúðum og hann dvaldi í þar sem hann upplifði framangreint ofbeldi.

Við meðferð máls kæranda hefur hann skilað inn gögnum um andlega heilsu sína. Í vottorði sem gefið var út af [...] sálfræðingi á [...], kemur fram að kærandi hafi komið til [...] í þrjú ráðgjafaviðtöl vegna [...]. Kærandi vinni úr erfiðum áföllum vegna [...]ofbeldis og pyndinga. Hann hafi [...]. Í vottorði frá [...], undirrituðu af [...], kemur fram að kærandi hafi leitað til [...] með það í huga að vinna úr afleiðingum [...]. Kærandi hafi lýst því að hann hafi verið að glíma við [...]. Þetta séu algengar afleiðingar hjá einstaklingum sem [...].

Í vottorði [...], læknis á heilsugæslunni [...], kemur meðal annars fram að kærandi hafi [...] í eitt skipti. Í viðtali hafi undirrituð merkt greinilega vanlíðan hjá kæranda við að tala um erfiða reynslu og þá sérstaklega þá sem hann varð fyrir í Þýskalandi. Kærandi [...]

Þá skilaði kærandi inn greinargerð [...] sálfræðings, dags. 7. mars 2016, um sálfræðilegt mat á andlegri líðan kæranda. Í niðurstöðu undirritaðs sálfræðings kemur fram að það sé ekki vafi í huga hans að kærandi þjáist af [...]. Einnig sé kvíði greinilega mikill og kærandi komi fyrir sem einstaklingur sem þjáist af þunglyndi. [...] sé hins vegar erfiðara að eiga við og [...] kæmi til með að krefjast sérhæfðrar sálfræðimeðferðar. Hér sé um að ræða andlega veikan og viðkvæman einstakling sem á sama tíma virðist gæddur ágætis gáfum og getu til að takast á við vanda sinn með réttri aðstoð.

Kærunefnd telur ljóst að ástand kæranda sé alvarlegt. Um það liggja fyrir ítarleg gögn frá sálfræðingum og lækni. Í ljósi aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar útlendingamála að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna heilsufarsástæðna.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting þýskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hans liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Sérstaklega er litið til þess að líkur séu á að við endursendingu kæranda til Þýskalands verði hann hýstur í sömu hælisbúðum og þeim sem hann dvaldist í áður og varð fyrir áðurgreindu ofbeldi, sem er helsta rót þeirrar andlegu vanlíðanar og veikinda sem kærandi þjáist af í dag. Niðurstaða kærunefndar byggist á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda, þar með talið ástæðu flótta kæranda frá heimaríki sínu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn [...] til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of [...] application for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta