Landsskipulagsstefna 2015–2026 samþykkt á Alþingi
Alþingi samþykkti í gær 16. mars sl. þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026. Samþykkt hennar markar tímamót í skipulagsmálum hér á landi þar sem í fyrsta sinn er sett fram heilstæð stefna ríkisins á landsvísu um skipulagsmál. Landsskipulagsstefna samþættir áætlanir á vegum stjórnvalda um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra landnýtingu. Með stefnunni hafa sveitarfélög aðgang að stefnu ríkisvaldsins um skipulagsgerð á einum stað. Landsskipulagsstefnan setur fram stefnu um fjögur viðfangsefni, þ.e. skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum.
Í landsskipulagsstefnu er lagt til grundvallar að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, skipulagið sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum, það stuðli að lífsgæðum fólks og styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta. Hvert viðfangsefni setur fram yfirmarkmið og einnig markmið sem varða einstaka efnisþætti eða málaflokka eins og byggð, náttúruvernd, orkuvinnslu eða samgöngur. Markmiðum er svo fylgt eftir með aðgerðum eða leiðum.
Í landsskipulagsstefnu eru sett fram sjónarmið og áherslur í skipulagsmálum, sem er til útfærslu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, en sveitarfélögum ber að taka mið af stefnunni við gerð skipulagsáætlana. Landsskipulagsstefna getur einnig haft áhrif á áætlanir stjórnvalda á landsvísu í málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun.
Auk þess að vera framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga og áætlanagerð ríkisins, felur landsskipulagsstefna einnig í sér tiltekin verkefni, svo sem leiðbeiningar- og þróunarverkefni, til að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd.
Við mótun landsskipulagsstefnu var lögð rík áhersla á opið samráðsferli og gegnsæi, til að stuðla að sem breiðastri samstöðu um inntak hennar og áherslur. Nálgast má upplýsingar um vinnslu tillögunnar á www.landsskipulag.is