Hoppa yfir valmynd
9. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 82/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 82/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2019 kærði [...], ríkisborgari Kína (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. desember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 17. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 19. nóvember 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna trúarbragða sinna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í borginni [...] í Fujian héraði í Kína. Byggir kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann tilheyri minnihlutahópi í heimaríki, en hann sé kaþólskrar trúar. Kærandi hafi lagt á flótta enda talið víst að lögreglan hygðist fangelsa hann vegna aðildar hans að ólöglegri kaþólskri kirkju. Kærandi kveðst jafnframt hafa tjáð skoðanir um trúmál og gagnrýni á kommúnismann opinberlega á kínverskum samfélagsmiðlum. Eftir að kærandi hafi komið hingað til lands hafi hann einnig tjáð skoðanir sínar á vefsíðunni YouTube. Er kærandi fullviss um að hann verði settur í fangelsi og pyntaður verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í greinargerð er fjallað ítarlega um ástand mannréttindamála í Kína. Kveður kærandi að alþjóðlegar skýrslur beri með sér að yfirvöld brjóti á mannréttindum borgara landsins með ýmsum hætti, m.a. með pyntingum, handahófskenndum frelsissviptingum, alvarlegri skerðingu trúfrelsis og slæmum aðstæðum fanga. Þá færist sífellt í aukana að yfirvöld noti eftirlitskerfi til að herða stjórn sína á samfélaginu. Yfirvöld hafi heljartak á vef- og samfélagsmiðlum og hafi margir borgarar hlotið fangelsisdóm vegna virkni sinnar á internetinu. Í umfjöllun um trúfrelsi og aðstæður þeirra sem aðhyllast kaþólska trú í Kína kemur fram að kínversk yfirvöld leitist við að stjórna öllum hliðum trúarlegrar útbreiðslu. Þeir hópar kaþólikka sem lýsi yfir hollustu við Vatíkanið fái ekki heimild til að skrá sig með löglegum hætti. Heimildir hermi að í mörg ár hafi verið litið á óskráða kaþólikka sem pólitíska ógn við kínversku ríkisstjórnina og félagslegan stöðugleika vegna tengsla þeirra við Vatíkanið og páfann. Hafi yfirvöld verið fjandsamlegri við kaþólikka en þá sem eru mótmælendatrúar.

Aðalkrafa kæranda er byggð á því að hann eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum í heimaríki vegna trúarbragða, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að færa megi rök fyrir því að hann eigi á hættu að sæta ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana. Með því að aðhyllast kaþólska trú, vera meðlimur í kirkju sem sé ekki samþykkt af yfirvöldum og þar með ólögleg, ásamt því að hafa tjáð gagnrýnar skoðanir sínar um kínversk stjórnvöld á netinu, eigi kærandi á hættu að verða fyrir áreiti og ofbeldi af hálfu yfirvalda. Kærandi byggir varakröfu á því að hann sé í raunverulegri hættu á að vera settur í varðhald eða fangelsi af kínverskum yfirvöldum. Enn fremur hafi verið sýnt fram á að þeir einstaklingar sem sæti varðhalds- og fangelsisvist í Kína eigi á hættu á að vera beittir pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Þá telur kærandi að færa megi rök fyrir því að aðstæður í fangelsum í heimaríki hans séu það slæmar að vistun ein og sér feli í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrautavarakrafa kæranda er reist á því að í ljósi framangreindrar aðstæðna hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. sömu laga sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í 1. mgr. 74. gr. laganna að heimilt sé að veita útlendingi sem staddur sé hér á landi dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Af athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga verður jafnframt ráðið að rétturinn til alþjóðlegrar verndar nái ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins. Verða ákvæðin ekki skilin öðruvísi en svo að réttur umsækjenda til alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé háður því ófrávíkjanlega skilyrði að umsækjandi sé utan heimaríkis og staddur hér á landi eða komi hér að landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Ljóst er því að kæranda var heimilt að dvelja á landinu á meðan mál hans var til meðferðar hjá kærunefnd. Þann 12. febrúar sl. barst kærunefnd tölvupóstur frá Útlendingastofnun þess efnis að kærandi væri horfinn og að hann væri hugsanlega farinn af landinu. Af þessari ástæðu hafði kærunefnd samband við talsmann kæranda og óskaði eftir því að kærandi sendi staðfestingu á því að hann væri enn á landinu. Erindi kærunefndar var ekki svarað. Þar sem kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann sé staddur hér á landi verður, með vísan til framangreindra upplýsinga, að leggja til grundvallar að kærandi hafi yfirgefið landið.

Ekkert bendir til annars en að brottför kæranda af landinu hafi verið sjálfviljug en eins og áður hefur komið fram frestuðust réttaráhrif ákvörðunar Útlendingastofnunar við kæru til kærunefndar. Með vísan til þess og þar sem kærandi er ekki staddur hér á landi er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði laga um útlendinga til að verða veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi á grundvelli þeirrar verndar, sbr. 40. og 73. gr. laga um útlendinga. Þá telur nefndin að 42. gr. laga um útlendinga komi ekki til skoðunar þar sem kærandi hefur sjálfur yfirgefið landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.ÚrskurðarorðÁkvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                         Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta