Mál nr. 13/1995
ÁLITSGERÐ
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 13/1995
Gildi fyrra samþykkis: Kattahald.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 6. apríl 1995, beindu A og B til nefndarinnar ágreiningi við C um kattahald þeirrar síðastnefndu í fjölbýlishúsinu X.
Erindi þetta var fyrst tekið fyrir á fundi kærunefndar 19. apríl sl. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 var gagnaðila gefinn kostur á að tjá sig og koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Greinargerð hans, dags. 10. maí sl., var lögð fram á fundi nefndarinnar sama dag. Greinargerð gagnaðila var síðan send álitsbeiðanda til upplýsingar. Á fundi nefndarinnar 10. maí var samþykkt að beina því til gagnaðila að hann legði fram þær samþykktir sem gerðar kynnu að hafa verið í húsfélaginu X vegna viðkomandi kattar. Umbeðin gögn bárust kærunefnd 24. maí sl. Kærunefnd fór fram á læknisvottorð þann 7. júní sl. og barst það 30. júní.
Kærunefnd hefur ítrekað fjallað um málið á fundum sínum og á fundi 10. júlí sl. var það tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Ágreiningsefnið er köttur gagnaðila. Álitsbeiðandi krefst þess að kötturinn verði fjarlægður úr húsinu. Ástæða þess sé að barn álitsbeiðanda sé með astma og ofnæmi fyrir köttum. Barnið hafi reglulega fengið astmaköst og verið með mjög ljótan hósta og hafi ofnæmislæknir þess sagt að eina leiðin til að því batnaði væri að köttur gagnaðila verði fjarlægður.
Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að álitsbeiðendur hafi engar athugasemdir gert við kattahald gagnaðila fyrr en í kjölfar þess að deilur hafi spunnist um útleigu álitsbeiðanda á annars vegar bílskúr og hins vegar geymslu í kjallara.
Fyrir nokkrum árum hafi verið gerð bókun á aðalfundi húsfélagsins um að óheimilt væri að koma með ketti í húsið en köttur gagnaðila fengi að vera á meðan hann lifði. Kötturinn hafi þannig verið í húsinu þegar ný lög um fjöleignarhús hafi tekið gildi og fyrir honum samþykki. Spurt er hvort hinar ströngu takmarkanir nýju fjöleignarhúsalaganna geti tekið til þeirra katta sem þegar hafi verið í fjöleignarhúsum við gildistöku laganna. Ennfremur hafi leigjandi álitsbeiðanda verið með nokkra ketti á sínum vegum og hafi þeir verið mikið á ferli í stigagangi hússins, sérstaklega á 1. hæðinni, en álitsbeiðandi býr á 1. hæð.
Köttinn kveðst gagnaðili hafa átt í 16 ár. Þar sem kötturinn sé orðinn svo gamall hafi hann ekki farið niður stigana í heilt ár, en fari daglega út á svalir íbúðar gagnaðila, sem sé á þriðju og efstu hæð hússins.
III. Forsendur.
Samkvæmt 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.
Fyrir liggur í málinu vottorð tiltekinna fyrrverandi og núverandi íbúðareigenda í fjölbýlishúsinu X, dags. 12. maí sl., um að á fundi húsfélagsins fyrir ca. 4 árum hafi verið bókað að framvegis mætti ekki koma með ketti til dvalar í húsinu en þeir kettir sem fyrir væru mættu vera á meðan þeir lifðu.
Í læknisvottorði, dags. 21. júní sl., kemur fram að barn álitsbeiðanda hafi "sannað ofnæmi fyrir köttum og ofnæmispróf hafa verið jákvæð". Þá hafi barnið verið með astma og þurft að vera í meðferð vegna þess.
Kattahald gagnaðila var samþykkt á fundi húsfélagsins í gildistíð eldri laga um fjölbýlishús og var samþykkið ekki bundið við neinn ákveðinn árafjölda. Það skilyrði núgildandi laga um, að samþykki allra íbúðareigenda þurfi til að hafa kött, felur í sér íþyngjandi ákvæði gagnvart þeim sem héldu kött fyrir 1. janúar 1995 og gera enn. Þar sem gilt samþykki lá fyrir varðandi kött gagnaðila, verður ekki talið að taka þurfi málið fyrir á ný til samþykktar eða synjunar í húsfélaginu vegna gildistöku hinna nýju ákvæða um kattahald. Samþykkið heldur því gildi sínu.
Ómótmælt er að leigjandi á vegum álitsbeiðanda hafi haldið ketti og þeir verið mikið á ferli í stigagangi hússins, allt þar til leigjandinn fór úr húsinu. Í erindi gagnaðila kemur fram að ráðstafanir hafi verið gerðar til að hreinsa stigahús og aðra sameign hússins og að verið sé að undirbúa hreinsun á teppum. Einnig kemur fram loforð gagnaðila um að halda kettinum innandyra.
Með tilliti til efnis ofangreinds læknisvottorðs, þess fyrirkomulags að kötturinn fer ekki út úr íbúð gagnaðila og þeirra ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar til að hreinsa stigaganginn eftir þá umferð katta sem verið hefur í honum, telur kærunefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að forsendur séu svo verulega breyttar að málið verði lagt fyrir til nýrrar ákvörðunar hjá húsfélaginu. Ef einsýnt er að áðurnefndar ráðstafanir nægi ekki og einkenna um kattaofnæmi gæti áfram hjá barni álitsbeiðanda þrátt fyrir þær, getur komið til endurskoðunar á þessari afstöðu nefndarinnar.
IV. Niðurstaða.
1. Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri ekki að fjarlægja kött sinn úr fjölbýlishúsinu X.
Reykjavík, 12. júlí 1995.
Valtýr Sigurðsson
Ingólfur Ingólfsson
Karl Axelsson