Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 403/2019

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 403/2019

Miðvikudaginn 1. apríl 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 24. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands á umsóknum kæranda um endurgreiðslu á erlendum tannlæknakostnaði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi óskaði eftir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna erlends tannlæknakostnaðar með umsókn, dags. 11. október 2018. Umsóknin var afgreidd með greiðslu 31. október 2018. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. mars 2019, var kæranda tilkynnt um að afgreiðsla á umsókn hans hafi ekki verið rétt og kærandi fékk frekari endurgreiðslu. Með umsókn, dags. 25. mars 2019, var sótt um greiðsluþátttöku vegna frekari erlends tannlæknakostnaðar og var hún afgreidd með greiðslu 23. júlí 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2019. Með bréfi, dags. 8. október 2019, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Þann 29. október 2019 ítrekaði úrskurðarnefndin bréf sitt. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. nóvember 2019, var óskað eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands vegna afgreiðslu stofnunarinnar frá 23. júlí 2019. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 11. desember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. desember 2019. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi 23. desember 2019 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 3. janúar 2019. Viðbótargreinargerð barst frá Sjúkratryggingum Íslands með bréfi, dags. 21. janúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2020, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi af bráðri nauðsyn farið til B til tannaðgerða. Kærandi hafi undirbúið sig sem best hann kunni og hann hafi meðal annars haft samband við Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands og fengið þar staðfestingu á að endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands væri hin sama og hann fengi ef hann færi til tannlækna á Íslandi. Kærandi hafi einnig lesið gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands um endurgreiðslur vegna tannlækninga aldraðara.

Aðgerðin í B hafi verið tvískipt og kæra snúi bæði að fyrri og seinni hluta aðgerðarinnar. Kærandi hafi óskað eftir endurskoðun á fyrri hluta aðgerðar hjá Sjúkratryggingum Íslands og fengið nokkra leiðréttingu. Hann hafi ætlað að láta þar við sitja en afgreiðslan á seinni hluta aðgerðar hafi breytt þessari fyrirætlan kæranda en þar hafi Sjúkratryggingar Íslands greitt honum styrk að upphæð 60.000 kr. Kærandi telji rétt að skoða aðgerðina í heild.

Samkvæmt upphaflegri áætlun hafi kostnaðurinn fyrir báða hluta verið 13.400 evrur en með afslætti og vali á ódýrari efnum og leiðum hafi kostnaður lækkað um 1000 evrur. Endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands fyrir báða hluta sé um 260.000 kr. Kostnaður kæranda hafi verið um 1.750.000 og endurgreiðsla tæplega 15%.

Kæranda þyki ósanngjarnt að hægt sé að bjóða upp á 60.000 kr. styrk í hans tilfelli sem samsvari einum þriðja af einni krónuinnsetningu heima á Íslandi. Í B hafi 25 krónur verið settar í kæranda samkvæmt reikningi sem hann hafi sent Sjúkratryggingum Íslands.

Þá vísar kærandi í 20. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar þar sem fjallað sé um þjónustu tannlækna. Þá segi í 4. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 451/2013 að Sjúkratryggingar Íslands greiði 50% af tilteknum tannaðgerðum fyrir aldraða. Þá sé fjallað um implant og fleira í 8. gr. reglugerðarinnar sem kæranda gangi illa að skilja en þar séu vissulega heimildarákvæði sem leyfi greiðsluþátttöku umfram þær 60.000 kr. sem Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt.

Svör Sjúkratrygginga Íslands á heimasíðu stofnunarinnar byggi á túlkun stofnunarinnar á rammasamningi ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands. Þar komi fram í svörum varðandi endurgreiðslur fyrir heilgóma að Sjúkratryggingar Íslands greiði 50% af kostnaði við ákveðna meðferð tannplanta, hvort sem um tannplanta í efri eða neðri gómi sé að ræða. Þá komi fram að stofnunin greiði 50% af grunnkostnaði en velji aðili dýrari leið borgi hann sjálfur umframkostnað sem af því leiði. Kærandi lesi jafnframt úr þessum svörum að skilningur Sjúkratrygginga Íslands sé sá sami og skilningur kæranda á greiðsluþátttöku stofnunarinnar í hans tilfelli.

Kærandi hafi verið í þeim aðstæðum að velja á milli þess að fá lausa góma í efri og neðri góm sem Sjúkratryggingar Íslands hefðu vissulega greitt 50% af samkvæmt gjaldskrá sem hefði í raun verið 100% greiðsla á kostnaði kæranda. Samkvæmt ráðleggingum tannlækna hafi kærandi valið þá leið sem sjá megi á meðferðaráætlunum frá tannlæknastofunni í C. Kæranda hafi þótt meðferðin skynsamleg, en hún hafi verið blanda af tannplöntum og að nota þær tennur sem hægt hafi verið að nota, og byggja á þeim fastar brýr og krónur úr postulíni. Kærandi sé nokkuð viss  um að reglugerðin um endurgreiðslu vegna tannlækninga aldraðra hafi ekki verið hugsuð sem stýritæki til að aldraðir veldu sér vondan eða verri kost í tannlækningum til að fá einhverja endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Túlkun Sjúkratrygginga Íslands sé þó greinilega á þeim nótum.

Kærandi telji eðlilegt að hann beri þann kostnað sem leiði af dýrara vali en honum finnist það líka jafn eðlilegt að Sjúkratryggingar Íslands greiði sinn grunnkostnað sem af þessari heilbrigðisaðgerð leiði en geti ekki sagt sig frá málinu vegna þess að implant og krónur komi við sögu en fyrir þann þátt sé aðeins greiddur styrkur að upphæð 60.000 kr. Ef meðferðaráætlun sé skoðuð sjáist það líka greinilega að þarna hafi verið um heildstæða aðgerð að ræða sem hafi falist í mörgu öðru en tannplöntum og krónugerð og hafi verið algjörlega eðlilegt val sem ekki eigi að refsa fyrir með því að neita allri endurgreiðslu.

Kærandi fari fram á að endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands verði eins og um lausa góma á implanta hafi verið að ræða í efri og neðri gómi, enda hafi efri gómurinn verið smíðaður í einu lagi eins og laus gómur en síðan festur með einhverju hætti sem kærandi kunni ekki að útskýra.

Í neðri gómi sé aðeins eitt implant til að búa til jaxl en síðan séu tennurnar „snikkaðar til“ þannig að þær passi fyrir góm sem sé festur með eins konar stálspöng. Sá gómur sé líka smíðaður í einu lagi eins og laus gómur og hann festur með þessari spöng.

Kærandi telji sig uppfylla öll skilyrði endurgreiðslu samkvæmt þessari heilgómareglu sem áður hafi verið nefnd.

Í athugasemdum kæranda frá 23. desember 2019 segir að það sé fráleit túlkun að kærufrestur sé liðinn vegna fyrri hluta aðgerðar. Þetta sé ein læknisaðgerð sem verði að hafa ákveðið hlé á milli verkþátta til að sjúklingur nái að jafna sig þannig að seinni hluti verði framkvæmanlegur. Verkið verði að meta í heild og það sama eigi við um greiðslur fyrir verkið.

Sjúkratryggingar telji sig hafa ofgreitt kæranda 60.000 kr. vegna þess að minna en sex mánuðir hafi liðið á milli tannplanta og vitni í samning um tannlækningar aldraða frá 2013. Samkvæmt símtali, sem kærandi hafi átt við lögfræðing í Alþjóðadeild Sjúkratrygginga, hafi komið skýrt fram að túlkun stofnunarinnar væri að nýtt tímabil hæfist alltaf um áramót.

Kærandi hafi fengið fimm implönt, tvö vinstra megin í efri góm og tvö hægra megin. Á milli séu krónur settar á hans eigin augntennur og framtennur. Í neðri gómi sé eitt implant sem stakur jaxl vinstra megin. Síðan sé eitthvað tækniundur sett innan tanna en allar framtennur að neðan séu á lausu en hans eigin tennur síðan krónaðar hægra megin. Þessar aðgerðir telji Sjúkratryggingar Íslands að falli undir tannplant og fasta góma og hámarksgreiðslu 60.000 kr. Kærandi sé því ósammála og telji að túlkun Sjúkratrygginga sýni að þegar sambærileg mál hafi komið upp þá eigi tannþegi að bera þann aukakostnað sem leiði af vali af dýrari leið en beri ekki allan kostnað.

Í athugasemdum kæranda frá 3. febrúar 2020 segir að túlkun Sjúkratrygginga Íslands á þeirri tannlæknaþjónustu, sem hann hafi notið í C, sé álitamálið. Túlkun stofnunarinnar sé í besta falli afar þröng og að mati kæranda einfaldlega röng.

Þegar meðferðaráætlun frá B sé skoðuð og borin saman við greiðsluseðla sem sýni nákvæmlega hvað hafi verið gert og hvaða efni hafi verið notað, þurfi töluvert hugmyndaflug til þess að fella þetta eingöngu undir skilgreiningu á föstum tanngervum og tannplöntum.

Kærandi hafi getað valið að fá lausa góma eða lausar brýr í stað þeirrar leiðar sem hann hafi valið. Hefði kærandi farið þá leið hefðu Sjúkratryggingar Íslands greitt þá aðgerð að fullu. Kærandi telji eðlilegast að finna út hvað það hefði kostað stofnunina hefði hann valið ódýrari leið sem hefði verið nothæf og hann greiði síðan þann umframkostnað sem hafi leitt af hans vali.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að tannmál sem þessi falli undir svokallaða landamæratilskipun, það er þegar einstaklingur velji að fá meðferð í öðru EES landi en sínu eigin, sbr. 23. gr. a. laga. nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. reglugerð nr. 484/2016 um heilbrigðisþjónustu sem sótt sé innan aðildarríkis EES-samningsins en hægt sé að veita hér á landi og um hlutverk innlends tengiliðar vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri.

Kærandi hafi farið í tannlæknismeðferð í B og samkvæmt 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. reglugerð nr. 484/2016, sé sjúkratryggðum heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri aðildarríkja EES-samningsins og fá endurgreiddan útlagðan kostnað við heilbrigðisþjónustuna eins og um þjónustu innanlands væri að ræða.

Kærandi vísi til tveggja afgreiðslna Sjúkratrygginga Íslands. Fyrri umsókn hafi borist Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands þann 11. október 2018 og verið afgreidd þann 31. október 2018. Í ljós hafi komið að afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands hafi verið röng og það hafi verið leiðrétt þann 14. mars 2019. Sjúkratryggingar Íslands telji það mál afgreitt og að kærufrestur sé liðinn hvað varði það mál.

Seinni umsókn kæranda hafi borist Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands þann 25. mars 2019 og verið afgreidd 23. júlí 2019. Seinna málið hafi nú verið endurskoðað af yfirtryggingatannlækni Sjúkratrygginga Íslands og í ljós hafi komið að ofgreiðsla hafi átt sér stað en greiðslu að upphæð 60.000 upp í kostnað við gerð steyptra króna á tennur þann 21. mars 2019 hefði ekki átt að greiða. Ekki hafi verið liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi hefði fengið 60.000 króna styrk upp í kostnað við tannplanta sem græddir hafi verið í hann 5. október 2018. Hann hafi því ekki átt að fá neinn styrk í seinna málinu.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 451/2013 og 4. málsl. í skýringum með gjaldskrá samnings um tannlækningar aldraðra og öryrkja greiði Sjúkratryggingar Íslands mest 60.000 kr. á hverju tólf mánaða tímabili upp í kostnað við föst tanngervi og tannplanta.

Að framansögðu virtu hafi kærandi fengið hærri endurgreiðslu en innlendar endurgreiðslureglur kveði á um og hafi því átt sér stað ofgreiðsla.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að hver afgreiðsla á endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar sé sjálfstæð afgreiðsla en alltaf verði að skoða innlendar endurgreiðslureglur til að meta rétt einstaklings til endurgreiðslu.

Að virtri 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 451/2013 og 4. málsl. í skýringum með gjaldskrá samnings um tannlækningar aldraðra og öryrkja hafi kærandi fengið hærri endurgreiðslu en innlendar endurgreiðslureglur kveði á um og því hafi átt sér stað ofgreiðsla. Þar sem mistök hafi verið gerð af hálfu Sjúkratrygginga Íslands muni kærandi ekki verða endurkrafinn um þessa ofgreiðslu.

VI.  Niðurstaða

Kærðar eru afgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands á umsóknum kæranda um endurgreiðslu á erlendum tannlæknakostnaði. Um er að ræða annars vegar afgreiðslu á umsókn kæranda, dags. 10. október 2018, sem afgreidd var með greiðslum 31. október 2018 og 14. mars 2019 og jafnframt bréfi stofnunarinnar, dags. 14. mars 2019. Hins vegar er um að ræða afgreiðslu á umsókn, dags. 25. mars 2019, sem afgreidd var með greiðslu 23. júlí 2019.

A. Kærufrestur

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega fimm mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um leiðréttar greiðslur með bréfi, dags. 14. mars 2019, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2019. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1.      afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2.      veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. mars 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2019, sem var ítrekað 29. október 2019, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Engar athugasemdir bárust frá kæranda vegna þessa en í gögnum málsins er byggt á því að það sé fráleit túlkun að kærufrestur sé liðinn vegna fyrri hluta aðgerðar. Fram kemur að þetta sé ein læknisaðgerð og það verði að hafa ákveðið hlé á milli verkþátta.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst ekki á framangreinda málsástæðu kæranda. Um er að ræða mismunandi stjórnvaldsákvarðanir Sjúkratrygginga Íslands sem hver um sig er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekkert í gögnum málsins benda til þess að afsakanlegt sé að kæra vegna ákvörðunar, dags. 14. mars 2019, hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að sá hluti kæru verði tekinn til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kæru er varðar ákvörðun, dags. 14. mars 2019, vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

B. Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands frá 23. júlí 2019

Samkvæmt 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. reglugerð nr. 484/2016, er sjúkratryggðum heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og þá endurgreiða sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands sé að ræða.

Fyrir liggur að kærandi óskar eftir endurgreiðslu kostnaðar vegna tannlækninga í B. Kærandi á því rétt á sömu greiðsluþátttöku og ef hann hefði leitað til tannlækna hér á landi. Í 20. gr. laga um sjúkratryggingar er fjallað um þjónustu tannlækna og ákvæðið hljóðar svo:

„Sjúkratryggingar taka til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára, annarra en tannréttinga, sem samið hefur verið um skv. IV. kafla. Þá taka sjúkratryggingar til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar þar sem m.a. er heimilt að kveða á um nánari skilyrði og takmörkun greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlækninga og tannréttinga. Í reglugerðinni er jafnframt heimilt að ákveða að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við tannréttingar sem ekki falla undir 2. málsl. 1. mgr.“

Með stoð í framangreindu ákvæði hefur verið sett reglugerð nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Í 3. og 4. tölul. 6. gr. reglugerðarinnar er fjallað um það hlutfall sem aldraðir og öryrkjar, sem ekki dvelja á stofnunum, greiða af gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Þá er fjallað um tanngervi og tannplanta í 8. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði 3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Heimilt er að taka þátt í kostnaði tenntra einstaklinga sem falla undir 1. og 3.-5. tölul. 6. gr. vegna fastra tanngerva og tannplanta framan við endajaxla. Greiðsluþátttaka miðast við það hlutfall sem fram kemur í 1. og 3.-5. tölul. 6. gr. vegna kostnaðar allt að tilteknu hámarki á hverju tólf mánaða tímabili samkvæmt samningum eða gjaldskrá, enda hafi meðferðin farið fram á sama tímabili. Sjúkratryggingar Íslands taka ekki samtímis þátt í kostnaði við ísetningu tannplanta í sama góm samkvæmt heimildum í 2. og 3. mgr.“

Nánar er fjallað um greiðsluþátttöku vegna fastra tanngerva og tannplanta í gjaldskrá sem fylgir rammasamningi á milli Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna í Tannlæknafélagi Íslands um tannlækningar fyrir aldraða og öryrkja. Í skýringum með gjaldskránni er í einum kafla fjallað um krónu- og brúargerð. Í upphafi þess kafla segir meðal annars svo:

„Greiðsla miðar við að í gjaldskrárnúmerum kaflans séu innifalin röntgenmynd, deyfing, tannskurður, máttaka, bitslípun, líming, frágangur og annað til fullra loka verksins. [...] Greiðsla Sjúkratrygginga Íslands vegna fastra tanngerva og tannplanta framan við endajaxla, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar skal vera allt að 80.000 kr. á hverju tólf mánaða tímabili, enda hafi meðferðin farið fram á sama tímabili, vegna þeirra sem eru langsjúkur á sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými, sbr. 1. tölul. 6. gr. en allt að 60.000 kr. vegna þeirra sem falla undir 6. gr.“

Fyrir liggur að kærandi sótti um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar með umsókn, dags. 25. mars 2019. Meðfylgjandi var reikningur vegna tannlækninga frá 21. mars 2019. Í reikningnum eru tilgreindir eftirfarandi gjaldliðir: „Abutments Alpha Bio, screw retained“, „temporary crown (chair-side), scutan“, „Bridge unit with 3D printed metal framework, porcelain cover“, „Bite guard, acrylic foil“ og „Local anaesthesia, infiltration“. Sjúkratryggingar Íslands endurgreiddu kæranda 60.000 kr. vegna framangreinds þann 23. júlí 2019.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindum skýringum með gjaldskránni að kærandi á ekki rétt á hærri endurgreiðslu en 60.000 kr. á hverju tólf mánaða tímabili vegna fastra tanngerva og tannplanta framan við endajaxla. Innifalið í þeirri fjárhæð er kostnaður vegna röntgenmyndar, deyfingar og annað sem þarf til fullra loka verksins. Að mati úrskurðarnefndar á kærandi því ekki rétt á frekari endurgreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands vegna umsóknar frá 25. mars 2019.

Kærandi byggir á því að eðlilegast væri að finna út hvað það hefði kostað Sjúkratryggingar Íslands hefði hann valið ódýrari leið sem hefði verið nothæf og hann greiði síðan þann umfram kostnað sem hafi leitt af hans vali. Úrskurðarnefndin telur að Sjúkratryggingar Íslands hafi enga heimild til þess að haga endugreiðslunni með þeim hætti sem kærandi leggur til.

Með hliðsjón af framangreindu er afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda frá 25. mars 2019 um endurgreiðslu erlends tannlæknakostnaðar staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, frá 25. mars 2019 um endurgreiðslu erlends tannlæknakostnaðar, er staðfest. Þeim hluta kæru er varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. mars 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta