Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Forsætisráðuneytið

1114/2022. Úrskurður frá 5. desember 2022

Hinn 5. desember 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1114/2022 í máli ÚNU 22100015.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. október 2022, kærði A lögmaður, f.h. Drífu ehf., synjun Isavia ohf. á beiðni um aðgang að gögnum.

Með tölvupósti, dags. 25. ágúst 2021, sendi kærandi beiðni um afrit af öllum greiðslum sem Isavia hefur fengið frá Miðnesheiði ehf., eða félögum sem tóku við réttindum og skyldum af því félagi, vegna sérleyfa (leigugreiðslna) um verslun með útivistarfatnað og minjagripi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá og með árinu 2010 til 25. ágúst 2021. Óskað var eftir því að greiðslur yrðu sundurliðaðar eftir árum, þ.e. hvert ár fyrir sig. Þar sem aðilinn hefði rekið tvær verslanir í flugstöðinni síðustu ár var óskað eftir því að fram kæmi hvað greitt hefði verið fyrir leyfi til að reka hvora verslun fyrir sig.

Isavia svaraði erindi kæranda með tölvupósti, dags. 1. september 2021, þar sem beiðni kæranda var hafn­að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, auk þess sem upplýsingarnar væru ekki fyrirliggjandi í skiln­ingi 1. mgr. 5. gr. laganna. Ákvörðun félagsins var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með erindi, dags. 13. september 2021. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1090/2022 var lagt fyrir Isavia að taka beiðni kæranda, dags. 25. ágúst 2021, til nýrrar meðferðar og af­greiðslu.

Í kjölfar úrskurðarins ítrekaði kærandi kröfu sína gagnvart Isavia ohf. Með tölvupósti, dags. 27. september 2022, óskaði Isavia eftir því við kæranda að tilgreint yrði með nákvæmari hætti hvaða fyrirliggjandi gögnum væri óskað eftir og að beiðnin yrði afmörkuð við skemmra tímabil. Með svari, dags. 28. september 2022, var upplýst af hálfu lögmanns kæranda að ekki væri talið tilefni til að tilgreina með nákvæmari hætti hvaða fyrirliggjandi gögnum væri óskað eftir. Beiðnin væri skýr og vandséð hvernig ætti að tilgreina umbeðin gögn með nákvæmari hætti, en á það bent að við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði komið fram af hálfu kæranda að afhending reikninga sem heyrðu undir beiðnina gætu verið fullnægjandi. Þá væri ekki heldur tilefni til að afmarka tímabilið nánar.

Með tölvupósti, dags. 30. september 2022, synjaði Isavia beiðni um afhendingu reikninga á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2012 með vísan til 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga. Þá synjaði Isavia jafnframt beiðni um afhendingu reikninga á tímabilinu 1. janúar 2013 til 4. ágúst 2021 með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Félagið hefði metið umfang umbeðinna gagna en um væri að ræða rúmlega 500 aðgreinda reikninga og að mati Isavia væri um slíkt magn skjala að ræða, að meðferð beiðninnar tæki of mikinn tíma og krefðist of mikillar vinnu til að unnt væri að verða við henni.  

Í kæru kemur fram að kærandi telji að ákvörðun Isavia um að synja um aðgang að umræddum gögnum sé röng og ekki í samræmi við lög. Telur kærandi að Isavia hafi verið óheimilt að synja kæranda um afhendingu gagnanna. Þá bendir kærandi jafnframt á að ekki verði séð að Isavia hafi brugðist með fullnægjandi hætti við fyrirmælum úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 1090/2022, enda virðist t.d. ekkert mat hafa farið fram á þeim ólíku hagsmunum sem vega þurfi og meta við beitingu á undantekningarákvæðum upplýsingalaga. Þá virðist í engu hafa verið litið til réttar kæranda til aðgangs að hluta, líkt og úrskurðarnefndin hafi sérstaklega tekið fram í úrskurði sínum. Að mati kæranda sé ljóst að beiðni kæranda sé skýr og afmörkuð, beiðnin varði aðgang að fyrirliggjandi gögnum og varði tiltekin gögn og tiltekið mál, sbr. 15. gr. upplýsingalaga.

Kærandi hafnar því að 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga geti átt við og telur ljóst að fyrirliggjandi tilvik geti ekki talist til ýtrustu tilvika líkt og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum. Þá sé umfang beiðninnar hvergi nærri slíkt að vinna Isavia við að taka gögnin saman myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum. Telur kærandi ljóst að ekkert raunverulegt mat á þeirri vinnu sem nauðsynleg sé til að afgreiða beiðni hafi farið fram, en ljóst sé af úrskurðarframkvæmd að ekki sé unnt að synja beiðni á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. á þeirri almennu forsendu að það sé vandkvæðum bundið að finna gögnin til og vísa til tiltekins fjölda reikninga með almennum hætti, líkt og Isavia hafi gert.

Þá mótmælir kærandi þeim röksemdum Isavia að yfirferð gagnanna á grundvelli 2. málsl. 9. gr. laganna sé mjög tímafrek. Isavia hafi ekki rökstutt með neinum hætti að hvaða leyti afhending gagnanna myndi leiða til tjóns þeirra þriðju aðila sem gögnin varða. Þá bendir kærandi á að hagsmunir­nir þurfi auk þess að vera virkir, sbr. 9. gr., en samkvæmt athugasemdum við 7. gr. breytingarlaga nr. 72/2019 eru hags­munir til dæmis ekki virkir þegar fyrirtæki er gjaldþrota. Kærandi telji því ljóst að Miðnesheiði ehf. hafi ekki virka hagsmuni enda hafi félaginu verið slitið 2. október 2019 og geti Isavia því með engu móti synjað um aðgang að gögnunum á þeim grundvelli að félagið hafi virka hagsmuni, auk þess sem umbeðnar upplýsingar séu allt að níu ára gamlar eða eldri. Séu því engir hagsmunir af leynd gagnanna lengur, hafi einhvern tíma yfir höfuð verið hagsmunir af leynd. Í þessu sambandi áréttar kærandi að í úrskurði nefndarinnar hafi verið sérstaklega á það bent að hluti þeirra gagna sem óskað var eftir, væri kominn til ára sinna og þegar af þeim sökum væri engan veginn sjálfgefið að gögnin teldust undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Veki því ákveðna furðu að svo virðist sem Isavia hafi í engu litið til þessa við mat sitt.

Kærandi telur að lokum nauðsynlegt að leggja áherslu á að umbeðnar upplýsingar varði ráðstöfun takmarkaðra, opinberra gæða. Með útboði á árinu 2014 hafi Isavia, sem er í 100% eigu ríkisins, boðið út sérleyfi fyrir rekstur í húsnæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem einnig er alfarið í eigu íslenska ríkisins.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Isavia ohf. með erindi, dags. 13. október 2022, og félaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að félagið léti úrskurðarnefnd um upp­lýsinga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran laut að.

Í umsögn Isavia, dags. 28. október 2022, kemur fram að ákvörðun félagsins um að synja kæranda um reikninga á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2012 byggist á því að samkvæmt 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga gildi ákvæði laganna eingöngu um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila sem urðu til eftir gildistökulaganna þann 1. janúar 2013. Þar sem félagið hafi ekki fallið undir gildissvið laganna þegar reikningar á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2012 urðu til, sé ljóst að félaginu hafi ekki verið skylt að afhenda umrædda reikninga. Þessi afstaða félagsins hafi áður verið staðfest af úrskurðarnefnd um upplýsingamál í máli nr. 844/2019, þar sem fallist hafi verið á að gögn með upplýsingum um þá ákvörðun að hefja gjaldtöku við bílastæði hafi orðið til fyrir gildistöku upplýsingalaga og synjun staðfest, sbr. 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga. Í þessu samhengi bendi Isavia á að hvorki sérleyfisútboð sam­kvæmt reglugerð nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunar­fjár­hæðum Evrópska efnahagssvæðisins, né leiga á verslunarrými fyrir gildis­töku reglugerðarinnar, séu stjórn­valdsákvarðanir.

Í umsögninni segir að Isavia hafi beðið kæranda um að afmarka beiðni sína nánar og takmarka hana við skemmra tímabil í samræmi við 15. gr. upplýsingalaga, þar sem upphafleg gagnabeiðni væri um­fangs­mikil og sneri að gögnum um greiðslur yfir ellefu ára tímabil. Í svari kæranda hafi komið fram að kærandi teldi ekki ástæðu til að takmarka beiðni sína við skemmra tímabil en tekið fram að afhending reikninga sem heyri undir beiðnina án sundurliðunar greiðslna gæti verið fullnægjandi. Isavia hafi því tekið beiðnina til meðferðar á þeim grundvelli og kannað hvaða gögn falli undir beiðni kæranda. Um sé að ræða 526 reikninga sem dagsettir eru á tímabilinu 1. janúar 2013 til 25. ágúst 2021. Í ljósi umfangs­ins hafi einungis nokkrir reikningar verið kannaðir en í flestum tilvikum sé um að ræða reikninga sem séu ein blaðsíða að lengd. Megi því ætla að um sé að ræða rétt rúmlega 526 blaðsíður af gögnum. Í ljósi framangreinds umfangs hafi Isavia hafnað beiðni kæranda með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þá séu gögnin sem um ræði vistuð í tveimur aðskildum bókhaldskerfum; gögn frá ársbyrjun 2017 séu vistuð í núverandi bókhaldskerfi en gögn fyrir þann tíma vistuð í eldra og óaðgengilegra bókhaldskerfi sem takmarkaður fjöldi starfsmanna hafi aðgang að. Félagið hafi gróflega áætlað að um 1–2 mínútur taki að sækja hvern reikning úr kerfinu og vista á skipulegan hátt sem PDF-skjöl. Vegi þar þyngra sá þann tíma sem taki að sækja gögn úr hinu eldra og óaðgengilegra kerfi.

Til viðbótar við þann tíma sem taki að sækja reikningana, hafi Isavia tekið mið af ummælum nefnd­arinnar í máli nr. 907/2020, um skyldu félagsins til að leggja mat á hvort upplýsingarnar í hverju og einu gagni séu þess eðlis að birting þeirra valdi þeim tjóni sem upplýsingarnar varði. Upplýsingar um greiðslur snúi flestar að veltutengdum leigufjárhæðum, markaðsgjaldi og föstum leigugreiðslum. Upplýsingarnar varði viðskiptalega hagsmuni þeirra félaga sem reikningana greiða og geti varpað ljósi á boðna veltuprósentu sem jafnað verði til einingarverðs. Vísar Isavia til þess að á félaginu hvíli skylda til að virða trúnað við fyrirtæki, meðal annars um boðin einingarverð, sbr. 30. gr. sérleyfisreglugerð­arinnar. Með vísan til þessarar trúnaðarskyldu og fyrri tilmæla nefndarinnar, hafi félagið talið að ef afhenda ætti reikningana væri óhjákvæmilegt að kanna efni hvers og eins reiknings og meta hvort heimilt sé að afhenda þá með tilliti til framangreindra hagsmuna. Telur félagið að áætla megi að um tveir til þrír vinnudagar sérfræðings í bókhaldsdeild félagsins færu í að safna saman reikningunum og þá megi gera ráð fyrir nokkurra klukkustunda vinnu lögfræðings félagsins að yfirfara reikningana. Að mati félagsins sé um að ræða of mikla vinnu til að hægt sé að verða við beiðninni.

Loks telji félagið óhjákvæmilegt að líta til þess að beiðni kæranda sé ekki sett fram í tómarúmi heldur sem hluti af fleiri upplýsingabeiðnum. Vísar Isavia til þess að þegar beiðni sé hafnað á grundvelli 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga sé heimilt að líta bæði til umfangs stakrar beiðni sem og fjölda þeirra frá einum og sama aðilanum. Isavia hafi borist á skömmum tíma árið 2021 fjórar aðgreindar beiðnir frá kæranda. Um sé að ræða beiðni frá 4. ágúst 2021 sem var til umfjöllunar í úrskurði 1083/2022, hina kærðu beiðni frá 25. ágúst 2021 sem einnig var til umfjöllunar í úrskurði nr. 1090/2022, beiðni frá 26. september 2021 þar sem engin gögn voru fyrirliggjandi til að afhenda og beiðni frá 7. október 2021 þar sem afhentir voru yfirstrikaðir samningar. Félagið telji að umfang framangreindra beiðna á skömmu tímabili styðji enn fremur við heimild félagsins til að hafna afhendingu á grundvelli 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Því telji Isavia að félaginu hafi verið heimilt að hafna afhendingu reikninga á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2012 á þeim grundvelli að gögnin hafi orðið til áður en félagið féll undir gildissvið upplýsingalaga. Þá telur félagið að því hafi verið heimilt að hafna afhendingu reikninga á tímabilinu 1. janúar 2013 til 25. ágúst 2021, þar sem umfang reikninganna og vinna við afhendingu þeirra sé of mikil til að hægt sé að verða við beiðninni.

Umsögn Isavia fylgdi hluti þeirra gagna sem kæranda var synjað um aðgang að. Sökum þeirrar afstöðu Isavia að umfang reikninganna og vinna við afhendingu þeirra sé of mikil til að hægt sé að verða við beiðninni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, voru úrskurðarnefndinni í dæmaskyni afhentir tólf reikningar af tímabilinu sem lýsandi dæmi um innihald reikninganna.

Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. október 2022, og veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 3. nóvember 2022, kemur fram að í umsögn Isavia sé fullyrt að um sé að ræða 526 reikninga sem dagsettir séu á tímabilinu 1. janúar 2013 til 25. ágúst 2021, sem í flestum tilvikum séu ein blaðsíða að lengd. Að mati kæranda fáist þetta ekki staðist. Umrætt tímabil spanni 104 mánuði og ef lagt sé til grundvallar að reikningarnir séu 526 talsins, líkt og Isavia haldi fram, hafi verið gefnir út um 5 reikningar á mánuði allt þetta tímabil vegna sérleyfa um verslun með útivistarfatnað og minjagripi í flugstöðinni. Jafnvel þótt lagt sé til grundvallar að um tvær verslanir sé að ræða, og þótt greint væri á milli útivistarfatnaðar og minjagripa í báðum verslunum, þá sé um gífurlegan fjölda reikninga að ræða. Kærandi telji ljóst að sá fjöldi reikninga sem Isavia beri fyrir sig sé óútskýrður og gangi ekki upp. Ekki sé því unnt að fallast á með Isavia að umfang umbeðinna gagna réttlæti höfnun hennar. Þá réttlæti hvorki umfang gagnanna né tíminn, sem fullyrt sé að tæki að safna þeim, að undantekningarreglu 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga verði beitt. Í því sambandi bendir kærandi á að 526 til 1052 mínútur, ef gert sé ráð fyrir því að tímaáætlun Isavia eigi við rök að styðjast, geti ekki talist of mikill tími í skilningi undantekningarreglu 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna.

Þá telur kærandi raunar ljóst að hér hljóti að vera um ofmat að ræða og undrast verulega þann mikla tíma sem kærandi geri ráð fyrir í verkið. Hefðbundin bókhaldskerfi bjóði upp á að reikningar séu kallaðir fram eftir t.d. kennitölum eða viðskiptamönnum. Að mati kæranda sé ótrúverðugt að sækja þurfi hvern og einn reikning og vista á skipulegan hátt sem pdf skjöl líkt og Isavia haldi fram. Sú áætlun Isavia um að tveir til þrír vinnudagar sérfræðings í bókhaldsdeild færu í að safna saman reikningum, auk nokkurra klukkustunda vinnu lögfræðings við að yfirfara reikningana, sé því að mati kæranda augljóslega ofmetin. Efni reikninganna sé væntanlega hið sama og því augljóslega ekki nauðsynlegt að framkvæma lögfræðilegt mat á hverjum einasta reikningi. Kærandi tekur fram að ekki sé unnt að láta kæranda, sem óski upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, bera halla af því ef Isavia búi ekki við hefðbundið bókhaldskerfi þar sem unnt er að kalla fram gögn með skipulegum og skjótum hætti.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum um allar greiðslur sem Isavia hefur fengið frá Miðnesheiði eða félögum sem tóku við réttindum og skyldum af því félagi vegna sérleyfa um verslun með útivistarfatnað og minjagripi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá árinu 2010 fram til 25. ágúst 2021. Isavia synjaði beiðni kæranda um aðgang að gögnum frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2012 á þeim grundvelli að gögnin heyrðu ekki undir gildissvið upplýsingalaga með vísan til 3. mgr. 36. gr. upp­­lýsingalaga. Beiðni um þau gögn sem eftir standa, þ.e. frá 1. janúar 2013 til 25. ágúst 2021, var synjað á þeim grundvelli að meðferð upplýsinga­beiðninnar tæki of langan tíma og krefðist of mikillar vinnu til að unnt yrði að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. upplýsingalaga gilda ákvæði laganna aðeins um þau gögn og upplýsingar í vörslu lögaðila skv. 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. sem urðu til eftir gildistöku laganna. Það eigi þó ekki við þegar viðkomandi hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun. Í athugasemdum við ákvæðið í frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum kemur fram að tilgangur ákvæðisins sé að gefa þessum aðilum færi á að laga vinnulag að kröfum upplýsingalaga. Undantekning sé þó gerð varðandi gögn sem fyrir liggja hjá slíkum lögaðilum og til hafa orðið í tengslum við meðferð þeirra á valdi til töku stjórn­valds­ákvarðana, enda hafi þau gögn fallið undir gildissvið upplýsingalaga frá upphafi. Úrskurðar­nefndin telur að þau gögn sem deilt er um í málinu hafi ekki orðið til í tengslum við meðferð Isavia á valdi til töku stjórnvaldsákvarðana. Verður því að vísa kæru frá úrskurðarnefndinni hvað varðar þann hluta gagnabeiðninnar sem snýr að gögnum sem urðu til fyrir 1. janúar 2013.

2.

Synjun Isavia styðst að öðru leyti við það að meðferð upplýsinga­beiðninnar tæki of langan tíma og krefðist of mikillar vinnu til að unnt yrði að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Þeirri ákvörðun til stuðnings vísar félagið til þess að undir beiðni kæranda falli 526 reikningar sem hver og einn sé um ein blaðsíða. Þeir séu vistaðir í tveimur aðskildum bókhaldskerfum. Um eina til tvær mínútur taki að sækja og vista hvern reikning. Samtals taki það tvo til þrjá daga fyrir sérfræðing í bókhalds­deildinni að safna saman reikningunum og nokkurra klukkustunda vinnu lögfræðings við að fara yfir þá, með hliðsjón af takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Isavia áætlaði að vinna við það tæki um tvo til þrjá daga að safna saman reikningunum, auk nokkurra klukkustunda vinnu lögfræðings félagsins við að yfirfara reikningana.

Í 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga segir að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum kemur skýrt fram að ákvæðið geti aðeins átt við í ýtrustu undantekningartilvikum. Þá segir að til þess að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt þurfi umfang upplýsingabeiðni eða fjöldi þeirra frá einum og sama aðilanum að vera slíkt að vinna stjórnvalds við afgreiðslu hennar mundi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt á það áherslu að fara verði fram raunverulegt mat á þeirri vinnu sem nauðsynleg sé til að afgreiða beiðni og gera verði strangar kröfur til þess að stjórnvald rökstyðji vandlega hvaða ástæður liggi til þess að ákvæðinu verði beitt, sbr. t.d. úrskurði úrskurðar­nefnd­arinnar nr. 663/2016 og 551/2014. Í síðara málinu var ekki fallist á að stjórnvaldi væri heimilt að beita ákvæðinu en rökstuðningur stjórnvaldsins laut að því að leit í málaskrárkerfi stofnunar hefði skilað 1.800 niðurstöðum. Í úrskurði nefndarinnar nr. 745/2018 var fallist á að beita heimildinni varð­andi aðgang að öllum úrskurðum í umgengnismálum í vörslum dómsmálaráðuneytisins. Í niður­stöðu nefndarinnar segir meðal annars að áætlaður heildarblaðsíðufjöldi úrskurðanna væri á annað þús­und. Með vísan til eðlis málaflokksins féllst nefndin á að vinnan við að afmá viðkvæmar upp­lýs­ingar úr úrskurðunum væri slík að dómsmálaráðuneytinu væri heimilt að beita undanþáguákvæðinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lýst er í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 15. gr. upplýsinga­laga í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum verður að leggja til grundvallar að ákvæðinu verði einungis beitt þegar sýnt þykir að vinnsla beiðni um upplýsingar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerð­ingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

Að öðru leyti en að framan greinir er ekki gerð nánari grein fyrir þeirri vinnu sem Isavia sér fram á að beiðni kæranda, sem úrskurðarnefndin telur að sé skýrlega afmörkuð og uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem fram koma í 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, komi til með að útheimta. Þá er ekki rökstutt með hvaða hætti afgreiðsla beiðninnar komi til með að valda umtalsverðri skerðingu á starfsemi þess. Virðist af­staða Isavia að hluta til mótast af því að gögnin séu vistuð í tveimur bókhaldskerfum, þar á meðal í eldra kerfi sem sé óaðgengilegra en hið nýja og aðgengilegt færri starfsmönnum. Úrskurðar­nefnd­in tekur af því tilefni fram að þrátt fyrir að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um hvernig aðilar sem heyra undir gildissvið upplýsingalaga haga skráningu og vistun gagna í umsýslukerfi sín þá samrýmist það ekki markmiðum upplýsingalaga að láta þann er fer fram á upplýsingar og setur beiðni sína fram í samræmi við þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga bera hallann af því ef slíkri skráningu eða vistun er ábótavant.

Að því er varðar vísanir Isavia til takmörkunarákvæðis 9. gr. upplýsingalaga ítrekar nefndin sjónarmið úr úrskurði sínum nr. 1090/2022 um að hluti þeirra gagna sem óskað er eftir er kominn til ára sinna og þegar af þeim sökum er engan veginn sjálfgefið að gögnin teljist undanþegin upplýsingarétti á grund­velli 9. gr. upp­lýs­ingalaga, enda þurfa hagsmunir þeir sem vísað er til í ákvæðinu að vera virkir, sjá til að mynda dóm Hæstaréttar Íslands frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 og úr­skurði nefnd­ar­innar nr. 1083/2022, 1063/2022 og 1043/2021. Í ljósi þess að fyrir liggur að félaginu Miðnesheiði ehf. var slitið 2. október 2019 telur úrskurðarnefndin enn fremur vandséð hvernig afhending upplýsinga um félagið geti skaðað hagsmuni þess sem lögaðila.

Að öllu framangreindu virtu getur nefndin ekki fallist á að yfirferð á reikningum á tímabilinu 1. janúar 2013 til 25. ágúst 2021 taki svo mikinn tíma að undantekningarákvæðið eigi við. Þá telur úrskurð­ar­nefndin að þær fjórar gagnabeiðnir frá kæranda sem Isavia bárust á síðari hluta ársins 2021 veiti fél­ag­inu eins og hér á stendur ekki meira svigrúm til að hafna beiðninni með vísan til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Beiðni kæranda er því vísað til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu hjá Isavia.

Í ljósi þeirra tafa sem orðið hafa á afgreiðslu Isavia leggur úrskurðarnefndin áherslu á mikilvægi þess að málið hljóti skjóta afgreiðslu.

Úrskurðarorð

Beiðni A lögmanns, f.h. Drífu ehf., dags. 28. september 2022, er vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu að því leyti sem hún tekur til gagna sem urðu til í starfsemi félagsins frá og með 1. janúar 2013. Að öðru leyti er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta