Mál nr. 17/1995
ÁLITSGERÐ
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 17/1995
Ákvörðunartaka: Gervihnattadiskur.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 2. maí 1995, óskaði stjórn Húsfélagsins X eftir áliti nefndarinnar vegna ágreinings um skyldu íbúa hússins til að taka þátt í kostnaði við kaup og uppsetningu á gervihnattadiski fyrir húsið.
Með bréfi kærunefndar til álitsbeiðanda, dags. 8. s.m., var þess farið á leit við álitsbeiðanda að erindið yrði lagfært í samræmi við ákvæði 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús til að nefndin gæti tekið það til umfjöllunar. Við þessu var orðið með bréfi dags. 7. júlí sl. Kærunefnd fjallaði um erindið á fundum 5. og 10. júlí sl. Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, sbr. 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi kærunefndar 3. ágúst sl., en athugasemdir bárust ekki frá gagnaðila innan tilskilins frests.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Um er að ræða fjölbýlishúsið X sem er einn stigagangur með 47 íbúðum. Húsið er hluti af svonefndum Y sem samanstendur af u.þ.b. 12 stórum fjölbýlishúsum.
Á húsfundi, sem haldinn var 23. janúar sl., var samþykkt með 15 atkvæðum gegn atkvæði gagnaðila (með voru 37,68% en á móti 2,68%) tillaga um að endurnýja loftnetskerfi hússins og að setja upp gervihnattadisk. Þar sem atkvæðagreiðslan fór fram á grundvelli 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994, var í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laganna boðað til framhaldsfundar um málið 6. febrúar sl. Á þeim fundi var tillagan samþykkt samhljóða en gagnaðili var ekki á fundinum.
Álitsbeiðandi óskar álits kærunefndar á því hvort gagnaðila sé skylt að taka þátt í kostnaði af stofnframkvæmdum vegna gervihnattadisks.
Ennfremur hvort gagnaðila sé skylt að taka þátt í kostnaði við áskrift að rugluðum rásum frá gervihnöttum.
Í álitsbeiðni kemur fram að húsfélagið hafi orðið að leggja út í kostnað til að ná útsendingum Stöðvar 2 og sjónvarpsstöðvarinnar Omega. Leitað hafi verið tilboða í allt verkið og því hafi náðst hagstæð kjör. Kostnaður við endurnýjun loftnetskerfisins hafi verið um kr. 70.000,- og kostnaður við gervihnattadiskinn um kr. 350.000,-. Heildarkostnaður vegna þessa hafi verið um kr. 10.000,- á hverja íbúð. Þar af leiðandi geti ekki talist um dýran búnað að ræða í skilningi 11. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.
Þá geti gervihnattadiskur ekki talist óvenjulegur búnaður, enda séu 5 stór fjölbýlishús af 12 í hverfinu með slíka diska og 4 hús til viðbótar séu tengd slíkum diskum. E_á séu gervihnattadiskar í öðrum húsum í nágrenninu, bæði fjölbýlis- og einbýlishúsum.
Á álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili telji sig ekki þurfa að taka þátt í kostnaði við búnaðinn þar sem um mjög óvenjulegan og dýran búnað sé að ræða í skilningi 11. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.
III. Forsendur.
Í 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er að finna reglur varðandi ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum. Samkvæmt D-lið þeirrar greinar er meginreglan sú að til ákvarðana húsfélags þurfi samþykki einfalds meirihluta eigenda, miðað við hlutfallstölur, á löglega boðuðum húsfundi. Slík ákvörðun er bindandi fyrir aðra íbúðareigendur þrátt fyrir að þeir séu henni mótfallnir. Í A-, B- og C-liðum 41. gr. er að finna undantekningar frá meginreglunni um tiltekin málefni.
Stjórn Húsfélagsins X lagði fyrir húsfund þann 23. janúar sl. tillögu um að endurnýja loftnetskerfi hússins til að þar næðust nýjar útsendingar frá Stöð 2, Omega og sjónvarpsefni frá gervihnetti. Eftir því sem fram kemur í fundargerð var tillagan borin undir atkvæði í einu lagi og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Á húsfundi 6. febrúar sl. var sama tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, skv. fundargerð.
Samþykkt tillögu hússtjórnar varðandi gervihnattadiskinn byggðist skv. fundargerð á 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994. Þar er gert ráð fyrir að samþykki 2/3 hluta íbúðareigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, þurfi til endurbóta, breytinga og nýjunga, sem ganga verulega lengra og eru verulega dýrari og umfangsmeiri en venjulegt og nauðsynlegt viðhald.
Gagnaðili telur á hinn bóginn að hann sé undanþeginn þátttöku í kostnaði vegna þessarar ákvörðunar meirihluta húsfélagsins þar sem hún falli undir 11. tl. A-liðar 41. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að samþykki allra eigenda þurfi til ákvarðana um mjög óvenjulegan og dýran búnað og annað sem almennt tíðkast ekki í sambærilegum húsum.
Kærunefnd telur að túlka beri 9. tl. B-liðar 41. gr. þannig, að þar sé fyrst og fremst átt við endurbætur, breytingar og nýjungar sem tengist fasteigninni og viðhaldi hennar með einhverjum hætti. Líta verður hins vegar á gervihnattadisk sem sérstakan búnað sem ekki tengist viðhaldi fasteignarinnar. Ákvæði 9. tl. B-liðar 41. gr. á því ekki við um ákvörðun um slíkan búnað. Kemur þá til skoðunar 11. tl. A-liðar 41. gr. laganna. Gervihnattadiskur er ekki venjulegur og áskilinn búnaður á fjölbýlishúsum, gagnstætt því sem er um móttökubúnað fyrir venjulegar sjónvarps- og útvarpssendingar, sbr. ákvæði kafla 8.1.20. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum. Kærunefnd telur því að uppsetning gervihnattadisks og áskrift að sjónvarpsefni í gegnum hann sé slík ráðstöfun að samþykki allra íbúðareigenda þurfi til, sbr. 11. tl. A-liðar 41. gr. Einnig ber að vísa til 12. tl. A-liðar 41. gr. þessu til stuðnings. Er gagnaðila því ekki skylt að taka þátt í kostnaði af stofnframkvæmdum vegna gervihattadisks né heldur að taka þátt í kostnaði af áskrift að sjónvarpsefni frá slíkum diski.
Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þeir íbúðareigendur sem það kjósa setji upp slíkan búnað og reki, enda hafi húsfélag heimilað slíkt.
IV. Niðurstaða.
1. Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé ekki skylt að taka þátt í kostnaði við stofnframkvæmdir vegna gervihnattadisks.
2. Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé ekki skylt að taka þátt í kostnaði við áskrift að rugluðum rásum frá gervihnöttum.
Reykjavík, 16. ágúst 1995.
Valtýr Sigurðsson
Ingólfur Ingólfsson
Karl Axelsson