Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                             

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 8/2012:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 12. janúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 9. janúar 2012, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi dags. 12. janúar 2012. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001. Lausn finnist ekki í umsókninni og greiðslubyrði sé umfram greiðslugetu.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða ásamt frekari gögnum barst með bréfi, dags. 27. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 29. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru sinni segir kærandi að hann sé búinn að sækja um hjá umboðsmanni skuldara og það sé svo löng bið hjá honum að hann hafi þurft að semja við lánardrottnana um að fresta greiðslum af íbúðinni hans. Honum hafi verið sagt að hann gæti sótt um fjórða árið í frystingu hjá Íbúðalánasjóði. Sjóðurinn hafi synjað því og sagt að greiðslubyrði hans væri hærri en greiðslugetan. Ef synjunin standi verði íbúðin komin í uppboðsferli þegar Umboðsmaður skuldara verði kominn í málið. Opinber aðili hafi sagt kæranda að fara til umboðsmanns og hann segi kæranda að fara til Íbúðalánasjóðs og þeir synji honum um fyrirgreiðslu.

 

IV. Sjónarmið kærða

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2012, kemur fram að eins og svarbréf til kæranda beri með sér þá rúmist greiðslubyrði kæranda eftir greiðslufrestun ekki innan greiðslugetu og hafi borið að synja erindinu, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001. Greiðslugeta kæranda hafi verið metin af Landsbankanum.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hans rúmaðist ekki innan greiðslugetu.

Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um.

Eins og fram kemur í gögnum málsins myndi samþykki um greiðsluerfiðleikaúrræði verða til þess að greiðslubyrði kæranda yrði umfram getu hans. Eru möguleikar hans á að greiða af lánum sínum hvorki til staðar meðan úrræðum er beitt né eftir lok úrræða, en ekkert hefur komið fram um að þær upplýsingar sem kærandi lagði fram um greiðslugetu sína, og unnar voru af Landsbankanum, séu rangar. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar og verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun af þeim sökum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja A um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta